07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Við lok þessarar umr., sem segir auðvitað ákaflega mikið um hina ókláru skiptingu, sem í þessu húsi er milli manna og fylkinga þeirra, vil ég taka upp ummæli hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, sem fagnaði því helst í umr. hvernig hún sýndi hverja höndina upp á móti annarri í hæstv. ríkisstj. Það er ekkert leyndarmál að þar er hver höndin upp á móti annarri.

En þetta mál snýst um efnisatriði. Það snýst um þau efnisatriði að of fjár af fjármunum skattgreiðenda er mokað til beinna styrkja til framleiðenda. Hér hafa þeir talað hv. landbúnaðarspekingar Sjálfstfl. Einn er hv. þm. Egill Jónsson, landskunnur af viti og þekkingu í landbúnaðarmálum, annar er hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson. Sá fyrri gerði grein fyrir því að Sjálfstfl. væri að undirbúa stefnumörkun í málunum. Ráðh., sem er í Sjálfstfl. og efstur á Norðurl. v. samkv. nýjum niðurstöðum í prófkjöri, hafði ekki hugmynd um þessa stefnumörkun.

Svo koma þeir hér af suðvesturflankanum úr Sjálfstfl. og tala um að ríkisstj. sé sjálfri sér ósammála. Gott og vel, það er ekkert leyndarmál. En er þá ekki eðlilegt að þessi ennþá stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar, sem sækir atkvæðin flest hingað á suðvesturhornið og hefur þm. eins og hv. þm. Albert Guðmundsson, hefur þm. eins og hv. þm. Salome Þorkelsdóttur og hefur meira að segja út um land þm. eins og hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson — að þetta fólk geri nú einu sinni grein fyrir efnisatriðum — sem það kann ekki að gera, ekki í vaxtamálum, ekki að því er varðar Framkvæmdastofnun, ekki neins staðar — og svari okkur?

Er frú hv. þm. Salome Þorkelsdóttir með eða móti þessum ríkisstyrkjum til landbúnaðar sem hér er verið að tala um? Er hv. þm. Albert Guðmundsson með eða móti þessum ríkisstyrkjum?

Sannleikurinn er sá, að þetta fólk veður skýjum ofar og þyrlar upp þeim blekkingum framan í þjóðina með hjálp Morgunblaðsins, að það sé einhver ein stefna til þarna. Þetta fólk nær yfir allan feril íslenska flokkakerfisins og er að ögra hæstv. ríkisstj. statt og stöðugt með áburði um ósamkomulag, sem öllum er þó kunnugt um. Vandinn er sá, að það er ekki öllum kunnugt um ósamkomulagið, um þjóðirnar tvær, sem í þessum flokki búa og Morgunblaðið heldur utan um með falskri goðsögn, utan um ekki neitt.