07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 4. landsk. þm. að flestar fsp., sem til okkar var varpað hér af hv. 4. þm. Reykv., eru ekki á dagskrá og snerta ekki það mál sem er á dagskrá. Hitt er annað mál, að ég þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir að svara því hvers konar þm. ég er. Þetta er alveg rétt, ég undirstrika þetta, ég er fyrirgreiðslumaður í stjórnmálum og ég skammast mín ekkert fyrir það. Ég bauð mig fram til þjónustu við fólkið og við landið eins og flestallir aðrir kjörnir þm. sem hér eru inni. Ég tel það frekar heiðurstitil en hitt að vera fyrirgreiðsluþingmaður.