07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög og ekki láta þær verða almennar umræður um lánsfjáráætlun. Þó verð ég aðeins að víkja að nokkrum atriðum. Hv. 1. þm. Reykv. gerði það þó að nokkru leyti og svaraði því sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. svipað og ég hafði hugsað mér.

Ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á að því fer víðs fjarri að málþóf hafi verið á s.l. ári þegar lánsfjáráætlun var til umræðu - eða er hæstv. fjmrh. að halda því fram að þingmenn Sjálfstfl. hafi staðið fyrir málþófi um lánsfjáráætlun frá því í október á árinu 1981 fram til 25. apríl 1982? Ég held að þegar hann athugar dagsetningu á afgreiðslu lánsfjárlaga á þessu ári átti hann sig á því líka að hér var ekki um það að ræða heldur voru lánsfjáráætlunin og lánsfjárlögin svo illa undirbúin, eins og kom réttilega fram í ræðu 1. þm. Reykv., að ríkisstj. treysti sér ekki til þess að ná þeim fram fyrir áramót.

Í svörum ráðh., sem ég þakka fyrir, kom fram það, sem mig grunaði, að ríkisstj. hefur gefist upp við að leggja fram lánsfjáráætlun nú, gefist upp við það nákvæmlega eins og hún hefur gefist upp við að leggja fram sína stefnu í efnahags- og peningamálum með fjárlagafrv. Í staðinn fyrir það er komið með ákveðna reiknitölu, svona til þess að hafa einhverja viðmiðun á hækkun fjárlaga á milli ára, en menn hafa þar gefist upp við að meta stöðu mála. Það er ósköp eðlilegt að þeir hafi gefist upp við það því að þeir vita ekkert hvert þeir stefna, þeir hafa enga stefnu í þessum málum sem öðrum.

En röksemdafærslu hæstv. ráðh. fyrir því hvers vegna lánsfjáráætlun væri ekki lögð fram fyrir áramót og ekki hægt að fá hana afgreidda fyrir áramót er ég algjörlega andvígur. Og ég spyr: Til hvers var þá hæstv. ráðh. að standa að lagasetningu eins og þeirri sem hér hefur verið vikið að, þ.e. lögum nr. 13 frá 1979 um sérstaka stjórn efnahagsmála, þar sem allt þetta er tekið fram sem þeir nú í ríkisstj. brjóta, þ.e. um framlagningu lánsfjáráætlunar og ríkisendurskoðunarskýrslu og allt eftir því? Þetta sýnir að þarna er ekki um annað en pappírsgagn að ræða, eins og á var bent þegar þessi lög voru samþykkt.

Hv. 1. þm. Reykv. vék að þeim atriðum í ræðu hæstv. fjmrh. að vandamálin voru svo víða. Þeir hafa engin úrræði. Þeir verða þar af leiðandi að ýta þessu öllu á undan sér og geta ekki með nokkru móti komið saman lánsfjáráætlun, vilja ekki láta það sjást hversu erfiðleikarnir eru geysilega miklir.

Hér kom fram í ræðu hv. 6. landsk. þm. hvernig umframgreiðslur hafa átt sér stað. Ráðh. staðfesti það hér, að vísu með sínum skýringum. Þetta hefði að sjálfsögðu átt að vera komið á borð alþm. í skýringu frá ríkisendurskoðanda. En hv. 6. landsk. þm. dró þetta í ljós til að sýna með hvaða hætti framkvæmdavaldið færi að. Hér sitjum við, fjárveitingavaldið í landinu, og fáum tilkynningu um hvernig ríkisstjórninni hefur þóknast að samþykkja greiðslur á þessu ári án þess að hingað hafi verið leitað samþykkis né heldur, eins og ég gat um áðan, gerð grein fyrir þessum hlutum eins og á að gera samkv. lögunum frá 1979.

Ég vil mótmæla því sem hv. 6. landsk. þm. sagði í sambandi við afgreiðslu lánsfjáráætlunar í minni tíð sem fjmrh. Lánsfjáráætlunin var lögð fram í fyrsta skipti haustið 1975 í þeirri gerð sem hún er nú í og lánsfjárlög voru ævinlega samþykkt áður en fjárlög voru samþykkt. Það voru allar heimildir, allar tekjujöfnunarheimildir, allar lántökuheimildir, samþykktar áður en fjárlögin voru samþykkt. Þetta vil ég að komi skýrt fram.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um lánsfjáráætlunina. Það er skýrt komið fram að ríkisstj. treystist ekki til þess að leggja hana fram og þaðan af síður hugsar hún sér að fá hana afgreidda hér. Það liggur auðvitað ljóst fyrir.

Hv. 11. þm. Reykv., formaður fjh.- og viðskn. Ed., vék nokkuð að þeim atriðum sem ég kom inn á varðandi brbl. Ég var ekki með neinar fullyrðingar, ég túlkaði ekki neinar skoðanir á þeim ummælum eða þeim skoðunum sem fræðimenn hafa á þeim atriðum sem þar er deilt um. Ég var aðeins að sýna fram á með hvaða hætti vinnubrögðin eru. Hér sitjum við og ræðum brbl. sem gefin voru út á s.l. sumri. Það eru fengnir sérfræðingar. Sérfræðingarnir eru ekki á sömu skoðun. Það er vissulega rétt, einsog hæstv. utanrrh. sagði, að lögfræðinga greinir stundum á. Og hann sagði: Þegar þá greinir á leita menn til dómstólanna. — En það kemur oft fyrir að dómararnir eru ekki heldur sammála. Þá ræður auðvitað meirihlutinn þegar um fjölskipaða dóma er að ræða.

Hæstv. utanrrh. er nú fjarverandi. Ég ætla ekki að deila við minn gamla lagakennara um réttaráhrif brbl. En ég get ekki látið hjá líða að benda á, að ég held að ekki hafi gætt sömu sjónarmiða í því sem hann sagði og því sem frá öðrum hefur komið í þessum efnum. Í bréfi sem fjh.- og viðskn. Ed. fékk frá kauplagsnefnd er skýrt tekið fram hver vísitalan sé samkv. útreikningi og hvað sé frá henni dregið samkv. öðrum lögum og samkv. brbl. Ef þau væru felld er það skoðun þess sem talaði á fundi í morgun og, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði, skoðun hagstofustjóra eða þeirra sem hann leitaði til, að þá verði kaupgjaldsvísitala greidd samkv. þeirri framfærsluvísitölu sem kauplagsnefnd hefur reiknað.

En ég er sammála formanni fjh.- og viðskn. Við skulum að sjálfsögðu bíða eftir niðurstöðum og draga ekki ályktanir fyrr. Ég hef ekki verið að gera það. Ég hef ekki lýst minni skoðun á málinu, heldur hef ég verið að benda á hvers konar vinnubrögð hér er um að ræða.

Ég sé svo ekki ástæðu, herra forseti, til að fara fleiri orðum um þetta. Það hefur verið staðfest hér að hæstv. ríkisstj. treystist ekki til að leggja lánsfjáráætlun fram eins og lagaskylda segir til um.