07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi mótmæla mjög eindregið þeirri staðhæfingu hæstv. fjmrh. að stjórnarandstaða hafi á síðasta þingi með málþófi tafið afgreiðslu lánsfjáráætlunar. Þetta eru mjög ómakleg ummæli, eins og raunar hv. síðasti ræðumaður hefur vikið að. Ég veit að formaður fjh.- og viðskn. Ed. mun staðfesta það með mér að stjórnarandstaðan vann gífurlega mikið starf til að reyna að koma lánsfjáráætlun áleiðis. Við unnum stundum um helgar og héldum marga fundi í hverri viku. Við gerðum allt sem við gátum til að greiða fram úr þeirri flækju sem þar var á. Þar var mikill ágreiningur innan stjórnarliðsins sjálfs, sem við bæði fundum beint í einkaviðræðum og allir vissu um. Það var sök stjórnarsinna sjálfra að þetta dróst.

En reyndar kom hæstv. fjmrh. að mergnum málsins í lok fyrri ræðu sinnar, eftir að hann var búinn að fárast yfir málþófi stjórnarandstöðu. Þá sagði hann: Ja, það væri kannske rétt að geyma að leggja fram lánsfjáráætlunina, því að reynslan sýnir að betra er að hafa lánsfjáráætlunina vel undirbúna. — Hann vissi svo sem sjálfur hver ástæðan var. Hún var óundirbúin þegar hún var lögð fram og nú ætlar hann að hafa hana vel undirbúna og betri en síðast af því að reynslan frá í fyrra sýnir að það er betra. En það er ekki okkar sök svo sannarlega, því við vorum reiðubúnir að mæta hvenær sem var, jafnt um helgar sem aðra daga, til að vinna að því máli. Ég vísa algjörlega þessum staðhæfingum á bug. En þetta var ekki það sem ég aðallega ætlaði að fjalla um.

Fyrsti fundur fjh.- og viðskn. Ed., sem einmitt fjallaði um þetta mál, efnahagsfrv., sem hér hefur mjög borið á góma, og sem jafnframt var raunar fyrsti fundur í nokkurri starfsnefnd þingsins, hygg ég, á þessu þingi, var haldinn fyrir þrem vikum eða hvað það nú er. — Það hafa engir fundir verið haldnir í nokkurri starfsnefnd þingsins, fastanefnd, nema til að kjósa formenn og ritara. Svona eru vinnubrögðin. Ég undanskil að sjálfsögðu utanrmn. og fjvn. Þetta er nokkur lýsing á því hvernig stjórnarfarið er í þessu landi. — En á þessum fyrsta fundi vakti ég athygli á að það væri ekki sæmandi fyrir alþingismenn, og þá náttúrlega síst þá sem í n. sitja og um málið fjalla, að afgreiða þetta frv. frá sér þannig að ekki væri alveg ljóst hvað í því fælist í einu og öllu. Það var sem sagt kominn upp ágreiningur um hvernig skilja bæri 1. gr. frv., aðalgreinina. Sumir héldu því fram að ef hún yrði felld eftir 1. des. — í þeirra hópi er hæstv. utanrrh., sem hér talaði áðan,- mundi skerðingin samt verða viðvarandi. Aðrir voru með alveg gagnstæða skoðun og þar á meðal skilst mér hagstofustjóri, ef ég hef skilið ummæli hér áðan rétt. Þarna eru tveir fræðimenn og menn sem njóta virðingar á lögfræðisviðinu algjörlega á gagnstæðum skoðunum.

Við skulum láta liggja milli hluta að vinnuveitendur eru ósammála verkalýðssamtökum. Það kemur æðioft fyrir eins og lög gera ráð fyrir. En þeir skýra þetta þó með rökstuðningi hvor á sinn veginn. Ég held að við getum ekki fram hjá því komist, eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson vék raunar að hér áðan, að greiða úr þessari flækju áður en til atkvæða er gengið þannig að allir viti hver niðurstaðan yrði af að fella lögin eða samþykkja.

Ég get sagt það alveg eins og það er, að ég hélt frá upphafi og fram eftir hausti, og ég held að flestir hafi gert það, að það væri alveg ljóst að ef lögin yrðu í gildi í des. væri skerðingin komin til framkvæmda, hún yrði ekki aftur tekin. Þessu hefur nú verið mótmælt og færður fram talsverður rökstuðningur fyrir því gagnstæða, þar á meðal af prófessor Sigurði Líndal í morgun, þó hann vildi ekki fullyrða í því efni. — Ég held að það sé nokkuð saklaust að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen sagði frá þessu hér áðan, alla vega er búið að segja frá því og þess vegna skulum við ræða það alveg opinskátt.

Hæstv. utanrrh. sagði að þeir menn sem hugsuðu sér að fella frv. ættu að skoða hug sinn betur ef hans skýring væri ekki rétt. Hann benti á að það væru mismunandi skoðanir og lögfræðinga greindi á og þá yrði leitað til dómstóla — á sínum tíma, bætti hæstv. utanrrh. við. Hvenær rennur sá tími upp? Hvenær mundi hæstaréttardómur vera upp kveðinn? Hvað lengi eiga menn að lifa í óvissunni? Hvenær á að byrja að greiða féð út eða greiða það ekki? Þetta er allt á sömu bókina lært. Og mér dettur ekki í hug með hliðsjón af þeirri reynslu sem við hér á Alþingi og þjóðin öll hefur af þessari ríkisstj., sem frá upphafi var stofnuð og hefur starfað af sviksemi og undirferli, — (Gripið fram í.) Af sviksemi hefur ríkisstjórnin starfað. — að það sé einhver tilviljun að 1. gr. er orðuð svona. Ég ætla að lesa þessa grein, með leyfi forseta, þ.e. 1. mgr.:

„Vegna samdráttar þjóðartekna og í þeim tilgangi að draga úr víxlgangi kaupgjalds og verðlags skal frá 1. des. 1982 fella niður helming af þeirri verðbótahækkun launa er ella hefði orðið vegna ákvæða í 48.–52. gr. laga nr. 13/1979, sbr. 5. gr. laga nr. 10/1981.“

Það gerðist í morgun, að þessi fræðimaður, sem til var kvaddur og útnefndur af lagadeild Háskólans, greinir frá því að ekki sé hægt að skilja þetta orðalag öðruvísi en svo, að helmingur allra verðbóta á meðan lögin eru í gildi, hvort sem það verði í eitt ár eða tvö eða þrjú eða hve lengi, skuli alltaf niður falla. Þegar ég les þetta og ég á nú að heita lögfræðingur, get ég ekki heldur lesið neitt annað út úr þessu. En ég skal líka játa að ég gerði mér ekki grein fyrir þessu. Ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta væri svona afdráttarlaust orðað. Mér kemur ekki til hugar að það sé af tilviljun sem þetta er svona orðað. Það hefði enginn lögfræðingur orðað þetta með þessum hætti nema vegna þess að hann ætlaðist til þess að kjaraskerðingarnar héldu áfram 1. mars, 1. júní, o.s.frv. (ÓRG: Er einhver lagagrein þarna sem vitnað er til í þessari málsgrein?) Ég treysti prófessor Sigurði Líndal mjög vel. En ég geri alveg ráð fyrir að það komi upp einhver ágreiningur um þennan skilning líka. En hann er nýr. Þetta hefur fólkið í landinu aldrei fengið að vita. Ekki einu sinni að það væri hugsanlegt að lesa þetta svona.

Þó að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sé ekki lögfræðingur skilur hann íslenskt mál. Það þarf ekki lögfræðing til að lesa út úr þessu annað en það sem þarna stendur. Ef það var meiningin að skilja greinina einhvern veginn öðruvísi ætti a.m.k. að vera einhver greinargerð með eða þá að hæstv. forsrh., sem er gagnorður maður og segir alltaf satt og rétt frá, hefði greint frá því, þó ekki væri nema í einni setningu, hver skilningurinn ætti að vera, þegar hann mælti fyrir frv. Nei, þetta er því miður allt á sömu bókina lært.

Ég ætla ekki að ræða þetta efnislega miklu meira á þessu stigi, hefði ekki gert það nema að gefnu tilefni, hefði beðið með það til morguns, þá fáum við þessa grg. En þarna er maðkur í mysunni, það er alveg ljóst. Og við getum ekki verið þekktir fyrir það, hv. alþm., að ganga frá þessari lagasmíð þannig að það sé ekki alveg ljóst hvað í lögunum felst. Við getum ekki farið að vísa þessu máli til einhverrar nefndar, kauplagsnefndar, eða til undirréttar og síðan til Hæstaréttar. Það er ekki sæmandi neinum okkar. Okkur getur greint á um afleiðingar, um efni og annað slíkt, en við verðum að fá að vita, og fólkið í landinu á heimtingu á að fá að vita, hvað sé á seyði, hvað sé í pokanum. Ef það er ekki verið að dylja neitt, ef það var ekki meiningin að ná meira fram með þessari kjaraskerðingu, — því að sumir stjórnarsinnar a.m.k. segja að það þurfi miklu meiri kjaraskerðingar til að bjargast út úr verðbólgunni, — ef það var ekki meiningin að ná þessu fram bakdyramegin, ef þannig má að orði komast, lauma meiri kjaraskerðingum inn, þá verður það líka fram að koma.

En ég sagði áðan, að það væri svo augljóst að mönnum hefði sést yfir 1. mgr. og þar með mér. Það er líka alveg augljóst hvað fyrir stjórnarsinnum vakir. Þeir eru loksins núna búnir að viðurkenna að það megi rjúfa þing og efna til kosninga, þó helst varla fyrr en í apríl. En þeir fást ekki með nokkru lifandi móti, neinir þeirra, til að segja af sér. Hvers vegna ekki? Ósköp einfaldlega vegna þess að þeir ætla sér að sitja á ráðherrastólunum þegar talið verður upp úr kjörkössunum. Þeir ætla að vera þá við völd og vilja þá gjarnan hafa lagaheimildir, þurfa ekkert að leita til Alþingis um eitt eða neitt. Kjaraskerðingin verður í lögum kannske í fjögur ár og á þriggja mánaða fresti. Þeir hafa hana í lögunum, þeir þurfa ekki til eins eða neins að leita. Þess vegna ætla þeir sér að sitja þegar talið verður úr kjörkössunum og þá ætlar hæstv. forsrh. að sjálfsögðu að segja við forseta Íslands: Ja, ég skal víkja þegar komin er meirihlutastjórn, en fyrr ekki. — Þá verður setið til haustsins og stjórnað með tilskipunum. Þetta er það sem fyrir þeim vakir og þetta er það sem allir hafa sagt. Þeir hafa ekkert farið á bak við fólkið. Hv. formenn stjórnarflokkanna, bæði Framsfl. og Alþb., hafa margítrekað að þeir færu út í kosningar til að styrkja fylgi ríkisstj. Þeir hafa aldrei dregið neina dul á það. Og forsrh. hefur að að sjálfsögðu haldið því sama fram frá fyrsta degi, að þeir ætli að sitja út kjörtímabilið. Hann neitar með öllu að segja af sér.

Þetta er líka nokkuð sem fólkið í landinu hlýtur að gera sér grein fyrir alveg á næstu vikum. Þetta laumuspil er það, að það á að framlengja líf þessarar stjórnar með þessum hætti, jafnvel sem minnihlutastjórnar, fyrst til haustsins, með venjulegum bolabrögðum. Það hafa verið bolabrögð frá fyrsta degi og verða auðvitað þangað til þessi ríkisstj. fellur. Ég vona náttúrlega að stjórnarandstæðingar vinni það stóran sigur að stjórnin geti ekki komið í veg fyrir myndun meirihlutastjórnar, eins og þeir sem ráða ferðinni núna gerðu vísvitandi um áramótin ‘79 og ‘80. Vísvitandi komu þeir í veg fyrir að hægt væri að mynda heilbrigða meirihlutastjórn. Þannig var að málum unnið. Nú á að reyna það aftur á nýjan leik og stjórna þá bara með tilskipunum til haustsins. —En þetta verður nú allt nánar til umræðu síðar.