07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Ég þarf varla að svara útúrsnúningum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar öðruvísi en ég gerði úr sæti mínu. Ég sagði að ríkisstj. hefði verið mynduð með svikum og undirferli og við það stend ég. Ég held að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson viti hvernig að því var farið og að því var staðið. Ég sagði ekkert um að hæstv. landbrh. hefði staðið fyrir þeim svikum. Hann gekk síðastur inn í þá ríkisstj. ásamt hæstv. dómsmrh. Það veit allur landslýður. Það þarf ekkert frekar um það að deila.

Ég sagði líka að foringjar beggja stjórnarflokkanna marglýstu því yfir að þeir væru að stefna að kosningum til að styrkja meiri hl. stjórnarinnar, þeir fara ekkert dult með það, og forsrh. gerði það líka. Þess vegna væri keppt að því af þessum þrem aðilum að halda stjórnartaumunum þegar talið er upp úr kössunum til þess að geta haldið þeim áfram og reyna þá að þvælast í stjórn áfram a.m.k. eða hugsanlega ná í einkvers konar flokksbrot með sér til að ná meiri hl. og halda áfram næstu fjögur ár. Þetta er það sem mennirnir segja. Þetta þarf fólkið að skilja. Þess vegna neita þeir alltaf að segja af sér. — Bara rjúfa þing, aldrei að segja af okkur. (ÓRG: Hv. þm: Hefur nokkuð annað komið fram frá ráðh. Sjálfstfl.?) Hefur nokkuð annað komið fram? Þeir hafa a.m.k. ekki lýst þessu yfir. Þeir hafa þó kannske ekki lýst yfir því gagnstæða. En við skulum láta útrætt um þetta í bili.

En ég held því fram, a.m.k. grunar mig það, að það sé engin tilviljun að 1. gr. er svona orðuð, heldur hafi verið reynt að orða hana þannig að hver sem væri gæti lesið út úr henni það sem hann vildi, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson gæti lesið út úr henni að kjaraskerðingin ætti bara að vera einu sinni t.d. og að hv. þm. Halldór Ásgrímsson gæti gert sér vonir um að hún yrði eitthvað meiri og oftar. Og ég er nokkurn veginn viss um hver meistarinn er sem þetta samdi.