07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Þegar hinn dagfarsprúði hv. 3. þm. Austurl., varaformaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, hleypir í sig slíkum æsingi sem viðstaddir tóku eftir og efnir til almennrar efnahagsumr. mundu kannske einhverjir láta sér detta í hug: Sök bítur sekan. Að vísu var hann ekki á þingi haustið 1978, en það var hans flokkur sem þá efndi til vinstri stjórnar undir kjörorðinu „Samningana í gildi“ og gekk á bak ráðstafana og orða sinna um nauðsyn þess að eitthvað yrði gert í baráttunni gegn verðbólgunni fyrr á árinu 1978. Hann hefur gengið götu blekkinga síðan gagnvart launþegum annars vegar og fyrri heitum hins vegar. Þessi maður talar úr glerhúsi og ætti ekki að efna til almennra efnahagsumræðna af því að sú ríkisstj. sem nú situr hefur brotið ríkisstjórna oftast og mest af sér gagnvart vísitölu og beitt vísitölufölsunum. Og það vil ég segja, að það er allt annað mál að koma beint framan að fólki og gera ákveðnar ráðstafanir og skýra hvað í þeim felst en fara á bak við fólk, eins og núv. ríkisstj. og fyrri vinstri stjórnir hafa gera á fjögurra ára ferli.

Því vildi ég líka bæta við, að þegar menn eru að tala hér um að það sé óeðlilegt að krefjast þess að löggjöf sem samþykkt er eða afgreidd og er til meðferðar hér á Alþingi sé skýr og menn vita hvað átt er við, þegar svo slík krafa er gerð og hún er túlkuð sem svo, að menn séu tilbúnir að standa að því að skerða vísitöluna áfram allt vísitöluútreikningstímabilið á næsta ári, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lét í veðri vaka, tala menn út og suður og eru ekki að tala um málefnið sjálft. Það er ekki að furða þó að þessi brbl. valdi deilum. Það er ekki að furða þótt þau séu túlkuð með mismunandi hætti. Það er bersýnilegt að undirbúningur þessarar löggjafar hefur verið með endemum, þó ekki sé litið á þann undirbúning nema frá lagatæknilegu sjónarmiði og þótt látið sé liggja á milli hluta hver efnistilgangur laganna átti að vera og er. Það þarf ekki að vera með svo lágkúrulegan málflutning sem mér finnst hafa gætt bæði hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og, sem mér kemur nú fremur á óvörum, hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni.