07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hugsa að það hafi farið fyrir fleiri hv. þm. eins og mér eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, formanns fjh.- og viðskn. Nd., það ég best veit, varaformanns Framsfl., og það sé ekki að ósekju að manni dettur í hug að einhvers staðar innan ríkisstjórnaraðildarinnar séu hugmyndir um frekari kjaraskerðingu. Þessi hv. þm. sagði um stjórnarandstöðuna: Þeir leyfa sér að fullyrða að það sé kjaraskerðing að falsa vísitöluna. (Gripið fram í.) Falsa vísitöluna, já. Það er að falsa vísitöluna að breyta henni með þeim hætti sem núv. hæstv. ríkisstj. gerir og allar ríkisstjórnir í landinu hafa líklega gert.

Ég get verið sammála hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni um að núverandi vísitölukerfi hefur ekki fært launþegum það sem ætlast var til, en hv. þm. hefði átt að bæta við: Hvers vegna hefur það ekki fært þeim það? Það er vegna þess að stjórnvöld hafa alltaf gripið inn í og notað þetta tæki til að skerða launin. Það er þess vegna sem þetta kerfi, sem við búum við og höfum búið við æðilengi, hefur ekki fært launafólki það sem til var ætlast á sínum tíma. Og verkalýðshreyfingin hefur krafist og krefst enn réttlátara verðbótakerfis. Það á ekki að kenna vísitölukerfinu út af fyrir sig um þetta. Þar má um kenna inngripi stjórnvalda hverju sinni og þar á meðal og ekki síst inngripi núv. hæstv. ríkisstj.

En ég vek athygli á því aftur, að það er ekki að ástæðulausu að hv. þm. hefur dottið í hug að einhverjar hugmyndir væru á kreiki hjá hv. þm. stjórnarliðsins um frekari kjaraskerðingar en þær sem út úr brbl. hefur mátt lesa hingað til, sem virðist nú vera að breytast.