07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að gera þessa athugasemd.

1. liður hennar er sá, að síðan þessi ríkisstjórn var mynduð hefur vísitölunni verið breytt aðeins tvisvar sinnum vegna löggjafar sem hún hefur beitt sér fyrir. (GeirH: En síðustu 4 árin síðan 1978?) Vill ekki hv. þm. Geir Hallgrímsson sýna þá hógværð og trúmennsku sem hann var hér í ræðustól áðan að tala um að væri nauðsynlegt að menn sýndu — eða er samviskan eitthvað farin að naga þm.? Er hann farinn að muna eftir fljótræðinu með febrúarlögin, sem hann þurfti síðan að bæta fyrir með maílögunum af því að hann hafði greinilega ekki hugmynd um hvað var í febrúarlögunum, sem hann sjálfur setti, og þurfti að grípa til þess rétt fyrir kosningar að leiðrétta mestu vitleysurnar í febrúarlögunum? Sjálfur forsætisráðherrann hafði ekki hugmynd um hvað í þeim fólst. Geir Hallgrímsson er eini forsætisráðherrann á Íslandi sem hefur orðið að setja brbl. til að leiðrétta það sem hann hafði ekki einu sinni hugmynd um sjálfur að fælist í eigin lögum. Maílögin 1978 eru vitnisburður um lagasetningu ríkisstjórnar sem gerði sér ekki sjálf grein fyrir hvað fólst í eigin lögum og þurfti rétt fyrir kosningar að grípa til þess að leiðrétta þau með maílögunum. Það voru öll vönduðu vinnubrögðin. Það voru öll heilindin í að gera sjálfum sér og þjóðinni grein fyrir hvað fælist í lagasetningunni. (GeirH: Það kom sér vel fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu.) Það kom úr hörðustu átt þegar hv. þm. Geir Hallgrímsson fer að tala hér um vandaða lagasetningu vegna þess að hann er eini ráðherrann sem hefur orðið að gripa til stórfelldrar brbl. — setningar til að leiðrétta lagasetningu sem hann sjálfur beitti sér fyrir.

En að gefnu tilefni frá Karvel Pálmasyni vildi ég ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að síðan þessi ríkisstjórn var mynduð hefur hún aðeins tvisvar beitt sér fyrir sérstökum breytingum á kaupgjaldsvísitölu frá framfærsluvísitölu. Allar aðrar breytingar, sem gerðar hafa verið á þessu tímabili, eru í samræmi við lög sem Alþfl. gerði að höfuðkröfu sinni á fyrri hluta árs 1979 að væru sett og sem efsti maður á lista Alþfl. í væntanlegum þingkosningum hér í Reykjavík á næsta ári lýsti yfir í útvarpsumræðum á Alþingi að ætti að kenna við Alþfl. (Gripið fram í.) Það er rétt að hv. þm. Alþfl. minnist þess, að allar nema tvær breytingar sem gerðar hafa verið á vísitölu setningu sem forustumenn Alþfl. vilja kenna við Alþfl. og samkvæmt kröfum sem forsvarsmenn Alþfl. settu fram í febrúar- og marsmánuði 1979. Það hefur enginn þm. Alþfl. komið upp í ræðustól á undanförnum árum og lagt til að þessum ákvæðum yrði breytt, ekki einn einasti. (Gripið fram í: Því að hafa þau í gildi?) Vegna þess að við féllumst á að þessi lög væru sett höfum við auðvitað látið þau vera í gildi.

Það sem ég er hér að benda á er þessi hræsni og þessi yfirborðsmennska þm. Alþfl. að vera sífellt að hamra hér á sífellum kjaraskerðingum á undanförnum árum þegar þeim er fullvel ljóst að nær allar þessar breytingar nema tvær eru samkv. þeirri lagasetningu sem þeir vilja láta kenna við Alþfl. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram í þessum umr. hér og að menn geri sér skýra grein fyrir því. En hitt vil ég svo að lokum láta koma fram, herra forseti, að engan þarf að undra þótt það hvarfli að manni að sú ríka áhersla sem þm. Sjálfstfl., bæði í umr. í dag og á fundum fjh.- og viðskn. undanfarna daga, hafa lagt á hvernig eigi að túlka l. mgr. 1. gr. brbl. og hvernig þeir hafa látið allt snúast um það — á að túlka hana svona eða á að túlka hana hinsegin? — sé undanfari þess að Sjálfstfl. sé að leita eftir möguleika til að breyta fyrri afstöðu til brbl. Það þarf engan að undra þó maður leggi þann pólitíska skilning í alla þá loftfimleika sem hér hafa verið hafðir í frammi af hálfu Sjálfstfl. um túlkun.