07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég trúi því, sem fram hefur komið, að sú kjaraskerðing, sem á að eiga sér stað 1. des., verði bara einu sinni og ef hægt er að túlka brbl., eins og þau liggja fyrir í frumdrögum nú, á annan hátt verði þeim breytt og orðalagið leiðrétt. En ég vil taka undir með hv. 1. þm. Reykv. að auðvitað á sér stað gríðarlega mikil blekking í þessum lögum og blekkingin hefur átt sér stað áður.

Því hefur verið flaggað af hálfu stjórnarliða að hér sé um brbl. að ræða sem berjist að einhverju leyti gegn verðbólgu, að einhverju leyti gegn þeim efnahagsvanda sem steðjar að okkur. Ef vísitölulækkun á almennum launum hefði verið fylgt eftir með samdrætti í innheimtu ríkissjóðstekna hefði ég verið reiðubúinn að taka undir. Það hefði verið barátta gegn verðbólgu og skref í áttina að lausn á efnahagsvandanum. En það er ekki svo. Þess vegna vil ég taka undir með hv. 1. þm. Reykv. að hér er um gífurlega mikinn blekkingarleik að ræða.

Úr því að ekki var staðið þannig að að ríkissjóðstekjur væru lækkaðar jafnframt vísitölunni er vísitöluskerðingin ekki neitt annað en útgjaldasparnaður fyrir stærsta vinnuveitanda þjóðarinnar, sem er ríkið sjálft og sveitarfélögin. Í stað þess að minnka tekjuöflun sína eykur ríkissjóður tekjurnar með því að hækka vörugjaldið. Og, það er ekki nóg með það, heldur bætir hún við vöruflokkum í vörugjaldstekjusöfnuninni. Síðan tekur ríkisstj. gengismun af eigendum birgða og með honum er staðið undir fjárfestingarsjóðum og hlaupið undir bagga með togaraflotanum og fiskvinnslunni. Þetta er allt útgjaldasparandi fyrir ríkissjóð, en skaðar að sjálfsögðu eigendur útflutningsafurða. Síðan kemur lækkandi verslunarálagning. Allt er þetta skerðing, bæði fyrir launþega og atvinnurekendur, en tekjuauki eða útgjaldasparnaður ríkissjóðs. Og hverjum er svo hægt að telja trú um að hér sé ekki verið að blekkja? Hér er verið að blekkja.

Ekki er hægt að nota þau orð um þetta frv., sem notuð hafa verið, að það sé vörn eða barátta gegn verðbólgunni eða skref áfram í baráttu gegn efnahagsvanda. Það er svo langt frá því. Þetta er útgjaldasparandi fyrir ríkissjóð. Þarna verður tekjuaukning fyrir ríkissjóð. Síðan á að blekkja ennþá meira og reyna að fá fólk til að trúa því, til þess að þagga niður í verkalýðshreyfingunni, að aukið orlof, viðbótarfrídagar, bæti kjör fólksins, það auki framleiðsluna í landinu. Hvern er ekki verið að blekkja? Það stóreykur erfiðleika heimilanna og aðila vinnumarkaðarins á sama tíma. Þetta þýðir einfaldlega að það eru minnkandi tekjur fyrir fólkið. Minnkandi kaupmáttur og hækkandi vöruverð undirstrikar það sem ég var að segja.