07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka umburðarlyndi forseta. Það sætir nokkrum tíðindum að hv. þm. Vilmundur Gylfason skuli hætta sér út í umr. hér í sþ:, þar sem hægt er að tala við hann, þó að maður sé búinn að tala sig dauðan áður en að því kemur. Hann hefur hingað til skýli sér á bak við það að tala bara í Nd. (Gripið fram í.) Það er rétt, en það eru fáir sem þekkja eins mikið veikleikann í málflutningi þínum og ég.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason var að gera mikið úr því áðan að ég hefði minnt á að Alþfl. bæri ábyrgð á 10 breytingum sem gerðar hefðu verið á kauplagsvísitölu frá framfærsluvísitölu síðan þessi ríkisstj. var mynduð. Það var ekki sagt vegna þess að ég væri að hlaupa frá einhverri ábyrgð, hv. þm., það er mesti misskilningur. Formaður Alþfl., varaformaður Alþfl. og formaður þingflokks Alþfl. hafa hvað eftir annað haldið því fram á gagnrýninn hátt í garð þessarar ríkisstj. að hún hafi 12 sinnum gripið inn í vísitölumál síðan hún var mynduð og breytt vísitölu launafólks frá framfærsluvísitölu. Þeir hafa haldið harðar gagnrýnisræður um það. Ég var eingöngu að benda á að Alþfl. ber jafnmikla ábyrgð á 10 þessara breytinga og við. Ég var ekki að hlaupast frá neinni ábyrgð í þessu sambandi. Ég var hins vegar að vekja athygli á flótta forustu Alþfl. frá þessari ábyrgð. Það væri nær að hv. þm. Vilmundur Gylfason beindi spjótum sínum þangað. Ég hef aldrei hlaupist frá þessari ábyrgð, þvert á móti. En ég er hins vegar að benda á þá yfirborðsmennsku forustu Alþfl. að segja að 12–14 breytingar hafi verið gerðar og gagnrýna þær allar, þegar 10 þeirra eru gerðar á grundvelli lagasetningar sem Alþfl.- menn sjálfir stóðu að og bera sameiginlega ábyrgð á ásamt okkur hinum.

Að lokum, herra forseti. Hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur hvað eftir annað sungið sinn vaxtasöng hér í ræðustól. Hverjir voru það sem innleiddu fulla verðtryggingu á sparifé almennings í þessu landi? Var það Alþfl.? Nei. Gerði hv. þm. Vilmundur Gylfason það þegar hann var ráðh. í fjóra mánuði og gat gert það? Nei. Gerði formaður Alþfl. það þegar hann var viðskrh. í fjóra mánuði og gat gert það? Nei. Hverjir voru það sem opnuðu fulla verðtryggingarreikninga í bankakerfinu? Það var þessi hæstv. ríkisstj. Hv. þm. Vilmundur Gylfason ætti að kynna sér það, að þegar á þessu ári hafa hundruð millj. kr. bæst inn í bankakerfið á fullverðtryggðum reikningum, þar sem sérhver sparifjáreigandi í landinu, sem vill geyma fé sitt á fullri verðtryggingu, getur gert það. Það er þessi ríkisstj., með þátttöku Alþb., sem hefur opnað þá leið fyrir almenningi í þessu landi, hvern og einn sem vill fara hana. Hv. þm. Vilmundur Gylfason getur labbað í banka strax í fyrramálið og geymt, ef hann vill, fé sitt á fullri verðtryggingu. Þessi ríkisstj. er eina ríkisstj. í landinu sem hefur opnað almenningi möguleika á að geyma fé sitt á fullverðtryggðum reikningum.