07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

36. mál, laxveiðar Færeyinga í sjó

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hefði haft áhuga á að hv. 1. flm. yrði viðstaddur þessa umr.

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að verða við beiðni minni um daginn og fresta umr. um þessa þáltill., þegar hún var þá til umr., og gefa mér þannig tækifæri til að taka þátt í umr., en ég var staddur erlendis þegar umr. hófst.

Ég tel mér skylt að játa að ég varð mjög undrandi þegar ég sá þessa till. á þskj. 36. Ekki vegna þess að mig undraði að einhver gerði aths. við laxveiði Færeyinga, það fannst mér mjög eðlilegt, heldur vegna þess hve tillagan er harðorð. Þar eru settar fram fullyrðingar sem ekki eru að mínum dómi byggðar á nægilegum rannsóknum. Ég er ekki að segja með þessu, að þær staðhæfingar, sem þarna eru settar fram, hljóti að vera rangar, en að við höfum ekki ennþá þá þekkingu sem þarf til þess að staðhæfa á þann hátt sem þar er gert vegna þess að rannsóknirnar vanti.

Það tekur þó alveg steininn úr í ræðum hv. 1. flm., þar sem hann kallar athæfi Færeyinga bæði siðlaust og löglaust o.s.frv. Hv. 1. flm. vitnaði í fyrirvara eftir sjálfan sig við umr. um þingmál hér áður, en ég verð að vekja athygli hv. 1. flm. á að orð hans hafa ekki lagagildi í sjálfu sér, þó að þingheimur mótmæli þeim ekki af nenningarleysi eða einhverjum öðrum orsökum.

Það er ekki furða þó að margir Íslendingar eða jafnvel flestir líti tortryggnisaugum til laxveiða Færeyinga. Það hefur orðið alvarlegur aflabrestur á laxi í íslenskum ám á s.l. þremur árum. Ég hef í höndum línurit um laxveiði á stöng, annars vegar meðaltal áranna 1977, 1978 og 1979 og hins vegar veiðina 1981 til samanburðar. Á móti hverjum 100 löxum, sem var meðalveiði á ákveðnum svæðum 1977–1979, er veiðin 1981 úr ánum í kringum Reykjavík 72 laxar, í ánum frá Hvalfirði og vestur um Borgarfjörð og Mýrar 46 laxar á móti 100, úr ánum á Snæfellsnesi og í Hnappadalssýslu og í Dölum 83 á móti 100, ám í Húnavatnssýslum og á Skaga 73 á móti 100, ám í Skagafirði og Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu 46 á móti 100, ám í Norður-Þingeyjarsýslu 36 á móti 100 og ám á Austfjörðum einungis 15 á móti 100. Það er ekki undravert þó að menn líti þetta alvarlegum augum og leiti að skýringunum.

Samkv. 14. gr. laga um lax- og silungsveiði segir svo: „Eigi má veiða lax í sjó“. Þetta er grundvallaratriði í laxveiðilögum okkar. Endurskoðunarnefnd laxveiðilaganna, sem nú er að ljúka störfum, leggur til að þær fáu sjávarveiðilagnir sem heimilaðar hafa verið til þessa verði bannaðar og komi bætur fyrir. Því eru veiðiaðferðir Færeyinga okkur þyrnir í augum. Það réttlætir þó ekki þann tón sem í till. felst né heldur ræður flm.

Færeyingar standa okkur næst allra þjóða, eru næstu grannar okkar, frændur og eina þjóðin í veröldinni þar sem skilningur á tungu okkar er nokkuð almennur. Þeir verða eins og við að lifa af því landi og af þeim sjó sem forsjónin hefur fengið þeim.

Alþingi hefur alla tíð til þessa viljað ástunda góð samskipti við Færeyinga. Í því skyni ákvað Alþingi fyrir sitt leyti að koma á fót sameiginlegri þingmannanefnd Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga, er vinni að auknu samstarfi. Ég á sæti í þessari nefnd fyrir hönd okkar ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni, Stefáni Jónssyni og Sverri Hermannssyni. Á fundi sem við áttum 26. okt. s.l. í Kaupmannahöfn með Færeyingum ræddum við að sjálfsögðu þessi laxveiðimál. Ég tel rétt að láta koma fram í þessari umr. þær röksemdir sem Færeyingar höfðu á hraðbergi á þeim fundi.

Þeir lögðu á það áherslu að Íslendingar væru þeirra nánustu frændur og vinir. Færeyingar hefðu alla tíð sótt sér björg í hafið umhverfis eyjarnar og einnig á fjarlæg fiskimið, m.a. við Ísland. Með útfærslu Íslendinga í 200 mílur, svo og landhelgisútfærslu annarra þjóða í kjölfar Íslendinga, hafi mjög stórum hafsvæðum verið lokað fyrir þeim. Þótt Færeyingar hafi gert fiskveiðisamninga við mörg ríki hafi fiskveiðisamningar við Íslendinga verið þeim mjög mikils virði.

Í umr. um laxveiðar sérstaklega tóku þeir skýrt fram og undirstrikuðu að laxinn væri veiddur innan þeirra eigin landhelgi og þeir kváðust ekki stunda rányrkju eins og t.d. Englendingar, Skotar og Norðmenn gerðu að þeirra dómi. Þeir kváðust sannfærðir um að þeir væru ekki að veiða Íslenskan lax og ítrekuðu rétt þjóða til fiskjar sem, eins og þeir orðuðu það, „væri á beit“ við strendur landa þeirra.

Þeir tóku fram, að í þessu máli gæti annar aðilinn þó ekki haft allan rétt og hinn engan. Færeyingar gerðu sér ljóst að við veiðarnar yrðu þeir að haga sér samkvæmt stofnstærð, og þeir minntust á samkomulag um veiðar í Norður-Atlantshafi. Þeir kváðust mundu reyna að eignast sinn eigin laxastofn svo þeir þyrftu ekkert frá öðrum að taka.

Íslendinga báðu þeir að gera sér grein fyrir stöðu Færeyinga í þessu máli og mikilvægi laxveiðanna fyrir þá. Efnahagslega væru veiðarnar orðnar umtalsverður þáttur í heildartekjum þeirra og stunduðu veiðarnar allmörg skip og með því að beina þessum skipum á laxveiðar drægi það úr ásókn í hvers konar botnfisk, sem ætti einnig mjög undir högg að sækja. Vitnuðu þeir síðan í færeyska fiskifræðinga, sem fullyrtu, að stofninn, sem væri á hafbeit við Færeyjar, væri mjög stór og engin hætta væri á ofveiði.

Færeyingar lögðu áherslu á að rannsóknir á laxinum við Færeyjar hefði staðið í mörg ár og íslenskum fiskifræðingum hefði ávallt staðið til boða að fylgjast með þessum laxveiðum. 1300 tonna hámarksafli þeirra hefði byggst á vísindalegum niðurstöðum.

Þeir töldu ennfremur að það gæti haft mjög alvarleg áhrif á samkomulag og samvinnu þjóðanna ef Íslendingar reyndu að þvinga Færeyinga til að draga úr laxveiðum með því að hóta þeim að banna veiðar sem þegar hefðu verið gerðir samningar um.

Þeir héldu jafnframt fram, að þeir gætu haldið laxveiðunum áfram um ókominn tíma og jafnvel aukið þær, en þá mundu þeir að sjálfsögðu að verða að auka seiðasleppingar, sem þeir hafa mikil áform um, og í samræmi við það yrði þessi aukning að verða, ef af henni yrði.

Hins vegar voru þeir inni á því að það þyrfti að auka sameiginlegar vísindalegar rannsóknir á þessum laxveiðum og stórauka merkingar á íslenskum laxi og birta eins fljótt og unnt væri allar niðurstöður um laxveiðar Færeyinga sem byggðu á vísindalegum grunni.

Ég vil taka það fram, að nm. voru sammála um það allir, bæði við og Færeyingarnir, að þetta mál mætti ekki verða til þess að skapa úlfúð með þjóðunum eða stofna vináttu þeirra í hættu. Af hálfu Færeyinga sátu þennan fund Jogvan Sundstein, Atli Dam, Peter Reinert, Agnar Nielsen, Sigurd Juul Jakobsson og Jóhann Djurhuus.

Ég hef í höndum skýrslu, sem Derek Mills og Noel Smart frá Atlantic Salmon Trust gerðu um kynnisför til Færeyja í mars 1982 og ennfremur blaðagrein eftir William Brewster um sömu ferð. International Salmon Foundation sendi nefnd manna til Færeyja til þess að kanna hvort Færeyingar væru að eyðileggja laxveiði annarra. Í þessari ferð tóku þátt Alfred Meister, aðallíffræðingur Atlantic Salmon Commission í Maine, dr. Derek Mills lekior í vatnavistfræði og fiskveiðistjórnun við Edinborgarháskóla, Noel Smart, formaður The Salmon Fishing Association Atlantie og William Brewster frá Plymouth í Massachusetts, sem er stangveiðimaður og stjórnandi International Atlantic Salmon Foundation. Hann hefur stundað laxveiðar víða um heim. M.a. er hann kunnugur í ám á Íslandi. Niðurstaða þessa hóps varð sú, að ekki stafaði hætta af veiðum Færeyinga fyrir laxveiðar annarra þjóða, svo framarlega sem þeir framleiddu lax sjálfir, en fiskirækt hafa þeir mjög á sinni stefnuskrá eins og ég sagði áðan.

Ég vil ekki leggja neinn dóm á þessa skýrslu, hvort hún segi allan sannleikann, ég vil taka það skýrt fram, en ég vil ekki heldur fullyrða að hún sé röng.

Mér sýnist að það sem mest ríður á fyrir okkur Íslendinga sé að ganga úr skugga um hvort eða í hve miklum mæli Færeyingar séu að veiða íslenskan lax. Þetta verður ekki gert nema með stórauknum rannsóknum og merkingum á seiðum. Færeyingar vilja fyrir sitt leyti stuðla að auknum rannsóknum og við Íslendingar verðum að verja til þess fjármunum og mannafla. Við verðum að vinda að þessu bráðan bug. Það eru stórfelldir hagsmunir í húfi. Ef of mikið af þessum laxi er úr íslenskum ám, eins og hv. flm. till. vilja vera láta, er hér virkilega háski á ferðum. En fyrr en við getum sannað það er fásinna að samþykkja svona tillögur og orðbragðið er þannig að það er naumast nokkurn tíma viðeigandi að nota það.

Færeyingar eru, að minni hyggju, fúsir að draga úr laxveiðum fyrir orðastað Íslendinga, fái þeir t.d. auknar veiðiheimildir hér. En það er að vísu þröngt um það. Það getur líka komið til greina, að minni hyggju, að beita hafréttarsáttmálanum svo langt sem hann nær, en því aðeins að við sjálfir, Færeyingar og nágrannaríki okkar viti að þarna sé verið að veiða okkar lax og vinna tjón á okkar ám. Áður en rannsóknir undirbyggja þá sókn held ég að ekki sé grundvöllur til þeirra aðgerða sem farið er fram á með tillögunni.

Embættismannanefnd Norðurlandaráðs um byggðamálefni hefur nú nýlega ákveðið að verja 200 þús. norskum kr. í ár og væntanlega þrjú næstu árin til þess að merkja lax í Vopnafjarðará. Það að embættismannanefndin skuli verja fé í þessu skyni byggist á því að hún telur að vinskapur tveggja norrænna þjóða geti verið í hættu út af laxveiðimálum, svo og mikilvægir byggðahagsmunir. Þrátt fyrir þetta mikilsverða framlag tel ég að ekki sé nóg að gert, og við Davíð Aðalsteinsson og Guðmundur Bjarnason höfum flutt till. til þál. á þskj. 127 um eflingu rannsókna á laxastofninum. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að nú þegar verði rannsóknir á laxastofninum stórefldar vegna aukinnar sjávarveiði Færeyinga á laxi“.

Þessari till. fylgir ítarleg grg. eða nokkuð ítarleg og í henni eru ýmsar tölulegar upplýsingar um þessar veiðar. Það er lögð áhersla á að hinar auknu laxveiðar Færeyinga hafa átt sér stað samtímis því að laxveiðar hér hafi minnkað hvað tölu laxa snertir og bent á að e.t.v. kunni að vera þarna samband á milli. Á hinn bóginn er líka á það bent, að ekki sé vitað nóg um göngur laxins og hvert hann leiti frá Íslandi. Það er vitað að laxinn okkar leitar líka til Grænlands og veiðist þar. Sjö íslenskum laxamerkjum hefur verið skilað frá Grænlandi og auk þess hefur lax sem merktur var við Vestur-Grænland veiðst í Laxá í Dölum.

Það er bent á það í þessari grg. að vera kunni að fleiri orsakir séu til rýrnandi laxveiði, svo sem vetrar-, vor- og sumarkuldar 1979 og lágur sjávarhiti fyrir Norður- og Austurlandi. Við teljum að það sé mjög mikilvægt að fá betri mynd af því hvernig laxinn ferðast um úthafið. Jafnframt verðum við að ganga úr skugga um í hve miklum mæli nágrannar okkar veiða hann og taka þátt í alþjóðlegri samvinnu þar um.

Það er gert ráð fyrir að þátttökulöndin í rannsóknunum hljóti að standa hvert um sig undir kostnaði við framlag sitt til rannsóknanna.

Í desembermánuði 1981 komu saman í Þórshöfn fiskifræðingar frá upprunalöndum laxins til að semja um áætlun um rannsóknirnar, sem ná bæði til gagnasöfnunar og úrvinnslu gagna. Ennfremur var verkefnum skipt á milli þátttökulandanna. Ísland tekur þátt í þessum rannsóknum og er framlag okkar fólgið í laxaseiðamerkingu, endurheimt merkja og gagnasöfnun um borð í færeyskum laxveiðibátum.

Veiðimálastofnunin sendi, eins og fyrr hefur komið fram við þessa umr., rannsóknarmann til Færeyja í febrúar 1982, sem dvaldist þar í þrjár vikur um borð í laxveiðibáti til gagna- og upplýsingasöfnunar. Ég er ekki viss um að það hafi tekist allt nógu nákvæmlega í þeirri ferð. en vissa vísbendingu gefur að ekki skuli hafa fundist fleira af merkjum en raun varð á.

Það er sem sagt skoðun okkar, sem flytjum þessa till., að það þurfi að efla þessar rannsóknir og niðurstöður rannsóknanna muni verða haldbestu rökin þegar samið er um að draga úr eða stöðva laxveiðar utan upprunalanda laxins og því þurfi að stórauka fjárframlög til þessara rannsókna.