21.10.1982
Sameinað þing: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

18. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa í meginatriðum yfir stuðningi mínum við þá till. til þál. sem hér er til umr. sérstaklega vil ég þó lýsa stuðningi við það sem hér er rætt um, að kanna sérstaklega nauðsyn eflingar atvinnulífs á Norðurl. e. Ég vil hins vegar taka undir með hv. 6. þm. kjördæmisins það sem hann sagði hér í lok sinnar ræðu, að honum fyndist ekki sjálfgefið að horfa eingöngu til stórrekstrar í þessu sambandi, og þess vegna þyrfti það kannske ekki að vera meginefni till. að athuga um staðarval stóriðnaðar á Norðurlandi, heldur að skoða almennt hvernig við eigum að standa að eflingu atvinnulífsins.

Hv. frsm. gat þess líka í framsögu sinni fyrir þáltill. að það væru ýmsir aðrir kostir til atvinnuuppbyggingar, svo sem eins og frekari úrvinnsla sjávarafla og úrvinnsla úr landbúnaðarafurðum. Ég vil þá nefna rannsóknir í sambandi við lífefnaiðnað og hugsanlega slíka framleiðslu sem mundi nýta úrgang úr sjávarafurðum og landbúnaðarafurðum. Við fluttum um það þáltill. hér á síðasta þingi, nokkrir þm. Framsfl., að kannaðir yrðu möguleikar á lífefnaiðnaði. Hv. frsm. nefndi einnig rafeindaiðnað og fleira mætti nefna í þessu sambandi. En það er ljóst að það þarf að efla atvinnulíf í þessum landshluta. Þm. kjördæmisins voru kallaðir til fundar norður á Akureyri seinni part sumars til þess að ræða þar við atvmn. og framámenn iðnaðar á Akureyri. Einkum voru það að vísu byggingariðnaðarmenn og ljóst er að þar er um þessar mundir vandinn mestur. Það er samdráttur í byggingariðnaðinum og þá kreppir auðvitað fyrst að þar og í viðkomandi þjónustuiðnaði. Við þingmennirnir skipuðum fulltrúa úr okkar hópi til þess að vinna með heimamönnum að athugunum á þessum málum.

Akureyri er mikill iðnaðarbær og það verður að sjálfsögðu að leita allra leiða til þess að þróa þann iðnað sem þar er fyrir. Við verðum að treysta grundvöll iðnaðarins þannig að þessi iðnaður geti staðið fyrir sínu, hann hafi möguleika til þess að eflast og þróast. Og við verðum að gæta þess að nýir atvinnukostir, svo sem eins og nýr stóriðnaður, gangi ekki inn á möguleika þess iðnaðar sem þarna er fyrir, taki frá honum vinnuafl þannig að úr honum dragi mátt. Það verður að standa þannig að þessum málum að slíkt komi ekki til.

Varðandi stóriðnaðinn sem slíkan vil ég þó segja það að ég tel ljóst að við þm. þessa kjördæmis, svo og aðrir sem hlut eiga að máli, verðum að horfa til hans með opnum huga. Við verðum auðvitað að vera jákvæðir í öllum rannsóknum og athugunum á því hvað hægt sé að gera til þess að tryggja atvinnulífið, en einnig að íhuga vel að ef um stórfellda uppbyggingu á atvinnulífi sums staðar er að ræða hlýtur það að verka sem aðdráttarafl eða segull á þá staði þar sem atvinnulíf er viðkvæmara. Þetta tel ég að við þurfum að hugsa alvarlega um.

Eyjafjarðarsvæðið er að sjálfsögðu viðkvæmt svæði í náttúrufarslegu tilliti. Þar er blómleg byggð. Þetta er eitt öflugasta og blómlegasta landbúnaðarhérað á landinu og við verðum að gæta þess að hugsanlegur stóriðnaður, sem þar yrði settur upp, spilli ekki fyrir því atvinnulífi sem þar er, þeirri blómlegu landbúnaðarstarfsemi sem þar er og á sér djúpar rætur. Ef einhvers staðar á að reka landbúnað hér á landi þá er það að sjálfsögðu í héraði eins og Eyjafjarðarsvæðið er. Við þurfum þess vegna að gera kröfur til þess að vel verði hugað að mengunarvörnum öllum og þau mál verði skoðuð ítarlega og vandlega, ef til stóriðnaðar kemur á þessu svæði, eins og frsm. fyrir þessari þáltill. raki reyndar vel í sinni framsöguræðu. Eyjafjarðarsvæðið er miklu viðkvæmara veðurfarslega en ýmis önnur svæði, þar sem vindar blása og veðurfar er með öðrum hætti en einmitt í Eyjafirði. Þess vegna þurfum við að gæta fyllstu varúðar.

Ég vil sem sagt lýsa því yfir að ég tel nauðsynlegt að við athugum þetta. Við þurfum að taka þátt í uppbyggingu og eflingu atvinnulífsins í þessu kjördæmi ekki síður en annars staðar. Ég vil líka minna á — eins og hér er reyndar gert í grg. — það framtak sem t.d. bæjaryfirvöld á Húsavík hafa sýnt varðandi atvinnuuppbyggingu þar með því frumkvæði sem þau hafa átt að athugun á starfrækslu trjákvoðuverksmiðju. Bæjaryfirvöld hafa veitt fjármagn til athugana á þeim atvinnukosti og ég lýsi eindregnum stuðningi mínum við það. Mér er kunnugt um að á næstu vikum er væntanleg niðurstaða úr hagkvæmniathugunum sem nú eru í gangi varðandi hugsanlega trjákvoðuverksmiðju. Væri fróðlegt að heyra það frá hæstv. iðnrh. hvað er nýjast að frétta af því máli og hvort hann getur gefið okkur hér einhverjar upplýsingar þar um.

Ég vil svo aðeins endurtaka það að ég lýsi stuðningi mínum við þessa þáltill. í meginatriðum og tel nauðsynlegt að við könnum það sérstaklega hvernig efla megi atvinnulífið á Norðausturlandi og skoðum í því sambandi alla tiltæka kosti.