08.12.1982
Efri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

133. mál, lækkun gjalda af fasteignum

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs til að vekja athygli hv. þd. á því, að á dagskrá Nd. í dag er frv. til l. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem gengur mjög í sömu átt og það frv. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson var að mæla hér fyrir áðan. Það frv. á þskj. 141 gerir ráð fyrir því, að grunnurinn fyrir álagningu fasteignagjalda verði lækkaður frá því sem útreikningur hjá yfirfasteignamatinu gerir ráð fyrir og að fasteignagjöld hækki ekki meira í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum en annars staðar á landinu. Það er grundvallaratriði í þessum tillögum, eins og þær koma frá ríkisstj. á þessu þskj., að íbúum þéttbýlisins sé hlíft við því að þurfa að greiða meiri hækkun á fasteignagjöldum en gerist annars staðar á milli áranna 1982 og 1983. Annars vegar var um það að ræða að fasteignagjöld í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi, Seltjarnarnesi og Mosfellshreppi hefðu að óbreyttu hækkað um 78%. En breytingarhugmyndin, sem fram kemur frá ríkisstj. á þessu þskj., gerir ráð fyrir því að um verði að ræða 65% hækkun í mesta lagi.

Nú er það auðvitað þannig, að álagning fasteignagjalda er á valdi sveitarstjórnanna á hverju svæði. Það er gert ráð fyrir því ef ég man rétt í tekjustofnalögunum, að heimilt sé að hækka fasteignagjöldin eða lækka um 25%, þannig að það er nokkurt hlaup í þessu. Og það hlaup stendur eftir sem áður, eins og frv. er úr garði gert frá ríkisstj. Þess vegna geta sveitarfélögin auðvitað farið vægar í sakirnar en að hækka þetta um 65% á milli ára. Hér kemur mjög vel fram sá mismunur á milli byggðarlaga sem iðulega á sér stað og birtist í kostnaði við rekstur húss og heimila þess fólks sem býr hér á þéttbýlissvæðinu. Þetta er þáttur sem mjög sjaldan er tekinn til athugunar og mjög sjaldan minnst á þegar rætt er um byggðamismun í landinu. Hann birtist íbúum þéttbýlisins á þennan hátt vegna þess að markaðurinn hækkar húsnæðið í verði frá því sem er annars staðar í landinu.

Það frv. sem hér er flutt af hálfu ríkisstj. og ég var að nefna snertir eingöngu tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. fasteignagjöldin. Það snertir ekki eignarskattinn og ekki

þá skatta sem teknir eru til ríkisins, þ.e. erfðafjárskatt og fleiri skatta, sem miðaðir eru við fasteignagjöld. Það er ætlun ríkisstj. að hér komi á borð þm. alveg næstu daga frv. sem snertir þá skatta sem ganga til ríkisins, þ.e. sérstaklega eignarskattinn. Það er raunar tilviljun að þessi frv. fylgjast ekki að. Það var ætlunin að þau fylgdust að svo að menn gætu tekið afstöðu til þeirra beggja, en heppilegra þótti að hafa þetta í tveimur frumvörpum en í einu af lagatæknilegum ástæðum. Fyrir utan eignarskattinn eru það sem sagt stimpilgjöld, sem hreyfast eftir fasteignamati, og sömuleiðis erfðafjárskatturinn að einhverju leyti. Það er aftur mál sem ég hef verið að athuga sérstaklega. Yrði kannske að koma þriðja frv. um erfðafjárskattinn og mundi þá koma hér inn rétt fyrir eða eftir áramótin. Væri í sjálfu sér einfalt að afgreiða það mál hér eftir að þingið hefði markað sína afstöðu með því að afgreiða þær hugmyndir sem hér lúta að tekjustofnum sveitarfélaga og svo eignarskattinum.

Mér heyrist á öllu að það sé góður skilningur á þessu máli hér á hv. Alþingi. Ég vil þar af leiðandi vænta þess, að þessi mál fái afgreiðslu fyrir áramót. Þó að tími sé stuttur og fáir þingdagar eftir til jóla, þá verð ég að fara fram á það, því að frv. þarf helst að verða að lögum, ef það á að gera gagn, eða þær hugmyndir sem hér er um að ræða, áður en menn leggja fasteignaskattana á. En það er venjulega gert í janúarmánuði svo að þetta þarf að fá skjóta meðferð.

Ég þakka hv. þm. Kjartani Jóhannssyni og hans flokksbræðrum fyrir að hreyfa þessu máli. Mér sýnist að hér sé um að ræða mál sem við eigum að geta hnýtt saman og lokið á þeim fáu þingdögum sem eftir eru til áramóta. Til að undirstrika það kvaddi ég mér hljóðs.