08.12.1982
Efri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

133. mál, lækkun gjalda af fasteignum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég fagna því að þessi mál hafa verið til meðferðar í ríkisstj. og hér er þó a.m.k. komið frv. sem gengur í þessa átt að því er fasteignagjöldin varðar. Hins vegar sýnist mér að í því felist alls ekki nægileg trygging fyrir launþega, eins og það er úr garði gert af hálfu ríkisstj. Það gerir einungis ráð fyrir því að á höfuðborgarsvæðinu verði ekki meiri hækkun á gjaldstofni en annars staðar á landinu, þ.e. 65%. Ríkisstj. gerir sem sagt ráð fyrir því að hækka gjaldstofninn yfir allt landið um 65% á sama tíma og kaup hækkar um 48%. Tilgangur með okkar frv. var sá að sjá til þess að greiðslubyrði af fasteignum færi ekki hækkandi, miðað við kaup milli áranna, heldur frekar eitthvað lækkandi.

Ég nefndi það að í okkar frv. væri gert ráð fyrir því að gjaldstofninn á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 42%. þ.e. heldur minna en kaup hefur hækkað. Við teljum það nauðsynlegt á þeim tímum sem nú eru, þegar sverfur að í kaupmætti heimilanna og húsnæðiskostnaður er orðinn óheyrilega mikill. Við teljum að á þeim tímum sé nauðsynlegt að ríkið og sveitarfélögin komi nokkuð til móts við launþega.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að kaup var skert um nær 8% hinn 1. des. s.l. Það er byrði sem launþegum er gert að bera. Það hefur hins vegar ekkert komið fram af því tagi að ríkið eða sveitarfélögin taki jafnframt á sig byrðar til þess að mæta þeim erfiðleikum sem þjóðarbúið vissulega á við að stríða. Samþykkt frv. í því formi sem við höfum flutt hér mundi einmitt vera loforð um að ríkið og sveitarfélögin legðu eitthvað af mörkum, kannske ekki tóran skerf samkv. þessu frv. okkar en þó eitthvað, til að mæta þessum vanda og létta byrðum af launþegunum þegar kaupið hefur verið skert. Við höfum valið að gera þetta með einfaldasta hætti í einu lagafrv., sem er altækt og tekur til þessa gjaldstofns hvarvetna þar sem hann kemur fyrir.

Við höfum enga hugmynd um það — þó að hæstv. félmrh. boðaði hér áðan að flutt yrði eitthvert frv. varðandi eignarskattinn — við höfum enga hugmynd um það hvaða prósentur verði látnar gilda þar. Ég held að það séu langtum betri vinnubrögð og hreinlegra í þessu tilviki að afgreiða þetta mál í einu lagafrv., að því er alla þá hluti varðar sem miðaðir eru við fasteignamat, þannig að launþegar í landinu, íbúðarhúsaeigendur og leigutakar, geti fengið að vita það á einu bretti með hvaða hætti ríkið og sveitarfélögin ætli að koma til móts við þá að því er þetta mál varðar.

Hæstv. félmrh. minntist á að það væri 25% hlaup hjá sveitarfélögunum í álagningarprósentunni. Það er vissulega rétt. En þá vek ég athygli á því, að það sveitarfélag sem hefur verið með venjulega álagningu án 25% álags gæti samkv. frv., eins og það liggur fyrir frá hæstv. félmrh., tvöfaldað fasteignaskattinn milli ára, annars vegar vegna 65% hækkunar á gjaldstofninum sjálfum og hins vegar með 25% álagi. Og þegar það tvennt kæmi saman, þá mundi það þýða 106% hækkun á fasteignaskattinum.

Herra forseti. Ég vænti þess að hv. þm. hér í deild sjái að á þeim tímum sem nú ríkja, þá er eðlilegt að koma til móts við launafólkið í landinu með þessum hætti, að sveitarfélög og ríki leggi sitt af mörkum og sjái til þess að hækkun þessara gjalda verði minni en kauphækkunin milli ára, og að málið sé afgreitt í einu lagi eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Þess vegna vænti ég góðs stuðnings við frv.