08.12.1982
Efri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

133. mál, lækkun gjalda af fasteignum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nokkuð óvenjulegt að heyra hér fulltrúa hinna sósíalistísku flokka á Alþingi hvern af öðrum lýsa áhuga sínum á skattalækkunum. Ég verð að lýsa ánægju minni yfir þeim viðhorfum sem í þessu efni hafa komið fram hjá hv. síðasta ræðumanni og hæstv. félmrh. Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því, að það sé full ástæða til að hafa uppi aðgerðir til þess að létta greiðslubyrði íbúðaeigenda. Í upphafi grg. þess frv. sem við nú ræðum stendur feitletrað að tilgangur frv. sé að draga úr húsnæðiskostnaði á tímum minnkandi kaupmáttar og koma í veg fyrir að greiðslubyrði af íbúðareign eða húsaleigu aukist vegna stórhækkaðs fasteignamats, sem er í engu samræmi við þróun launa.

Ég er fullkomlega sammála þessum tilgangi. Ég held að þetta sé nauðsynlegt til þess að treysta möguleika fólks til að eignast, eiga og standa undir eigin íbúðum. En ég þarf ekki að taka það fram, að það er grundvallaratriði í stefnu okkar sjálfstæðismanna í húsnæðismálunum að það sé einmitt á hverjum tíma grundvöllur fyrir því að einstaklingarnir geti komið sér upp þaki yfir höfuðið, staðið undir kostnaði af þeirri framkvæmd af almennum launatekjum og þeim sé ekki íþyngt með sköttum á eigin íbúðir.

Ég skal ekki blanda mér í orðaskipti hæstv. félmrh. og hv. 2. þm. Reykn. um það, með hvaða hætti best verður að vinna að þessu marki, hvort það verður betur gert með einu eða fleiri frv. Það er í raun og veru ekki atriðið, heldur að eitthvað raunhæft gerist í þessum málum í samræmi við þann tilgang, sem lýst hefur verið í frv. því sem við hér ræðum. Þess vegna vænti ég að þetta frv. fái jákvæða meðferð í hv. fjh.- og viðskn., sem ég hygg að frv. verði vísað til. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd og get því ekki komið að þeirri meðferð frv. sem ég hins vegar sé í hendi minni nú að ég hefði getað gert ef málinu hefði verið vísað sem húsnæðismáli til hv. félmn.