08.12.1982
Neðri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að hafa gefið leyfi til þess að ég tæki til máls hér utan dagskrár. Ástæðan fyrir þessari beiðni minni er sú, að eins og allir þingmenn vita og a.m.k. allir neytendur hafa orðið varir við, verður hér, eftir að vísitala var skert 1. des., hækkun á landbúnaðarafurðum frá 13 og upp í 21%. Að vísu er þessi prósentutala ekki raunveruleg hækkun til aðila, heldur kemur þarna til að niðurgreiðslur eru ekki auknar. Hins vegar verð ég að Lýsa því yfir, að þessar stórfelldu hækkanir vekja slíka ógn og skelfingu almenns launamanns að menn spyrja, og ekki að ósekju, hvað valdi.

Að vísu skal það viðurkennt að það er sjálfvirki kerfi sem þarna er á ferðinni og fer eftir ákveðnum reglum sem Alþingi eða ríkisstj. kemur ekki nærri nema hvað snertir niðurgreiðslur. Ég held þó að ástæða sé til að staldra ofurlítið við eftir að þessar hækkanir hafa verið tilkynntar á landbúnaðarafurðum. Niðurgreiðslur eru ekki auknar og sjálfsagt er enginn leikur fyrir ríkissjóð að standa í því. Hins vegar hlýtur þessi hækkun, það hefur reynslan sannað, að verða til þess að neysla landbúnaðarafurða minnkar. Þá leitar á mann hvort það sé hyggilegur búskapur að grípa til ráðstafana sem leiða til minnkandi neyslu landbúnaðarafurða innanlands — og mundu þá þýða aukinn útflutning, en á þessu ári mun vera varið tæpum 200 millj. kr. í útflutningsbætur og í drögum að fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 262.5 millj. kr. útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðir. Til viðbótar þessum rúml. 262 millj. koma síðan 55 millj. röskar upp í lántökur vegna niðurgreiðslna á árunum 1980 og 1981 og reyndar 1982 líka. Síðan mun vera eitthvað þarna úr Byggðasjóði o.fl. Þarna eru komnar útflutningsuppbætur sem nema á fjórða hundrað millj. Það hvarflar því að manni hvort þarna sé hyggilega að málum staðið og hvort enn eigi að auka þær uppbætur sem gert er ráð fyrir í fjárlögum, svo að menn geti, ef þeir eiga leið um Færeyjar, keypt þar íslenskar landbúnaðarafurðir fyrir hálfvirði þess sem þeir greiða fyrir þær hér.

Ég ætlaði nú ekki að fjalla ítarlega um þessi mál, enda hef ég heimild utan dagskrár fyrir örstuttri athugasemd. Ég vil taka það fram í upphafi, til að menn fari ekki að núa mér því um nasir að ég sé að ofsækja bændur og lítilsvirða og reyna að reyta af þeim kaup og kjör, ég vonast til að svipaður málflutningur og var hér viðhafður í gær verði ekki notaður á mig, ég vil lýsa því yfir að smærri bændur eru ekki ofhaldnir. Það eru menn sem vinna hörðum höndum og út af fyrir sig þarf enginn að sjá ofsjónum yfir því sem þeir bera úr býtum. Á hinn bóginn held ég að allt verðmyndunarkerfið þurfi rækilegrar endurskoðunar við.

Það er töluvert deilt um verðlagsgrundvöllinn í sambandi við Sexmannanefnd. Þar má deila um fjölmarga hluti. Það má deila um það hvort viðhald girðinga og vegabætur eigi að hækka um 12% í des.–mars, hvort heyhleðsluvagnar eða heyvinnsluvélar eigi að hækka á þessu tímabili í verði. Ég fer ekki út í það. Mér virðist að Sexmannanefnd sé nokkurs konar sjálfsafgreiðsluklúbbur, þar sem fulltrúar neytenda eru ekki með neina starfsmenn eða aðstöðu til þess að kanna þann grundvöll sem notaður er. Nú tek ég það fram að ég held að það hættulegasta sé ekki að kaup bóndans hækkar um 11%. Af kostnaðarhækkun rekstrarliða í verðlagsgrundveltinum, hvað snertir búið, eru 7.72 70 vísitöluhækkun, hitt er hækkun á ýmsum rekstrarvörum sem má deila talsvert um. En sleppum því.

Ég held að á liðunum vinnslu og dreifingu sé allur tilkostnaður himingnæfandi og þar sé öllu frekar séð um hag viðkomandi stofnana en smábændanna sjálfra. Það vekur nokkra furðu og liggur reyndar fyrir í Árbók landbúnaðarins að sláturhúsakostnaður á Íslandi er þrisvar sinnum meiri en á Nýja-Sjálandi, og er þó kaup hærra á Nýja-Sjálandi heldur en á Íslandi. Þetta má lesa í Árbók landbúnaðarins frá 1980 í sambandi við kynningarferð sem til Nýja-Sjálands var farin. Ég held að neytendahópur eða fulltrúar í Sexmannanefnd þyrftu að hafa aðstöðu til að kynna sér það kerfi sem þarna er á ferðinni. Þarna koma sláturhús, mjólkurstöðvar og dreifingarkostnaður inn í.

Það vekur t.d. nokkra furðu að álagning á kjöti í smásölu skuli hækkuð sérstaklega 1. des., á sama tíma og verið er að skerða vísitöluna. Ég verð nú að segja að ég skil hreinlega ekki þessa pólitík.

Það vekur líka meira en litla furðu að þrátt fyrir þessar miklu hækkanir og þennan gífurlega sláturhúsakostnað, sem menn geta ekki skilgreint í samanburði við önnur lönd, er þó álitið að við stöndum þeim á flestum sviðum ekki tæknilega að baki, enda hafa einstakir bændafulltrúar, hv. þm., lýst undrun sinni á þessu.

Þetta margflókna kerfi, sem ég fer ekki hér út í, felst í því svo eitt dæmi sé tekið, að lagt er á verðmiðlunargjald. Um það hefur Framleiðsluráð sjálfdæmi. Það er 18 aurar á hvern mjólkurlítra og er lagt á sérstaklega. Þar af fær mjólkurstöð á Akureyri 9 aura af hverjum mjólkurlítra, sem seldur er, vegna þess hvað hann er stór og dýr. Maður hlýtur að spyrja hvað valdi því að svona hlutir fái að dansa ár eftir ár í kerfinu. Og ég leyfi mér að fullyrða og gæti fært að því rök við betra tækifæri, að ýmis atriði önnur þyrftu ekki síður ítarlega athugun.

Það væri full ástæða til að taka fjölmörg önnur dæmi inn í þetta. Ég hef t.d. nokkra vissu fyrir því að krafa frá fulltrúum bænda, sem fór ekki í gegn núna, um verulega hækkun á sláturhúsakostnaði komi inn í verðlag 1. mars. Ég lýsi vantrú minni á það verðmyndunarkerfi sem þarna á sér stað og held að það þurfi fullrar endurskoðunar við. Ég er ekki að ráðast á einstaka bændur eða telja þá of haldna. En ég verð þó að segja að ég tel það orka mjög tvímælis að takmarka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðir, sem kannske orsakar svo auknar útflutningsbætur. Ætli það sé ekki réttara að greiða frekar niður mat í landsmenn sjálfa en í útlendinga?

Sexmannanefnd fær engu um það ráðið hvort framleiddir eru ostar eða einhverjar aðrar landbúnaðarafurðir sem seldar eru erlendis á verði sem ekki dugir fyrir vinnslu- og dreifingarkostnaði. Þetta er sjálfvirkt kerfi sem neytendur og ríkisvald hafa að mínum dómi allt of lítil afskipti af. Ég viðurkenni að landbúnaðarmál eru víðast hvar ákaflega mikið vandamál, offramleiðsla er mikill vandi. En ég verð að segja það að þessi hækkun hafði þau áhrif á mig að mér datt í hug gömul saga sem ég heyrði einu sinni. Hún var um hrossaprangara vestur á Snæfellsnesi. Hann þótti ansi snjall í sínu hestaprangi, hann kembdi sín hross vel og þau voru svo gljáandi að það stirndi á þau. Þó þau væru orðin þrettán vetra þá var hægt að segja þau kannske átta eða níu. Og það var kannske ekki frítt við það að sett væri pipar eða sinnep undir taglið, til þess að viðkomandi hross léti ófriðlega.

Þessi ágæti hrossakaupmaður var einhvern tíma spurður hvernig hann kynni við þetta starf, þessa verslunarhætti. Hann sagði: Ég kann nú nokkuð vel við þetta. En það smáminnkar í manni þetta göfuga.

Ég verð nú að segja að þegar maður á að fara að styðja svona hluti, þá smáminnkar í manni sjálfum þetta göfuga.