08.12.1982
Neðri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. hefur gert hér að umtalsefni verðhækkun á búvöru nú 1. des. og það verðlagningarkerfi sem unnið er eftir við þessar verðákvarðanir.

Svo sem kunnugt er þá er verð á landbúnaðarafurðum ákveðið samkvæmt framleiðsluráðslögum. Á grundvelli þeirra laga starfar svokölluð Sexmannanefnd, skipuð þremur fulltrúum framleiðenda og þremur fulltrúum neytenda. Sexmannanefnd tekur ákvörðun um hækkun verðlagsgrundvallar landbúnaðarins hverju sinni og reiknar síðan út samkvæmt því smásöluverð og útsöluverð á einstökum vörutegundum, en hefur þá einnig tekið ákvörðun um hækkun á smásölukostnaði og vinnslu og heildsölukostnaði búvara.

Við þá verðákvörðun sem gerð var 1. des. hækkaði verðgrundvöllurinn um 10.96% og útsöluverð á einstökum vörutegundum hækkaði, eins og hv. fyrirspyrjandi vék að, um 12–21%. Það er ósköp eðlilegt að ýmsum hnykki nokkuð við við þessa miklu verðhækkun á búvörum. En skýringarnar eru nokkrar augljósar sem þarf að taka með í reikninginn.

Fyrst er rétt að geta þess, sem raunar kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að launaliður bóndans hækkar ekki meira en hjá almennum launþega, eða um 7.72%. Sömu sögu er að segja um laun í vinnslu- og dreifingarkostnaði búvara. Á hinn bóginn verkar það mjög á útsöluverðið að að þessu sinni eru niðurgreiðslur ekki auknar. Ef niðurgreiðslur hefðu verið auknar til þess að mæta hlutfallslega þeirri verðhækkun sem hér varð hefðu þær þurft að aukast sem svarar um 30% af grundvallarhækkuninni, eða sem svarar um 240 millj. kr. á ársgrundvelli. Það var ekki gert ráð fyrir þeirri hækkun niðurgreiðslna nú og ekki gert ráð fyrir þeirri hækkun í fjárlögum þessa árs. En við þetta skekkist útkoman þannig, að hlutfallshækkanir í útsölu verða til muna meiri en hækkun verðgrundvallarins, sem er hækkun án allra niðurgreiðslna.

Ég veit að hv. fyrirspyrjandi er nákvæmlega inni í þessu og þarf ekki að fara um það mörgum orðum. En þetta er meginorsökin til þess að niðurgreidd vara, t.d. mjólk, sem fær á sig grundvallarhækkun um 10.96%, hækkar um 16.2% í útsölu vegna þess að heildarverðhækkunin kemur niður í útsölu á niðurgreitt verð, og niðurgreiðslur eru ekki auknar.

Ég dreg ekkert úr því að þessar verðhækkanir valda áhyggjum. Þær eiga sinn þátt í því að auka þá erfiðleika sem við er að fást í þjóðfélaginu. En við höfum ekki fundið ráð til að koma í veg fyrir þessar verðhækkanir á búvörum ef við ættum að halda hlut bændanna nokkurn veginn til jafns við hlut annarra landsmanna í því verðbólguskriði sem yfir þjóðfélagið gengur.

Ef við lítum aðeins á hvernig þessar verðhækkanir hafa komið út eftir einstökum vörutegundum þá sjáum við að ýmsar vörur hafa hækkað meira en matvörur. Ef við til að mynda lítum á þær tölur, sem lagðar eru til grundvallar í vísitölu framfærslukostnaðar, og sjáum hver hefur orðið breytingin frá því í febrúarbyrjun 1981 þangað til í nóv. 1982, en þær tölur eru lagðar til grundvallar þeirri verðhækkun á búvöru sem er ákveðin 1. des., þá sjáum við að matvörur í heild hafa hækkað um 105%. (HBl: Síðan hvenær?) Frá jan. 1981 til nóv. 1982. En landbúnaðarvörur hafa hækkað minna en matvörur í heild. Þannig hafa t.d. kjöt og kjötvörur hækkað um 98% á sama tímabili og mjólk og mjólkurvörur, feitmeti og egg um 95%. Á hinn bóginn hafa til að mynda ávextir hækkað um 165% og ýmsar aðrar vörur hafa hækkað til muna meira á þessu tímabili en matvörur. Þannig hafa til að mynda ýmsir þjónustuliðir, svo sem hiti og rafmagn, hækkað um 175%. Fargjöld og flutningsgjöld ýmiss konar hafa hækkað um 153%. Þannig hafa fjölmargir kostnaðarliðir við rekstur heimilis hækkað til muna meira á þessu tímabiti heldur en matvörur og verulega meira en búvörur.

Sexmannanefnd, sem tekur ákvörðun um verðlagningu landbúnaðarvara, fær sínar upplýsingar frá Hagstofu Íslands. Að þessu sinni var farið nákvæmlega eftir þeim upplýsingum sem Hagstofa Íslands gaf. Mér hefur ekki boðið í grun að vefengd væru gögn frá Hagstofu Íslands og ég hygg að það sé heldur ekki í þessu tilviki. Þá hefur það einnig gerst við þessa verðákvörðun, sem raunar oft áður, að Sexmannanefnd hefur orðið sammála um niðurstöðu. Þar eru, eins og áður segir, fulltrúar bæði af hálfu neytenda og framleiðenda. Í þeim gögnum sem fyrir liggja og þeim ákvörðunum sem teknar eru af fulltrúum, sem gæta eiga hags bæði neytenda og framleiðenda, er ekki, a.m.k. að komið verður auga á í fljótu bragði, að finna neitt það er gefur tilefni til tortryggni þess efnis, að þarna sé farið umfram það sem rétt er og réttmætt. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að eftir að lög um verðlagsaðhald, sem sett voru í apríl 1981, féllu úr gildi um síðustu áramót hefur ekki verið talin nein nauðsyn að bera ákvarðanir Sexmannanefndar undir ríkisstj. til staðfestingar. Það var ekki gert að þessu sinni, en ég hafði samband við einstaka ráðh. um þá niðurstöðu sem hér var um að tefla, þar á meðal um það, hvort ástæða væri til að taka málið upp á þeim grundvelli að til greina kæmi að auka niðurgreiðslur að þessu sinni.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði að útflutningsuppbætur á þessu ári væru 200 millj. kr. (Gripið fram í: Tæpar.) Tæpar, já. Hið rétta er að útflutningsbótarétturinn, réttur landbúnaðarins til útflutningsbóta er á þessu ári 192.6 millj. kr., sem er 10% af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarins, og er það byggt á niðurstöðum Hagstofu Ístands um þetta efni. Ekki liggur neitt fyrir um það endanlega hver útflutningsbótaþörfin verður. Það er búið að greiða reikninga sem nema um 175 millj. kr. Nokkrir reikningar eru enn í kerfinu, en það er a.m.k. ekki í mínum huga neitt sem stefnir í það að farið verði fram á fjárhæð sem er meira en þetta að þessu sinni og engar óskir um nýjar lántökur til að mæta þörfum landbúnaðarins vegna halla á útflutningi að þessu sinni.

Á hinn bóginn er það rétt, að vegna mikilla vandkvæða á síðustu árum hafa verið tekin lán til þess að mæta því sem vantað hefur á útflutningsuppbætur og af þeim sökum leggjast baggar á ríkissjóð, sem hér var tekið fram af hv. málshefjanda í þessari umr. Þetta hafa menn vitaskuld gert með opin augun, en þessar fjárhæðir vaxa auðvitað í þeirri verðbólgu sem hjá okkur ríkir.

Ég get ekki sagt um það á þessari stundu hver útflutningsbótaþörfin verður á næsta ári. Það liggur hins vegar fyrir að mjólkurframleiðslan er í svipuðu horfi og verið hefur í þrjú ár og það liggur fyrir að verulegur samdráttur hefur orðið í sauðfjárafurðaframleiðslu. Á s.l. hausti varð dilkakjötsframleiðslan um 11 500 tonn og kjöt af fullorðnu rúmlega 2 100 tonn, en þetta er um 700 tonnum minni framleiðsla heldur en var árið á undan. Það liggur jafnframt fyrir að í haust varð veruleg fækkun á sauðfjárstofninum, sem og varð á árinu á undan. Á þessu stigi er auðvitað ekkert hægt að segja til um það, hver þörf verður fyrir útflutningsbætur til að mæta framleiðslu þessa verðlagsárs til 31. ágúst n.k., en það er ljóst að framleiðslan hefur dregist saman. Það hefur verið að því stefnt m.a. til þess að draga úr hinni miklu útflutningsbótaþörf.

Hér var rætt um sláturkostnað. Ég hef látið það í ljós fyrr að sláturkostnaður er hár hér á landi. Hann er til muna hærri en til að mynda eins og sagt var á Nýja-Sjálandi. Það er m.a. vegna þess að sláturtíð stendur skamman tíma hér á landi, eða venjulega 2–3 mánuði, og við höfum verið að byggja upp sláturhúsin með nýjum og fullkomnum mannvirkjum til þess að mæta kröfum markaðarins, bæði innanlands og utan, og höfum orðið að taka á okkur allstífar kvaðir til þess að geta staðist þær kröfur sem til okkar eru gerðar á erlendum markaði. Ég vil hins vegar minna á að á síðasta hausti hækkaði sláturkostnaður um 48.4% frá árinu á undan, sem er þó minna en til að mynda launahækkun varð á sama tímabili, en hækkun launaliðar í verðlagsgrundvelti var um 54.2% og verðlagsgrundvöllurinn hækkaði í heild í kringum 54% á milli ára. Þarna varð því um minni hækkun að ræða á sláturkostnaðinum s.l. haust heldur en á verðlagsgrundvellinum í heild.

Ég gat þess í umr. hér fyrr á þessu þingi að ég teldi að það gæti verið full ástæða til þess að setja að nýju nefnd til að kanna sláturkostnaðinn. Það var gert fyrir verðlagninguna 1981 og ég get ítrekað það hér, að ég mun íhuga hvort ekki sé ástæða til að láta slíka athugun fara fram.

Í athugun sem gerð var fyrir verðlagninguna 1981 kemur fram að þyngstu liðirnir í slátur- og heildsölukostnaði eru laun og launatengd gjöld, sem eru milli 20 og 30% af heildinni, og heildsölukostnaður, sem er innan við 20%. Það er til sundurliðuð athugun á sláturkostnaðinum, sem er rúmlega eins árs gömul, og það kann að vera ástæða til að gera slíka athugun að nýju og leita að leiðum til að spara í þessum milliliðakostnaði.

Ég tek undir það með hv. 7. þm. Reykv. að ég undraðist kannske nokkuð við þessa verðlagningu að hækkun á smásöluálagningu á kjöti varð meiri en heildsöluverðshækkun og verðlagsgrundvallarhækkun. En það er ljóst að Sexmannanefnd hafði vald til þess að ákveða þetta og hún var sammála. Ég gerði að vissu leyti athugasemd við þennan lið. En á það hefur verið bent að smásöluaðilar, þ.e. kaupmenn, telja að þeir geti ekki lagt nægilega vinnu og aðstöðu í smásöluverslunina með kjöt og kjötvörur eins og þarf til að sinna þessari vöru. Þessi rök hafa að einhverju leyti verið tekin til greina.

Ég vil ekki fara hér út í ítarlegar umr. um það kerfi sem starfað er eftir. Því kerfi er ætlað að tryggja bændum sambærilegar tekjur eins og verkamönnum og sjómönnum. Það hefur ekki nálægt því alltaf tekist og hefur stundum vantað mjög á að svo hafi verið. Í stefnuyfirlýsingum ríkisstj. hefur verið að því vikið að hafnar verði viðræður um athugun á þessu kerfi, en því hefur jafnframt verið lýst yfir í stefnuyfirlýsingum ríkisstj., og þá á ég við till. til þál. um stefnu í landbúnaði, að það verði byggt á framleiðsluráðslögum, það verði byggt á því að bændur hafi sambærilegar tekjur eins og þær stéttir, sem laun þeirra eða tekjur hafa verið miðaðar við, og það verði byggt á því að útflutningsbótarétturinn haldi sér. Þetta kemur fram í þeim stefnuyfirlýsingum, sem frá ríkisstj. hafa komið, og ég vænti þess að eftir því verði starfað.

Á hinn bóginn er ljóst að kerfi af þessu tagi er þess efnis, að það þarf sífelldrar athugunar við. Það eru margir krókar í því og kimar, sem getur þurft að athuga, og að því er sjálfsagt að starfa.