08.12.1982
Neðri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Bragð er að þá barnið finnur. Nú er loksins komið svo, að formaður Verkamannasambandsins getur ekki lengur orða bundist yfir þeirri dýrtíðarstefnu, sem ríkisstj. hefur haldið uppi í landinu og er í stórum dráttum rekin annars vegar á kostnað launþega og hins vegar á kostnað fyrirtækjanna, og svo er ávísað til framtíðarinnar með vaxandi skuldasöfnun erlendis.

Það er öldungis rétt hjá hæstv. landbrh., að hækkunin á landbúnaðarvörunum varð svo mikil sem raun ber vitni 1. des. vegna þess að ríkissjóður treysti sér ekki til að halda uppi sömu niðurgreiðslum að verðmæti eins og áður. Þó felst í brbl. að skattheimta í landinu er verulega aukin. Í þessum sömu lögum og gerðu ráð fyrir skerðingunni á kaupgjaldinu. Við skulum aðeins rifja upp hver var skerðing kaupgjaldsins. Af hverjum 10 kr., sem vörur hækkuðu um frá 1. ágúst til 1. nóv., voru teknar af launþegum 5.60 kr. Þeir fengu að halda 4.40 kr. af hverjum 10. Þetta er allmikil fórn. Og í ljósi þess ástands, sem er í þjóðfélaginu, er kannske virðingarvert að Alþýðusamband Íslands skuli m.a. segja í ályktun sinni frá 29. nóv., með leyfi hæstv. forseta:

„Sambandsstjórnarfundur ASÍ tekur undir samþykkt miðstjórnar frá 22. ágúst, sem fundurinn telur rétt viðbrögð við afskiptum stjórnvalda. Sambandsstjórn telur að við núverandi aðstæður sé ekki raunhæft að efna til andófs vegna brbl. en ítrekar þá afstöðu miðstjórnar, að verkalýðshreyfingin hlýtur að hafa fyllsta fyrirvara og áskilja sér allan rétt.“

Samtímis því sem þessi ályktun er gerð er lögð fram verðbólguspá Alþýðusambands Íslands, þar sem gengið er út frá 60% verðbólgu. (Gripið fram í.) Ja, Alþýðusambandið gerir ekki athugasemd við það. Sýnir það betur en allt annað að Alþýðusambandið hefur ekki uppi neina viðleitni til þess að knýja á um breytta efnahagsstefnu í þá veru að verðbólgunni verði komið niður og lífskjörin vernduð á næsta ári. Þetta er ekki lítil fórn, sem verkalýðurinn hefur fært á árinu 1982.

Hæstv. landbrh. talar í þeim tón, að það sé svo sem ekkert til að óskapast út af þótt kjöt hafi hækkað um 98% á þessu ári og mjólk um 95%. Og af hverju vex honum það ekki í augum? Vegna þess að aðrar matvörur hafa hækkað miklu meir, miklu meir. Hann nefnir dæmi um það að ávextir hafi hækkað um 165% og segir að ýmsar aðrar vörur, sem séu stór liður í neyslu heimilanna, hafi hækkað til muna meir. Hiti og rafmagn segir hann að hafi hækkað um 175% á árinu, ég er með tölur um það. Það má vera að hitinn sé eitthvað minni. Rafmagn hefur hækkað um 125% á þessu ári! Ég bið afsökunar, ég skildi þig svo að það væri á þessu ári. (Gripið fram í.) Já, ég tók rangt eftir. Og hitaveita hefur hækkað á þessu ári um 97.8%. Voru þessar tölur miðaðar við 1981 allar? (Landbrh.: Frá 1. jan. 1981 til nóv. 1982). Þá biðst ég afsökunar. Mér blöskruðu þessar tölur. En það hlaut raunar að vera að það væri lengra tímabil. En eigi að síður er þessi hækkun mjög veruleg.

Það hefur komið fram að fasteignamat allra eigna mun hækka um 77% á þessu ári, sem mun þýða hlutfallslega jafnmikla hækkun fasteignágjalda, að ég ætla, á næsta ári miðað við að sveitarfélögin noti heimildir sínar með sama hætti.

Þetta er nú enn athyglisverðara raunar en tölurnar bera með sér, þessi hækkun um 98%, 95% og 165%, fyrst miðað er við 1. jan. 1981, vegna þess að gífurlegar hækkanir á öllum hlutum áttu sér stað í desembermánuði 1980. Og það er raunar líka rétt, að engin verðkönnun fór fram fyrstu dagana í jan. á því ári, þannig að allar þær hækkanir sem samþykktar voru 31. des. 1981 voru reiknaðar til janúarverðs, það er staðreynd. Þessar hækkanir eru því raunverulega mun meiri en þetta.

Ég var ekki viðbúinn þessum umr., mér þykir slæmt að ég skuli ekki geta gert samsvarandi spá um matvörur á þessu ári. Ég tók vitlaust eftir, en rafmagn hefur sem sagt hækkað um 125% í Reykjavík og hitaveitan um 97,8% á þessu ári og það er ekki litið. Það vekur líka athygli að 56% af bensínhækkuninni á dögunum renna beint í ríkissjóð. Þetta ber því allt að sama brunni. Meginþunginn af þessum ráðstöfunum er lagður á herðar launþeganna og það er kannske eðlilegt þegar svo er komið, að atvinnuvegirnir eru ekki aflögufærir og þau miklu fyrirheit sem m.a. hæstv. sjútvrh. gaf útgerðarmönnum, þegar þeir lögðu skipum sínum í byrjun sept., hafa reynst blekking tóm og yfirklór. Enn liggur ekki fyrir með hvaða hætti skuldbreytingin verður. Svo er að sjá sem til stöðvunar flotans kunni að koma jafnvel nú í jólamánuði, í síðasta lagi eftir áramótin.

Samkvæmt nýjustu spám Þjóðhagsstofnunar verður hækkun verðbólgunnar 62% frá 1. febr. 1981 til 1. febr. 1982, 64% frá 1. maí 1981 til 1. maí 1982, 63% frá 1. ágúst 1981 til 1. ágúst 1982. Meðalhækkun frá fyrra ári er 60–63% og frá upphafi til loka árs er hér gert ráð fyrir 53–56% hækkun. En miðað við fyrri spár Þjóðhagsstofnunar verður að ætla að hækkunin verði raunverulega meiri, þar sem Þjóðhagsstofnun hefur jafnan verið varkár í sínum verðbólguspám. Það er því algerlega augljóst að kaupskerðingin núna gefur ekki fyrirheit um að ávinningur náist í efnahagsmálunum. Og það er út af fyrir sig alvarlegur hlutur þegar slík fórn er færð til einskis. Ef við berum þá gífurlegu kaupskerðingu sem nú er orðin saman við febrúarlögin 1978, sem hæstv. félmrh. skrifaði sig hásan út af — (Félmrh.: Skrifaði hann sig hásan?) Ég sagði að hann hefði skrifað sig hásan, já. Heyrði félmrh. rangt? (Félmrh.: Skrifað sig hásan?) Ég sagði það. Félmrh. hefur lag á því. Það eru nú ekki allir sem geta skrifað sig hása. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki svo. Og efndi til Alþingis götunnar út af. Ef við förum aftur til þess tíma og hugsum okkur að Ólafslög hefðu verið í gildi frá sólstöðusamningum til 1. mars 1978, hefði kjaraskerðingin samkv. þeim lögum ekki þurft að verða nema 1–2. Það sýnir muninn. Nú er hún tíföld.

Það hefur löngum verið vísað til þess, að Íslendingar hafi átt erfitt með að stjórna málum sínum í góðæri, og hefur áþreifanlega sannast á síðustu árum í stjórnartíð þessarar hæstv. ríkisstj. Fram undan er erfitt tímabil og krafan um að til stjórnarskipta komi verður æ háværari og bergmálar af flokksþingum bæði Framsfl. og Alþb. Það er kannske ekki nema von. Ef við athugum kaupmátt kauptaxta kemur í ljós að hann skerðist um 4.9% 1980, um 1% 1981, stóð í stað á mesta góðæri sem yfir okkur hefur gengið og á næsta ári er spáð að kaupmáttur kauptaxta muni enn rýrna um 7%. Það er miðað við framfærsluvísitölu. Hið sama er að segja um ráðstöfunartekjur. Þær dragast saman. Það þarf ekki að segja mönnum hvernig efnahag heimila hefur hrakað á þessu ári og enn er því spáð að ráðstöfunartekjurnar dragist saman um 6% á næsta ári. Inni í þessum tölum er ekki sá þungi baggi af vaxtahækkunum og verðtryggingum lána, sem þau heimili verða að bera sem skulda verulega. Sú byrði er ekki að fullu inni í þessu dæmi og því er dæmið í rauninni enn svartara en hér er tíundað.

Ég tek undir með landbrh. í því efni, að bændur, sérstaklega sauðfjárbændur, eru ekkert sérstaklega öfundsverðir um þessar mundir. Það hafa orðið hjá þeim eins og öðrum gífurlegar kostnaðarhækkanir í rekstrinum, enda þurfa menn ekki lengi að fara um sveitir landsins til að heyra að það er uppgjafartónn í bændum. Búum fer fækkandi og ungir menn sjá ekki fram á, þeir sem forsjálir eru, hvernig þeim eigi að takast að hefja búrekstur með sæmilegu móti. Þetta sanna tölur. Greiðslustaða bænda í kaupfélögunum er víða mjög bágborin, svo að þess eru dæmi, að kaupfélagsstjórar hafi sent þeim nótu um að þeir geti ekki vænst þess að fá reiðufé í hendur fyrir afurðir sínar, heldur verði að taka alla sína úttekt út í verslunum kaupfélagsins. Hagur dreifbýlisverslunarinnar endurspeglar líka afkomu bænda.

Það er oft rætt um það að þessi eða hinn landbúnaðarstefnan sé rétt eða röng. Ég skal ekki fara á breiðum grundvelli að ræða landbúnaðarmál. En hitt sjáum við allir, að svo er komið fyrir þessum grundvallaratvinnuvegi okkar, að eina ráðið virðist vera það að fækka sauðkindinni verulega. Það eru uppi áætlanir um það, bæði hjá Stéttarsambandi bænda og hjá landbrn. Vera má að það dragist enn um hríð að sveitir fari í eyði. En hitt er ljóst, að mönnum er enginn greiði gerður með því að gefa þeim tækifæri til að hokra áfram. Sveitir landsins geta ekki staðið nema efnahagur bænda, sem þar eru, sé góður og sambærilegur við það sem hann hefur verið og sambærilegur við hag annarra þegna þjóðfélagsins. Það hefur að vísu nokkru fé verið varið til þess að auðvelda mönnum nýjan búrekstur. Þar hefur þó ekki við það að borga sömu verðmæti í niðurgreiðslu á þessi nýi búrekstur við erfiðar aðstæður að etja, þar sem leiðréttinga er þörf en í sumum greinum hefur það verið leiðrétt nú nýverið.

Herra forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til hv. 7. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á landbúnaðarvöruhækkununum. Þær sýna að ríkisstj. ætlast til þess að allir leggi í sölurnar nema hún sjálf. Launþegar eiga að láta sér nægja minna, það hefur verið hert að fyrirtækjunum, en ríkissjóður ætlar að taka allt sitt á þurru. Hann stendur ekki við það að borga sömu verðmæti í niðurgreiðslu landbúnaðarvara og áður, sem veldur þeirri miklu hækkun sem raun ber vitni, og ýmsar þjónustustofnanir ríkisins hafa gengið á undan með góðu eftirdæmi í sambandi við hækkanir, bæði nú og oft áður, þegar farið hefur verið í vasa fólksins í landinu.