08.12.1982
Neðri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég get lofað því að verða stuttorðari en síðustu ræðumenn og ég ætla ekki í þetta skipti að fara að munnhöggvast við landbúnaðarkassettuna í hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Það verður bara til þess að hann endurtekur aftur ræðu sína. Hitt vil ég láta í ljós, að mér finnst það leiðinlegur atburður þegar hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, samstarfsmaður minn í stjórnarliðinu, stendur hér upp utan dagskrár og fer að telja eftir þá hækkun sem varð á landbúnaðarvörum um daginn.

Vissulega er þetta mikil hækkun fyrir neytendur og kemur vafalaust illa við pyngju þeirra, ég er ekki að gera lítið úr því, en af því að hv. þm. Guðmundur J. hefur alla tíð verið mikill talsmaður þeirra sem minna mega sín í landinu urðu það mér mikil vonbrigði að hann skyldi taka þetta ráð því að sannarlega eru bændur ekki ofhaldnir, jafnvel þó þeir fái sinn hlut af þessari hækkun. Hlutur bænda er nefnilega ekkert sérstaklega góður í dag, a.m.k. ekki sauðfjárbænda. Hann er þvert á móti ákaflega slæmur.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson taldi ekki eftir sér eða sínum flokki 1978 að taka undir kröfur bændastéttarinnar um bætt lífskjör, en ég vil segja það sem mína skoðun að það hefur mikið dregið sundur með íslenskum bændum, þ.e. þeim hluta sem er lakar settur, og hinum almenna launþega síðan 1978.

Sauðfjárbændur, sérstaklega þeir, sem ekki eiga það fjármagn sem þeir þurfa að velta, eiga margir mjög erfitt um þessi áramót. Kostnaðarhækkanir hafa dunið yfir og ekki síður á bændum en öðrum. Núverandi vaxtakjör eru náttúrlega algjörlega óbærileg, ekki síst í atvinnuvegi eins og landbúnaði, þar sem peningarnir velta hægt. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, ef ekki á að fara mjög illa fyrir alltof stórum hópi bænda, að grípa til skuldbreytinga eða einhverra þvílíkra ráða til þess að létta undir með þeim sem hafa lakastan fjárhaginn.

Ég tek undir það, að það er afar mikilvægt að halda niðri tilkostnaði sem allra mest. Að því hefur verið unnið og að því þarf að vinna í framtíðinni, einbeita sér að því að halda honum niðri, en það er ekki gott viðgerðar.

Sumt af neysluvörum búanna, sem ómögulegt er að komast af án, eins og t.d. áburður, hækkar ekki í takt við verðbólguna, heldur miklu hraðar en verðbólgan, m.a. vegna dýrra lána og fjármagnskostnaðar í áburðarframleiðslunni. Ég vil taka undir að það er mjög mikilvægt að halda niðri svo sem frekast er unnt sláturkostnaði, en verulegir hlutar í sláturkostnaðinum eru t.d. laun og launatengd gjöld og fæðiskostnaður verkafólks. Það vóg í sláturkostnaðinum 1981— ég er með tölur fyrir það ár — 29%. Þetta er m.a. vegna þess að verkalýðsforingjar okkar hafa verið duglegir að gæta réttar verkafólks við slátrun.

Ég vil vekja athygli á því, að inni í sláturkostnaðinum er líka heildsölukostnaður, sem vegur þungt. Það eru frysting, byggingar, skrifstofukostnaður annar en laun og laun á skrifstofu reyndar líka. Sá baggi er líka 29%. Þannig eru komin 58% af kostnaðinum í þessa tvo pósta. Þá er eftir rafmagn, olía, umbúðir, afskriftir, viðhald, viðgerðir o.s.frv., húsnæðiskostnaður, vextir og bankakostnaður.

Ég held að við þurfum að leita allra leiða til að halda þessum kostnaði niðri. Það er ekki aðferðin að setja þessi fyrirtæki á höfuðið því það á eftir að hefna sín. Við verðum náttúrlega að geta rekið þau með sæmilegum myndarbrag. Við þurfum að framleiða mátulega mikið af landbúnaðarvörum við þrifalegar aðstæður, framleiða góða vöru og meðhöndla hana með sem bestum hætti. Við þurfum að framleiða mátulega mikið.

Hér var mikil umr. í gær um að bændur hefðu ekki vikist nógu vel undir að fækka fé sínu, semja við ríkið um að fækka ánum í haust. Mér kom ekki á óvart þó að bændur væru ekki ginkeyptir fyrir þeim kjörum sem þeim voru boðin. Ég held að það hafi ekki verið haldið reglulega vel á því máli og ef menn á annað borð ætluðu að ná einhverjum árangri með þessu ættu þeir að vinna öðruvísi að en þarna var gert. T.d. þurfti að fara af stað með málið miklu fyrr á árinu. Það þurfti að gera það strax í vor. Okkur var að vísu ljóst í mínum þingflokki að það þurfti að gera og héldum að það væri í burðarliðnum. Auðvitað þurftu menn að vita þegar þeir báru á í vor hve mikið þeir ætluðu að setja á af bústofni í haust. Bæturnar, sem þarna voru boðnar, urðu svo náttúrlega að engu því að bændunum var boðið upp á að fá borgað grunvallarverð á ærkjötið. Það var nú allt og sumt. Auðvitað hefði þurft að borga þeim einhverja tekjutryggingu fyrir að minnka búin, því á einhverju urðu mennirnir að lifa þau ár sem þeir voru búnir að afsala sér réttinum til framleiðslu. Raunverulega var keyptur þarna kvóti af þessum mönnum og þeir fá ekki að framleiða næstu ár það sem þeirra kvóti sagði til um.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson ræddi um hrossakaupmenn í lok ræðu sinnar. Ég held að hann sjái hrossakaupmenn í eilítið rómantískara ljósi en ég geri. Ég þekki nokkra þeirra og ég vil taka það fram að yfirleitt eru þeir a.m.k. ekki lakari en aðrir. Hv. þm. hafði áhyggjur af því að það smáminnkaði í sér þetta göfuga, eins og hann sagði, en ég verð að hugga bæði hann og okkur með því að ég held að af nógu sé að taka. (Forseti: Það líður nú mjög á fundartímann og ég má til að biðja hv. ræðumenn að stytta mál sitt, ef þess er kostur.)