08.12.1982
Neðri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það fór reyndar eins og málshefjanda grunaði, að það hlaut að koma að því að einhver stæði hér upp og færi að búa til orð og leggja orð í munn þm., sem hér hafa talað um þau vandamál sem á hefur verið drepið, því að hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Páll Pétursson, kom auðvitað að því að hér væri verið, eins og áður hefur komið fram þegar talað er um landbúnaðarmál, að ráðast að bændum. Ég tók einmitt eftir því, að hjá málshefjanda var það skýrt undirstrikað, og reyndar hjá öllum þm. sem hér hafa talað, að ekki væri verið að ráðast að bændum eða bændastéttinni.

Ég held að allir geti tekið undir það, að ýmsir og flestir smábændur búa við ekkert of góðan kost í þessu þjóðfélagi. Reyndar eru þeir ekki þeir einu. Það er hægt að segja að allur almenningur í þessu landi búi ekki við of góðan kost þessa dagana. Það er enginn vafi á því. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson á þakkir skilið fyrir að hafa vakið máls á þessu máli í dag, en ekki vandlætingu frá prófkjörspálum Framsfl., sem finna að því við stjórnarþm. ef þeir sjá eitthvað sem ekki á svo að vera í stjórnarstefnunni. Hann á þakkir skilið fyrir að standa nú upp og vekja athygli á þeim miklu verðhækkunum sem hafa orðið að undanförnu. Ég tel að þegar honum, sem fram til þessa í tíð núv. ríkisstj., sem hann styður, hefur setið undir 13 verðbótaskerðingum á laun, er farið að hitna svo í hamsi að hann þarf að standa upp til að finna að hvernig að verðlagsmálunum í heild er staðið, þá sé von að við hinir stöndum kannske á fætur einnig til að láta okkar skoðanir koma fram.

Ég verð að segja að það sem hv. 7. þm. Reykv. drap á er allt hárrétt. Hann var ekki að ráðast að bændum, hann tók það fram. Hins vegar var hann, eins og aðrir ræðumenn sem hér hafa talað, að minnast á aðallega þrjú atriði sem hafa komið fram. Það er sá óhæfilegi milliliðakostnaður, sem virðist vera í sambandi við þennan atvinnuveg, og það er það kerfi, sem búið er við, og nauðsyn þess að gera á því nokkrar breytingar, og svo það, sem mér fannst auðvitað vera meginmál málshefjanda, hvort það væri ekki hægt að gera þá breytingu að borga frekar niður til neyslu fyrir Íslendinga en fyrir útlendinga. Þetta hljóta auðvitað allir að geta verið sammála um.

En það er ekki þar með sagt að neinn sem talar á þennan veg beri þá ósk í brjósti að skerða laun eða kjör bænda í þessu landi. Það er fjarri því. Ég hef aldrei hugsað þannig og hugsa ekki þannig, en hins vegar tel ég að þetta sé það stórt mál fyrir íslensku þjóðina, fyrir fjárhag þjóðarinnar fyrir alla landsmenn, að það beri að leita allra ráða til að ná niður þeim mikla kostnaði sem er orðinn á þessum liðum.

Það kom að vísu fram áðan í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, 3. þm. Vestf., sem ég ætlaði vegna ræðu hæstv. landbrh. að spyrja um vegna þess að ég mun líklega vera sá eini eða kannske einn af fáum þm. sem sátu á þingi þegar þessi lög voru sett. Ég fæ ekki séð annað, þó að það horfi til leiðréttingar, en hv. þm. hafi farið með rangt mál þegar hann sagði í ræðu sinni að það væri aðeins heimild í lögum til að borga útflutningsbæturnar. Ég fletti upp í frv., sem hann vitnaði til og hann er sjálfur 1. flm. að. Það segir í grg. frv., með leyfi forseta, en það er verið að vitna í umrædd lög:

„Tryggja skal greiðslu á þeim halla, sem bændur kunna að verða fyrir af útflutningi landbúnaðarvara, en þó skal greiðslan vegna þessarar tryggingar ekki vera hærri en svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar viðkomandi verðlagsár, miðað við það verð, sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar.

Hagstofa Íslands reiknar fjárhæð þá, er ber að greiða framleiðendum vegna ákvæðis 2. mgr. þessarar greinar“. Ég sé ekki að þetta sé nein heimild. Ég sé ekki annað en beina fyrirskipun og lagaákvæði um að þetta eigi að gera. En það er annað sem ég ætlaði að spyrja hæstv. landbrh. um, sem kom reyndar að nokkru fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Það var: Hvað hefur aukist mikið umfang þessarar framleiðslu, sem við samþykktum lög um 1959 og reyndar voru gerðar breytingar á síðar — það var í tíð viðreisnarstjórnar — hvað hefur aukist umfang þess sem þá var reiknað með að yrði tekið inn í þessar útflutningsbætur? Ég man eftir því að okkur var sagt: Það þarf ekkert að óttast að þetta verði neitt á næstu árum. Enginn gerði sér þá grein fyrir þeirri stórkostlegu framleiðniþróun sem varð í landbúnaðarmálum á næstu árum, en eftir að hún var farin að segja til sín fann ríkissjóður fyrir þessu ákvæði í lögunum. Gott og vel, en það sem ég á við og reyndar kom fram í ræðu þm. líka er sú viðbót sem hefur hlaðist á það sem ákveðið var þá að félli undir útflutningsbæturnar. Það eru í raun allar afurðir sem teljast til landbúnaðarins í dag. Það er alveg sama hvort það er silungur eða lax, dúntekja, alifuglarækt, tómata- og gúrkuframleiðsla eða hvað það er, þetta hefur allt saman bæst við á þessum árum. Ég veit ekki hvort það eigi að skýra þessa lagagrein beint þannig, að öll þessi framleiðsla, öll nýframleiðsla, allar nýjar búvörugreinar, sem við erum öll sammála hér um á hv. Alþingi að við eigum að stuðla að að bændastéttin öðlist og fái notið, eigi að falla undir þetta ákvæði og hvort útflutningsbætur eiga að aukast að sama skapi og þær tekjur sem fást fyrir slíkar nýjar búgreinar. Ég efast um að það hafi verið skilningur löggjafans í þá daga og ég kannast ekki við það. Ég efast um að þetta fái staðist. Allavega hlýtur að koma að því að það verði að endurskoða þetta ákvæði. Auðvitað er leið til þess.

Það kom fram hjá hæstv. landbrh. að Sexmannanefndin er eins og við vitum notuð sem blóraböggull við verðákvarðanir sem eru gerðar á skakkan hátt. Það eru nokkuð mörg ár síðan Alþýðusambandið dró sinn fulltrúa út úr Sexmannanefnd. Ég er í stéttarfélagi sem samkv. gamalli hefð og reyndar ákvæðum í lögunum skipar einn fulltrúa, svokallaðan neytendafulltrúa, í þessa nefnd. Það er komið nokkuð á annað ár ef ekki orðin tvö ár síðan aðalfundur þess félags samþykkti að ef ekki yrði gengið til þess að endurskoða þessi ákvæði og önnur í lögunum mundi það draga sinn fulltrúa út úr nefndinni. Ég sé ekki annað en það sé orðið mjög tímabært að svo verði gert til þess að endurskoðun fáist á þessum málum í heild og þó sérstaklega á ákvæðinu um Sexmannanefndina. Ég fæ ekki annað séð en þeir góðu menn, og ég undirstrika að það eru hinir ágætustu menn sem þar hafa starfað svo lengi sem ég man, allavega þeir sem ég þekki og eru fulltrúar neytenda þar, hafi unnið sín verk samviskusamlega og vel, en þeir hafa unnið samkv. gildandi lagaákvæðum og því er sú útkoma eins og hún er sem við sjáum m.a. þegar verðhækkanir verða.

Ég viðurkenni auðvitað fúslega að laun bænda þurfa að hækka ekki síður en laun annarra. En ég fæ ekki séð hvaða hlutverki það gegnir hjá hæstv. ráðh. að vera að draga hér upp og skýra okkur frá stórkostlegum hækkunum einstakra afurða, einstakra liða úr munstri þess sem við notum daglega og heimilin nota daglega í landinu, og bera það saman við kannske heldur minni hækkanir landbúnaðarafurða. Mér finnst að þetta sé afstætt nema hæstv. ráðh. dragi þá fram um leið hver hefur verið hækkun launanna á þessu tímabili. Hafa þau staðið í stað? Hafa þau verið skert eða hafa þau stórhækkað? Þá getum við séð á einhvern hátt hvernig þessi þróun hefur verið fyrir neytendurna, fyrir heimilin í landinu.

Mér fannst líka að hann væri að leita að ástæðum í sambandi við dreifingaraðilana ekki síður en þegar hann talaði um Sexmannanefndina, það væri verið að benda á að þeir hefðu gert kröfu til hækkana og það hefði komið honum sérstaklega á óvart og hann hefði skoðað það sérstaklega, en það hefði hins vegar verið talið rétt að Sexmannanefndin fengi að ráða. Vita ekki allir hér inni hvernig ástand smásöluverslunar er í þessu landi? Veit ekki hæstv. ráðh. um þær kvartanir og þær kröfur sem hafa komið frá kaupfélögunum úti um land? Veit hann ekki að smásöluverslunin er að gefast upp úti um land og hún er að gefast upp hér í Reykjavík? Það er alveg út í hött að ætla sér að fara að kenna kaupmönnum í Reykjavík um, hvort sem þeir eru einstakir eða það séu stærri verslanir um það, að landbúnaðarverðið hækkar á þennan máta. Þetta er einn angi óðaverðbólgunnar, sem ríkir í þessu landi og sem hefur ríkt alla stjórnartíð þessarar hæstv. ríkisstj. Því er það enn frekar út í hött þegar slegið er á strengi landbúnaðarkassettunnar hjá Alþfl. og formaður þingflokks Alþfl. fer að vitna í fyrsta sinn í þingsögunni í væntanlegan formann Bandalags jafnaðarmanna og telur að það sé tvískinnungur hjá okkur sjálfstæðismönnum þegar við tölum um það nú að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur 1. des. hefðu átt að vera jafngildar í krónum því sem áður var til þess að aukahækkanirnar kæmu ekki einmitt á sama tíma og hæstv. ríkisstj. telur nauðsynlegt að skerða verðbætur á laun. Það er enginn tvískinnungur í þessu vegna þess að niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum eru hluti af stjórnarstefnunni. Þessi ríkisstj. hefði aldrei getað haldið sér á floti í þessu þrjú ár nema vegna þess að niðurgreiðslurnar eru hluti af efnahagsstefnu ríkisstj., þ.e. að falsa verð og falsa laun með kerfinu sem ríkir. Þess vegna hefur ríkisstj. lifað jafnlengi og hún hefur.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh., sem hafði orð á því að það þyrfti að endurskoða ákvæði laga um útflutningsbótarétt. Það á auðvitað að gera, og það er ekki nokkur maður sem telur ekki rétt að innan framleiðsluráðslaganna séu ákvæði um þetta. Ég held að ekki verði neinn hér á hv. Alþingi til þess að hafa á móti því að áfram verði einhvers konar ákvæði um að tekjur bænda, sem hafa vissulega töluverða sérstöðu, séu sambærilegar og annarra atvinnustétta. Við verðum þó að hafa í huga þá ósk þeirra sjálfra í stórum mæli að þeir teljist atvinnurekendur, en ekki launþegar í þeirri merkingu. En það þarf auðvitað ekki að hafa nein áhrif á að þeim séu tryggð laun sem séu sambærileg við aðrar stéttir. Því tel ég það ekki óeðlilegt að ákvæði um sambærileg laun séu innan þessara laga, þannig að ekki á að þurfa að vera nein og þarf ekki að verða nein andstaða frá launþegum í þessu landi þótt lögin verði endurskoðuð með það í huga. Hins vegar hlýtur sú spurning að vakna, hvort það séu ekki einhverjar stéttir í þessu landi sem þurfi að fá slík ákvæði inn í íslensk lög eða inn í sina kjarasamninga líka. Bændur hafa þetta, opinberir starfsmenn hafa þetta í raun. Það er spurning hvort það eigi þá ekki að fara alla leiðina og tryggja öllum sambærileg laun með lögum, vera ekki að láta örfáa aðila standa í því að berjast notandi verkfallsvopnið til þess að rífa upp alla þjóðina í launatekjum. Það gæti kannske orðið ódýrara fyrir íslenska þjóð.

Ég vildi aðeins, herra forseti, láta þetta koma fram. Ég skal ekki eyða tíma fundarins lengur. Ég þykist vita að hæstv. ráðh. þurfi að svara ýmsu því sem hér hefur komið fram í dag í þeim ræðum sem þm. hafa hér flutt. En ég vil taka undir þær þakkir sem hafa verið færðar hv. 7. þm. Reykv. fyrir að hefja máls á þessu þýðingarmikla máli og í raun hef ég fulla ástæðu til að þakka hæstv. landbrh. líka fyrir að hafa tekið á málinu þannig hér utan dagskrár að ræða það efnislega og ræða það'þannig að það má vel búast við því að aðilar sameinist um endurskoðun laganna. Ég veit að hv. 7. þm. Reykv., þó að hann hafi kannske orðið í morgun fyrir skömmum í miðstjórn Alþýðusambandsins eða stjórn Verkamannasambandsins eða í stjórn Dagsbrúnar, hefur líka í huga að gæta hagsmuna þess fólks sem hann er umbjóðandi fyrir, bæði hér og annars staðar, þannig að mér sýnist að það ætti að vera vel hægt fyrir þessa aðila að sameinast um endurskoðun á þessum lögum — endurskoðun sem gæti orðið ekki aðeins bændum til góða heldur líka neytendum. Eitt af því sem þar verður auðvitað að skoða og lagfæra er nýskipan verðmyndunarkerfisins. Alla vega tel ég að orðið sé tímabært að Sexmannanefndin, í þeirri mynd sem hún starfar í, kveðji.