08.12.1982
Neðri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég er ekki vanur að halda langar ræður í þessari deild.

Ég hlustaði á umr. utan dagskrár í gær í Sþ. og ég skrifaði hjá mér þau orð sem virtust vera algengust í þeirri umr. þegar menn voru að tala um stjórnvöld þessa lands og hugarfar þeirra sem eru að fást við efnahagsstjórn í landinu. Það voru orð eins og blekkja, falsa, skerða, stela og svíkja. Það er allmikið harmsefni að þetta orðfæri hefur að nokkru leyti verið notað aftur við þessa umr., sérstaklega af þingflokksformanni Alþfl. hér áðan. Það má vel vera að komið sé svo í þessu landi og orðið álit margra í þinginu að svo sé hugsað í þessu landi. Ég er ekki þeirra skoðunar. En mér finnst mikið alvörumál þegar menn tala í þessum dúr hér á Alþingi. Það er þó ekki til umr. hér, heldur verðlagning landbúnaðarafurða.

Það er öllum ljóst, sem hér hafa talað, að minnsta kosti hafa menn viðurkennt það í orði, að það eru miklir erfiðleikar í landbúnaði og forustumenn bændastéttarinnar hafa reynt að taka og tekið mjög föstum tökum á þessum vandamálum. Þeir hafa reynt að telja mönnum trú um að það þyrfti að draga saman og minnka framleiðslu. Það er ekki einfalt og auðvelt hlutskipti fyrir forustumenn í stéttum að gera slíkt. Þeir hafa samt gert þetta og fengið ámæli úr öllum áttum og öllum stjórnmálaflokkum. Og menn tala út og suður. Fyrir nokkrum dögum talaði forustumaður Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum fyrir hönd Sjálfstfl. og hann skammaði ríkisstjórnina og landbrh. fyrir að hafa staðið að því að framleiðsla hafi minnkað. Nú standa aðrir sjálfstæðismenn upp og tala um hið gagnstæða. Á sama hátt hafa forustumenn í landbúnaðinum legið undir slíku ámæli.

Það er alveg rétt að ólga er meðal almennings í þessu landi vegna erfiðleika og afkoma heimilanna er slæm. Það er líka ólga meðal bænda. Það er ekki skemmtilegt fyrir heila stétt manna eins og bændur að hlusta á það nánast á hverjum einasta degi að þeir séu of margir, þeir framleiði of mikið og þeir séu hálfgerður baggi á þjóðfélaginu. Það er ekkert skemmtilegt fyrir eina stétt að hlusta á slíkt tal í fjölmiðlum þessa lands dag eftir dag, mánuð eftir mánuð og jafnvel ár eftir ár. Við þetta búa þessir menn og er eiginlega mesta furða hvað þeir taka því vel, og hef ég fundið það í viðtölum við þá.

Ég er þeirrar trúar, að bændur í landinu skilji þessi vandamál og þeir séu best til þess færir að taka á þeim sjálfir. Ég held að forustumenn annarra stétta ættu ekki að blanda sér þar mikið inn í. Hitt er svo annað mál og er mikið áhyggjuefni hvað orðin er mikil tortryggni á milli stétta í landinu og hvað lítið samstarf er á milli stétta.

Það kom fram áðan að Alþýðusamband Íslands hefði dregið sinn fulltrúa út úr Sexmannanefnd. Áður fyrr mættu fulltrúar frá Alþýðusambandinu á fund Stéttarsambands bænda til að hlusta á þeirra málflutning og bændur mættu á Alþýðusambandsþing til að hlusta á málflutning þeirra sem þar eiga hagsmuna að gæta. Nú hafa menn lagt þennan sið af og eru hættir að sinna slíkum boðum. Sennilega eru menn hættir að senda slík boð. Væri betur ef menn væru tilbúnir til þess að hlusta meira á vandamálin hver hjá öðrum og býst ég við því að þá væri meiri skilningur á þeim en kom fram í hugsjónaræðu þingflokksformanns Alþfl. áðan. Þá loksins var hin eina og sanna hugsjón fundin, enda talaði hann af slíkum eldmóði hér að ég hef aldrei heyrt hann tala svo áður utan einu sinni, þegar hann ræddi einslega við Ólaf Jóhannesson að þjóðinni allri ásjáandi. Það er í eina skiptið sem ég hef áður — mér þykir slæmt að þingflokksformaðurinn skuli ekki vera hér — séð hann tala af slíkri hugsjón og slíkri hugsjónaauðgi.

Herra forseti. Ég sé að fundartími er liðinn og ég hef ekki lokið máli mínu. Ég veit ekki hvort mér leyfist að halda áfram (Forseti: Síðar, já, já.) eða hvort ég á að gera hlé (Forseti: Ég skal ekki slíta umræðunni.) á ræðu minni. Ég hafði hugsað mér að tala hérna eitthvað lengur. (Forseti: Já, það er ágætt. Ég skal fresta umr. Ráðh. fær að segja örfá orð, en ég fresta svo umr.) Nú já. Ég vildi kannske nota allan tímann, ef ég fæ lengri tíma. Ég skal þó taka tillit til óska forseta, en vænti þess, að það verði þá slíkt fordæmi að ýmsir málglaðir menn hér í deildinni geri slíkt hið sama.