09.12.1982
Sameinað þing: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er nýlokið viðræðufundi milli mín og fulltrúa Alusuisse, öðrum fundi á stuttum tíma. Það eitt út af fyrir sig væri ekki tilefni af minni hálfu til að óska eftir að taka til máls utan dagskrár hér í hv. Sþ., ef ekki hefði dregið til óvæntra og stærri tíðinda er tengjast þessu máli og alþjóð var vitni að við útsendingu sjónvarpsfrétta í gærkvöld, er sett var á svið sýning sem verður að teljast nokkuð sérstæð og fátíð í íslenskri stjórnmálasögu, þar sem fulltrúi eins ríkisstjórnaraðilans, stærsta stjórnarflokksins, Framsfl., sá ástæðu til að ganga fram fyrir alþjóð og koma á framfæri ákveðnum skilaboðum. Um þetta hafði hann greinilega gott samráð við þennan ríkisfjölmiðil, sem ekki hafði séð ástæðu til að inna mig frétta af þessu máli eða því sem fram yrði reitt í þessum fréttatíma.

Ég vil vekja athygli á því, að sá fréttaflutningur sem þarna kom fram var á margan hátt mjög sérstæður, ekki aðeins sá málflutningur sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson valdi að koma á framfæri með þessum hætti, heldur sá rammi og umbúnaður sem honum var valinn. Fréttamaður sjónvarpsins sá ástæðu til að geta þess í inngangi, að ég hafi undanfarin tvö ár borið Alusuisse þungum sökum um að hagræða verði á aðföngum og hagræða bókhaldi til skaða fyrir Íslendinga, auk margs annars sem fram kom í hans máli, þ. á m. þessar upplýsingar, svo að orðrétt sé vitnað í fréttamanninn:

„Í nóvember barst hins vegar mjög jákvætt bréf frá Alusuisse, þar sem boðið er upp á samningaviðræður, sem m.a. fjalli um nýtt orkuverð og að tekið verði mið af orkuverði í Evrópu og Bandaríkjunum.“

Síðar segir sami aðili, þegar búið er að lýsa því að enginn árangur hafi. orðið af síðasta fundi:

„Þegar hér var komið sögu ákvað Guðmundur G. Þórarinsson alþm. að segja sig úr nefndinni. Hann er nú staddur hér í sjónvarpssal.“

Síðan hófst hans málflutningur. Ég ætla hér ekki að endurtaka það, enda liggur það skjalfest fyrir sem hann hafði þar fram að færa og hefur komið fram í fjölmiðlum, m.a. í málgagni hans flokks á forsíðu, þar sem segir: „Ég lýsi allri ábyrgð á hendur iðnaðarráðherra.“

Það mega út af fyrir sig teljast nokkur tíðindi að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson skuli telja það sérstaka frétt til uppsláttar og hans flokksmálgagn, að ég beri ábyrgð á þessu máli, og hann þurfi að lýsa þeirri ábyrgð á hendur mér. Ég hef ekki vitað annað eða metið málið öðruvísi en ég bæri ábyrgð í þessu máli. En ég hef talið ástæðu til að kveðja þar til samráðs ekki aðeins fulltrúa stjórnaraðila, heldur einnig fulltrúa stjórnarandstöðu, sem hafa borið saman bækur sínar ásamt sérfræðingum í svokallaðri álviðræðunefnd, sem starfað hefur síðan í ágústbyrjun 1981.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur valið sér það hlutskipti að hlaupa þar undan merkjum einn manna, og ber fram fyrir því ástæður sem alþjóð hefur nú heyrt. Hann orðar það svo í sjónvarpinu í gærkvöld, þegar spurt er um árangur af starfi álviðræðunefndar, orðrétt til vitnað: „Ja, ég er nú satt að segja eftir allan tímann og setu í þessari nefnd að komast að þeirri niðurstöðu, að annaðhvort vilji iðnrh. ekki semja eða geti það ekki, nema hvort tveggja sé.“ Ég læt hv. alþm. um að meta þessi ummæli, sem fram eru borin og valinn til þess sá vettvangur sem hér um ræðir.

En það er nauðsynlegt að gæta að málsatvikum. Ég hef ekkert við það að athuga að í samráðsnefndum stjórnmálaaðila á Íslandi komi fram skiptar skoðanir. Það er ekki nema eðlilegt að menn beri þar saman ráð sín og skiptist á sjónarmiðum og reyni að jafna ágreining, ef fram kemur, ekki síst í stóru lífshagsmunamáli okkar þjóðar eins og þessu. En hver er sá ágreiningur sem hv. þm. færir fram sem rök fyrir því að hann stígur þetta skref? Hann er sá, samkvæmt hans eigin orðum og málflutningi, að ég hafi ekki fengist til þess í viðræðum s.l. þriðjudag við Alusuisse að bera fram tillögu, sem hann hafði reifað á fundi álviðræðunefndar kvöldið áður, að bera þá tillögu fram sem tillögu Íslands í viðræðunum við Alusuisse. Hann heldur því fram, að þessi tillaga hafi fengið meirihlutastuðning í álviðræðunefnd, og lætur að því liggja, að það hafi verið eðlilegt og sjálfsagt að ég hefði eftir henni farið.

Ég vil upplýsa það hér, sem þegar hefur raunar fram komið, að engin slík tillaga var afgreidd frá álviðræðunefnd eða borin inn á mitt borð í nafni nefndarinnar, heldur var mér greint frá umræðum í nefndinni á þriðjudagsmorgni af formanni álviðræðunefndar. Og sú tillaga, sem Guðmundur G. Þórarinsson gerði að úrslitaatriði fyrir framhaldandi starfi sínu í álviðræðunefnd, hún er þess efnis að það er fyllsta ástæða til að fara yfir hana. Ég hlýt jafnframt að fara yfir nokkur meginatriði í stöðu málsins eins og þau nú blasa við.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson gerði það að tillögu sinni og úrslitaatriði um áframhaldandi setu í nefndinni að ég bæri fram kröfu um 20% hækkun orkuverðs til álversins í Straumsvík og raunar hafði hann í upphafi talað um 15% hækkun raforkuverðsins frá og með 1. febr. n.k. Samkv. tillögu Guðmundar átti ég einnig að fallast á kröfur Alusuisse um heimild til að fá að stækka álverið og taka inn nýjan samstarfsaðila, nýjan eignaraðila að þessu fyrirtæki, sem næmi 50% eignarhlutdeildar, sem er meira en núverandi lög leyfa eða ákveða. Þessu verði skyldi það keypt að reiða fram þessa tillögu, sem hann ekki taldi að ætti að vera úrslitaatriði, heldur mætti vænta gagnviðbragða af hálfu Alusuisse, sem þá yrði að meta þegar þar að kæmi.

Hvernig stóðu málin í viðræðunum við Alusuisse þegar þessi krafa var borin fram af fulltrúa Framsfl.? Alusuisse hafði ekki aðeins hafnað algjörlega í þessum viðræðum að verða við kröfu Íslendinga um hina minnstu hækkun á raforkuverði til álversins að óbreyttum núverandi samningum. Í öðru lagi hafði fyrirtækið borið fram kröfu um það að fá verulegar hagsbætur í sinn hlut. Þessar kröfur voru í fyrsta lagi um heimild til stækkunar, sem meta má til verulegra hagsbóta samkvæmt málflutningi fyrirtækisins, í öðru lagi um að fá inn nýjan eignaraðila, og síðast en ekki síst að fá lækkuð kaupskylduákvæði í raforkusamningnum við Landsvirkjun niður í 50%. Um þessar kröfur var álviðræðunefnd upplýst að kvöldi 6. des. og enn frekar og skýrar á fundi eftir hádegi í fundarhléi mínu við Alusuisse, en þá var nefndin kvödd saman, og þar var gerð grein fyrir þessum kröfuatriðum af Alusuisse hálfu. Samt sem áður gerði Guðmundur G. Þórarinsson það að úrslitaatriði að ég bæri fram tillögu hans.

Við skulum aðeins líta áfram á hvað hér er verið að fara. Hækkun á raforkuverði til álversins í Straumsvík um 20%, sem gerð er tillaga um að reynt yrði að ná fram sem áfangahækkun, gæfi á einu ári í auknar tekjur til Landsvirkjunar samkvæmt áætlaðri sölu á næsta ári 1.7 millj. Bandaríkjadala. Lækkun á kaupskylduákvæði í raforkusamningnum við Landsvirkjun, ef fyrirtækið hagnýtti sér það, eins og það getur haft fullan hug á miðað við núverandi stöðu markaðar, mundi þýða rýrnun á tekjum til Landsvirkjunar sem nemur 3 millj. dollara, sem nemur 3 millj. dollara á móti því sem fram er sett í sambandi við raforkuverðshækkun upp á 1.7 millj. dala. Og það segir ekki alla sögu, því að ef Alusuisse hagnýtti sér lækkaða kaupskyldu á raforku þá skiluðu sér að sjálfsögðu minni aðrar tekjur, eða aðeins helmingur, þannig að mismunurinn eru röskar 2 millj. dala, er upp væri staðið.

Guðmundur G. Þórarinsson hefur eflaust ekki ætlað sér að niðurstaða úr viðræðu við Alusuisse gengi þannig eftir, það ætla ég honum ekki. Hann er með vonir um það að ef gengið yrði til viðræðna á þessum grundvelli, þá væri hægt að fá fram leiðréttingu á raforkuverði í slíkum samningum, en tryggingu fyrir slíku hefur hann enga. Og ég verð að upplýsa það hér, að þær viðræður sem fram hafa farið að undanförnu við Alusuisse, þar sem gengið hefur verið eftir því við fyrirtækið hvort og hversu mikið það væri reiðubúið að ganga til móts við okkar sanngirniskröfur, hafa ekki borið vott um það að þeir væru reiðubúnir að gera það að neinu leyti, þrátt fyrir það að þeir segi í orðsendingu til Íslendinga að þeir séu reiðubúnir að ræða við okkur um endurskoðun á raforkuverði með tilliti til samninga um raforkuverð til álvera í Evrópu og Ameríku og að teknu tilliti til samkeppnisaðstöðu ÍSALs. Þegar farið er að þreifa á kjarnanum í þessum orðum kemur það fram að Alusuisse telur að slíkur samanburður þurfi ekki að skila neinu í hlut Íslendinga eftir að þeir hefðu leitt okkur í allan sannleika um sín viðhorf í þessu máli. Þetta verða menn að hafa í huga þegar litið er á efnisþætti þessa máls.

En í rauninni er málið annað og miklu stærra heldur en hér er borið fram í sambandi við krónur og aura. 20% hækkunin, sem Guðmundur G. Þórarinsson er að stinga upp á og gera kröfu um að ég beri fram við Alusuisse, á meðan þeir eru með gagnkröfur af slíku tagi sem ég hef hér rakið, mundi svara til tveggja aura hækkunar á kwst. á sama tíma og almenningsveitur í landinu kaupa raforku á hátt í 50 aura kwst. en Alusuisse borgar um 10 aura.

En það sem alvarlegast er í þessu máli er það, að hér hleypur fulltrúi stærsta stjórnaraðilans undan merkjum á úrslitastundu, þegar verið er að takast á um íslenska hagsmuni í þessu máli, og færir víglínuna frá því að vera á milli Íslands og Alusuisse og setur í staðinn Íslendinga gegn Íslendingum, færir víglínuna yfir í átök hér innanlands um málsmeðferð og efnisatriði. Slíkt er fáheyrt. Og það er fáheyrt að slíkt skuli gerast með þeim hætti sem þessi hv. fulltrúi Framsfl. í álviðræðunefnd kaus.

Eftir að hafa heyrt viðbrögð, og viðræður í álviðræðunefnd á mánudagskvöldið var bar ég fram í samráði við mína ráðgjafa sáttatillögu af Íslands hálfu inn í viðræðurnar við Alusuisse. Það er rétt að ég kynni hv. alþm. efni þeirrar tillögu, eins og hún er hér í laustegri þýðingu úr ensku, en á ensku var textinn fram lagður í þessum viðræðum. Hann var svofelldur:

„Til að unnt sé að hefjast handa um alhliða samningaviðræður um öll óleyst atriði milli aðilanna með það að markmiði að ná sáttum í vinsemd og koma samskiptum aðila í eðlilegt horf hafa aðilar orðið ásáttir um eftirfarandi“. — Þetta er tillaga að sameiginlegri yfirlýsingu:

„Ísland fellst á málsmeðferð þá sem Alusuisse hefur gert tillögu um í telexi dags. 10. nóv. 1982, atriði 1 a–c, með breytingum, en samkvæmt henni á að vísa öllum lögfræðilegum deilum aðila, sem lúta að skattalegum skuldbindingum ÍSALs, til úrskurðaraðila, og samþykkir að hefja nú þegar sameiginlegar undirbúningsaðgerðir í því skyni. Alusuisse samþykkir það meginsjónarmið að réttmætt sé að leiðrétta orkuverð til ÍSALs og er reiðubúið að hefja nú þegar samningaviðræður um endurskoðun rafmagnssamningsins og samþykkir verulega áfangahækkun á núverandi raforkuverði til að sýna að fyrirtækið byrjar samningaviðræður í góðri trú þegar í stað varðandi endurskoðun rafmagnssamningsins.

Báðir aðilar lýsa því yfir að þeir eru í hvívetna reiðubúnir að ræða og taka upp samningaviðræður um öll atriði varðandi framtíðarrekstur ÍSALs og samskipti Alusuisse og Íslands. Þetta nær til allra atriða sem aðilar hafa þegar sett fram eða kynnu að setja fram meðan á viðræðum stendur.“

Þetta var tillaga til sátta, tilraun til sátta af Íslands hálfu í þessu máli, fram borin á þriðjudagsmorgni í viðræðum við Alusuisse. Viðbrögð Alusuisse við þessari tillögu voru nei og aftur nei um að fallast á það grundvallarviðhorf að raforkuverðið beri að hækka, og að fallast á verulega áfangahækkun á núverandi raforkuverði gegn því að deilumál um lögfræðilegan ágreining varðandi fortíðina og skattalega meðferð færu til úrskurðaraðila, eins og þeir höfðu lagt til.

Herra forseti. Ég sá ástæðu til þess að greina hér frá þessu m.a. vegna þess að menn gætu skilið það af málflutningi hv. 12. þm. Reykv. að ég hafi ekki sýnt áhuga á því að koma af stað alvarlegum samningaviðræðum við Alusuisse. Niðurstöðurnar af viðræðum við Alusuisse í lok fundar á þriðjudag voru þær að fyrirtækið hafði neitað þeim kröfum sem við höfum ítrekað fram borið um lágmarksleiðréttingu á raforkuverði gegn því að við féllumst á tillögu þeirra um málsmeðferð varðandi ágreining fyrri tíðar. Það höfðu hins vegar ekki verið settir fram neinir úrslitakostir á þessum tíma. Og það hafði verið um það sammæli í álviðræðunefnd að á þessum fundum væri ekki rétt að setja fram slíka úrslitakosti. En hv. 12. þm. Reykv. sá ástæðu til að gera kröfu til þess að slíkir kostir yrðu fram settir, eða tilboð af Íslands hálfu, inn í þetta samhengi sem þarna lá fyrir, raunverulega kröfu Alusuisse um lækkun á raforkuverði til Íslendinga.

Það var ásetningur minn að sjálfsögðu að þessum fundi loknum að bera saman bækur við ríkisstj. og gera henni grein fyrir stöðu mála. Það var gert á ríkisstjórnarfundi í morgun. Það var einnig sjálfsagt mál í mínum augum að álviðræðunefnd fjallaði frekar um þessi atriði. En inn í þetta samhengi hefur nú hv. 12. þm. Reykv. komið með þeim hætti sem raun ber vitni og gjörbreytt vígstöðunni í þessu máli, íslenskum málstað í óhag.

Háttvirtir þingmenn. Þessi atburður er augljós og þýðing hans og alvara hans. En hann segir mönnum kannske hér í hv. Sþ. við hvað hefur verið að fást í þessu máli á tveggja ára tímabili, þar sem reynt hefur verið að ná fram lágmarksleiðréttingum og sanngirniskröfum okkar Íslendinga. Það hefur ekki verið sú samstaða, því miður, í sambandi við málafylgju í þessu afdrifaríka máli, sem nauðsynleg er. En við höfum reynt að stilla saman og ég hef talið það mitt hlutverk að reyna að skapa hér sem víðtækasta samstöðu í þessu afdrifaríka máli. Og það er ennþá nauðsyn að á það verði látið reyna. En það verður ekki hægt með þeim hætti sem ég hafði ráðgert, eftir það sem nú hefur gerst. Við höfum ekki lengur þau vopn sem við gátum haft, eftir að fulltrúi Framsfl. hefur hlaupið úr álviðræðunefnd og opinberað fyrir gagnaðilanum sín sjónarmið og þann ágreining, sem hann hefur uppi gagnvart mér og málafylgju í þessu máli, og fært þessi mál út á víðan völl deilna hér innbyrðis í landinu.

Hér eru stórir hagsmunir á ferð. Hagsmunir sem varða hvert einasta heimili í þessu landi. Þjóðin horfir upp á síaukinn mismun á milli raforkuverðs til orkufreks iðnaðar til álversins í Straumsvík alveg sérstaklega og til almenningsveitna. Þar er nú nær fimmfaldur munur á og sá mismunur mun vaxa til muna ef farið verður að áætlunum og óskum Landsvirkjunar um hækkanir á raforkuverði til almenningsveitna á næstunni. Hvert einasta heimili í landinu er að leggja til stórar fjárhæðir í meðgjöf til þess aðila sem stundar álbræðslu í Straumsvík. Það er þjóðarnauðsyn að snúa þessu dæmi við. Þess vegna þarf samstöðu í þessu máli, og þess vegna verður á þetta mál að reyna til leiðréttingar í ljósi þess sem gerst hefur, með tilliti til þess sem gerst hefur, og ég vona það sannarlega að Framsfl. beri gæfu til þess að taka þátt í að leiðrétta þá vígstöðu sem hann hefur nú riðlað og veikt svo mjög með frammistöðu síns fulltrúa í álviðræðunefnd.

Við höfum, svo sem alþjóð er kunnugt, verið að athuga alla þætti þessara mála og álviðræðunefnd hefur fengið öll málsgögn, sem þetta snerta, til skoðunar. Jafnframt hefur verið til athugunar hvaða ráð Íslendingum væru tiltæk ef Alusuisse verður ekki við okkar lágmarks sanngirniskröfum. Ég hef sagt það oft og ítrekað að þá hljótum við að grípa til eigin aðgerða. Og undir það hefur ríkisstj. tekið í samþykktum sínum. Ég hef unnið að þessu máli innan ramma þeirra samþykkta sem ríkisstj. hefur markað. Hún hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um einhliða aðgerðir í þessu máli, en hún hefur lýst þeirri stefnu sinni að ef ekki fáist sanngjörn leiðrétting á raforkuverði hljóti íslensk stjórnvöld að grípa til eigin ráða.

Ég mun í framhaldi af því sem nú liggur fyrir gera tillögur um það innan ríkisstj. í næstu viku að við Íslendingar grípum til þeirra ráða sem helst eru tiltæk, grípum til einhliða aðgerða í þessu máli til hækkunar á raforkuverði, ef ekki verði orðið við okkar lágmarkssanngirniskröfum, aðgerða til leiðréttingar á raforkuverði, og að sjálfsögðu einnig til þess að innheimta þau gjöld sem okkur ber með réttu vegna vantalins hagnaðar álversins í Straumsvík á undanförnum árum.

Það verður að sjálfsögðu verkefni ríkisstj. að fjalla um slíkar tillögur og hv. Alþingis þegar þar að kemur. En ég vil ekki ganga hér úr þessum ræðustóli án þess að það liggi fyrir að slíkar tillögur hljóta að koma fram. Við hljótum að skoða þær og spurningin um það, hvort þær bera árangur til þess að knýja fram lágmarksbreytingar án þess að við þurfum að láta á reyna til hins ýtrasta, veltur á því hvort samstaða verður innan ríkisstj. og hér á hv. Alþingi um þetta stóra mál.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.