09.12.1982
Sameinað þing: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

24. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Umr. þær, sem hér hafa farið fram utan dagskrár, sýna það og sanna að þörf var á flutningi till. þessarar til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse, sem raunar var hér fyrsta mál á dagskrá, er til umr. kæmi. Það hefur komið hér berlega fram að þáltill. á rétt á sér, en í henni er mörkuð stefna um hvernig við eigum að halda á samningum við Alusuisse og greint frá því að besta leiðin sé að kjósa 7 manna nefnd hlutfallskosningu á Alþingi til viðræðna við Alusuisse.

Það fer ekki hjá því að í þessum tillöguflutningi felst nokkurt vantraust á iðnrh. og greindi 1. flm. till., hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, frá því í framsöguræðu þegar till. var hér til umr. áður. Í grg. er komist svo að orði:

„Öllum Íslendingum ætti nú að vera ljóst að núv. iðnrh. hefur enga getu til að ráða fram úr þessu mikilvæga hagsmunamáli. Þess vegna er það brýnt, að Alþingi taki í taumana og veiti forustu í þeim viðræðum sem nú hafa farið út um þúfur við Alusuisse. Þess vegna er þessi þáltill. flutt.“

Hafi verið ástæða til þess að komast svona að orði í þingbyrjun, þegar viðræður við Alusuisse höfðu legið niðri frá því í maí, er ekki síður nú ástæða til að undirstrika þessi orð eftir að samningsviðræður voru teknar upp að nýju í lok nóv. og byrjun desembermánaðar án þess að nokkur árangur yrði af þeim viðræðum og með þeim eftirmála sem við höfum sérstaklega rætt hér í dag.

Þýðing þess atburðar, sem hér hefur verið ræddur, er ákaflega mikil. Það er óhætt að segja, að hvarvetna, í það minnsta annars staðar en á Íslandi, mundi atburður slíkur sem þessi hafa þýtt að til stjórnarskipta hefði dregið eða a.m.k. ráðherraskipta. Ríkisstj. og ráðh. bera pólitíska ábyrgð, eins og hæstv. iðnrh, komst að orði, og hann hlýtur að taka afleiðingunum af því þegar stuðningsmenn hans lýsa því yfir að þeir beri ekki lengur traust til hans og draga í efa hæfni hans til þess að halda á málum framvegis. Þetta kom berlega í ljós í máli hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar eins og það kom fram í málflutningi 1. flm. þeirrar till. sem nú er til umr., hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, og annarra formælenda Sjálfstfl. í þessum málum.

Ég hlýt að rifja það upp, að í maímánuði s.l. skrifaði þingflokkur Sjálfstfl., formenn flokks og þingflokks, iðnrh. bréf þar sem að því var fundið að fullt samráð væri ekki haft við Sjálfstfl. í þessu máli þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar hæstv. iðnrh. þar að lútandi. Ég hlýt að rifja það upp, að í samtali við hæstv. iðnrh. í byrjun júní s.l. varaði ég iðnrh. við þeirri stefnu, sem hann hefði í þessu máli, sem hlyti að stefna málinu í strand, ef framfylgt yrði. Þá var það ætlun hæstv. iðnrh. að hafa samráð við okkur í ágústmánuði. Það samráð var að vísu ekki haft fyrr en rétt áður en til viðræðufundar við fulltrúa Alusuisse kom í nóv. s.l. Látum það liggja á milli hluta, það hefur ekki efnisþýðingu úr því sem komið er, en í þeim viðræðum sem við áttum saman fyrir hönd Sjálfstfl., varaformaður flokksins Friðrik Sophusson og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson auk mín, lögðum við áherslu á að í viðræðum sem í hönd færu væri haft fullt samráð við þingflokkana og buðum fram að útnefna fulltrúa þingflokks Sjálfstfl. gegn því skilyrði að þessir fulltrúar þingflokkanna hefðu samráð sín á milli og við hæstv. iðnrh. og fylgdust beint með viðræðunum og tækju þátt í viðræðunum. Með þeim hætti væru skilyrði sköpuð til þess að skapa þjóðarsamstöðu og leggja grundvöll að því að við næðum fram hagsmunamálum okkar í samningaviðræðunum. En það er skemmst frá að segja, að hæstv. iðnrh. sinnti í engu þessum óskum og tillögum okkar fulltrúa Sjálfstfl. nú síðast í lok nóvembermánaðar og hélt málinu í sínum höndum með þeim afleiðingum sem hér eru fram komnar, þannig að hann hefur ekki eingöngu fyrirgert trausti okkar í stjórnarandstöðunni um frekari meðferð málsins, heldur og fulltrúa stærsta stjórnarflokksins, Framsfl.

Það er frá því skýrt í Morgunblaðinu í morgun, að Alþb. hafi sent bréf til Framsfl. og óskað svara frá Framsfl. þegar í stað, en þeim spurningum var beint til Framsfl. í þessu bréfi, hvort Framsfl. væri samþykkur tillögum hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og hvort Framsfl. væri reiðubúinn að skipa fulltrúa í viðræðunefnd í stað Guðmundar G. Þórarinssonar, sem hefði sagt af sér í þeirri nefnd. Það fylgir þessari sögu, að Framsfl. hafði svarað um hæl að hann væri samþykkur afstöðu Guðmundar G. Þórarinssonar og hann væri ekki reiðubúinn að skipa fulltrúa í viðræðunefndina í stað Guðmundar G. Þórarinssonar. Ég hygg að nauðsynlegt sé að þetta komi fram í þessum umr. og af þessu verði ekki dregnar aðrar ályktanir en þær, að um meðferð þessa máls ríki skoðanaágreiningur innan ríkisstj., og er raunar ekki að furða eftir þá meðferð sem hæstv. iðnrh. hefur staðið fyrir á þessu máli, þegar hann meira að segja gengur framhjá samráðherrum sínum, sem skipaðir eru í ráðherranefnd til að fjalla um þetta mál. En það kom fram í umr. hér utan dagskrár, þegar samningaviðræður við Alusuisse rofnuðu í maímánuði s.l., að samningsgrundvöllur hæstv. iðnrh. hafði ekki einu sinni verið kynntur hæstv. forsrh. eða hæstv. sjútvrh. áður en iðnrh. kynnti fulltrúum Alusuisse á hvaða grundvelli hann vildi halda á málinu, þ.e. hæstv. iðnrh. sýndi fulltrúum Alusuisse samningsgrundvöll sinn áður en hann sendi hann samráðherrum sínum. Þegar samstarfsaðilar hæstv. iðnrh. verða að búa við þvílíka framkomu hans er e.t.v. ekki að undra framkomu hans gagnvart stjórnarandstöðunni. En hæstv. iðnrh. heldur áfram slíkri framkomu gagnvart samstarfsaðilum, sem leitt hefur til afsagnar hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar úr viðræðunefndinni. Ég hygg því að ljóst sé að nú sé tími til kominn að Alþingi taki mál þetta í sínar hendur.

Hér hefur verið sagt, að eðli málsins samkv. eigi þetta mál að vera í höndum framkvæmdavaldsins, þess ráðh. sem hafi forræði málsins og þeirrar ríkisstj. sem beri pólitíska ábyrgð. Nú er það svo, að fram hefur komið að núv. ríkisstj. hefur ekki starfhæfan meiri hluta á Alþingi og ennfremur að henni er um megn að bera pólitíska ábyrgð. Það hefur og komið fram að hæstv. iðnrh. nýtur ekki stuðnings þm. er hingað til hafa veitt ríkisstj. stuðning og því er ekki um annað að ræða en Alþingi taki málið í sínar hendur.

Á það má og minna, að í samningaviðræðum við Alusuisse er rætt um efnisatriði sem hljóta að koma til kasta Alþingis. Þar er um löggjafaratriði að ræða, endurskoðun á samningum við Alusuisse um starfrækslu álbræðslunnar í Straumsvík. Um þá er löggjöf, sem Alþingi þess vegna þarf að fjalla um, og eðlilegt að Alþingi taki við málinu og marki þá stefnu er skynsamlegust er til þess að mál þetta sé ekki áfram í þeirri sjálfheldu sem raun ber vitni.

Herra forseti. Ég vænti þess því, að þáltill. þessi gangi nú til nefndar og hljóti þar hraða og góða afgreiðslu og að lokinni þeirri meðferð verði hún samþykkt, svo að sjálfhelda sú sem við Íslendingar erum í í þessu máli vegna meðferðar hæstv. iðnrh. verði ekki viðvarandi, heldur megi úr henni brjótast og ganga svo frá þessu máli að hagsmunum Íslands sé fullnægt.