09.12.1982
Sameinað þing: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

24. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Langt er nú umliðið síðan þessi þáltill., sem nú er á dagskrá, var til umr. hér í Sþ. Það voru ýmis atriði í málflutningi þeirra, sem ræddu hana á þeim tíma, sem ég hefði talið ástæðu til að víkja að, en sumt af því er mér úr minni liðið nú og ég hef ekki tekið með mér þau gögn sem ég hefði viljað hafa í höndum í sambandi við málið. En segja má að það sé kannske ekki þörf á því eftir þá löngu umr. sem hér hefur farið fram í dag utan dagskrár um málefni Alusuisse og samskiptamál íslenskra stjórnvalda við fyrirtækið. Ég ætla því ekki að orðlengja þetta efni mikið að þessu sinni. Ég vil aðeins ítreka að mín skoðun á málsmeðferð er óbreytt frá því sem ég lýsti við umr. um daginn um þessa þáltill. og að málefni þetta hlýtur að verða í höndum framkvæmdavaldsins sem ber á því stjórnarfarslega ábyrgð.

Ég vil benda á, að nokkurs ósamræmis gætir í þeim málflutningi sem fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv. fyrr í dag við umr., þar sem hann útilokaði ekki, ef ég hef skilið hann rétt, að samráð yrði með öðrum hætti um þetta mál. Hann var með eindregnar óskir um breytta hætti í því efni. Ég hlustaði á þær hugmyndir og óskir, en þær lutu að því að það yrði annar aðili, nefnd á vegum stjórnvalda, iðnrn., með tengslum við þingflokka, sem tæki á þessu máli. Ég dreg þær ályktanir af þeim mátflutningi að hv. þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu sé þessi till.-flutningur, sem þeir hófu hér á þingi í haustbyrjun, ekki fastur í hendi. Það verður hins vegar að koma í ljós við frekari athugun þessa máls og mat á þeirri stöðu sem nú liggur fyrir.

Það kom fram í máli hv. 1. þm. Reykv. hér áðan í sambandi við málsmeðferð í viðræðum við Alusuisse fyrr á þessu ári að hann var að gera því skóna að ég hafi ekki starfað í samráði við aðila að ríkisstjórn í sambandi við till.-gerð og minntist þar sérstaklega á fund í maímánuði, ef ég hef tekið rétt eftir. Ég vil af þessu tilefni upplýsa, að þær tillögur til málamiðlunar sem þar voru fram bornar voru í einu og öllu innan ramma þeirrar samþykktar sem ríkisstj. hafði gert 26. febr. á þessu ári. Þar var lagður grundvöllur af hálfu ríkisstj. að málsmeðferð eftir að Alusuisse hafði einhliða slitið viðræðum við álviðræðunefnd og aflýst boðuðum fundi þann 3. mars. Á grundvelli þeirrar samþykktar, svo og samþykktar ríkisstj. 9. des. 1980 og 16. júlí 1981, hefur verið að þessu máli unnið af hálfu iðnrn.

Ég minntist á það fyrr í umr. um þessa þáltill., að það hefðu ekki komið fram ábendingar af hálfu hv. 1. flm., sem mælti fyrir þessu máli, um till.-gerð af hálfu Sjálfstfl. á árunum 1980 og 1981 varðandi raforkuverðshækkun til álversins í Straumsvík. Ég bað hv. þm. um að nefna mér dæmi um hvernig á því máli hefði verið haldið af þeirra hálfu og koma þá fram með upplýsingar, ef hann hefði einhverjar, um að slík málafylgja hefði verið höfð uppi á árinu 1980 og fram eftir ári 1981. Þar sem hv. 1. flm. till. er hér ekki ætlast ég auðvitað ekki til þess að það sé verið að draga umr. af þessum sökum, en það mætti þá taka það upp aftur, þegar mál þetta kemur frá nefnd til 2. umr., sem ég hygg að sé meiningin að yrði um þessa till. ef nefnd afgreiðir hana aftur til þingsins.

Ég læt þetta nægja, herra forseti, um málið að þessu sinni.