13.12.1982
Efri deild: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

105. mál, jarðræktarlög

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. hafa orðið vitni að hefur það frv. sem við hv. þm. Salome Þorkelsdóttir höfum flutt um breytingu á jarðræktarlögunum æðimikið blandast inn í þær umr. sem hafa átt sér stað um Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Frv. felur það í sér, að bráðabirgðaákvæðið sem sett var inn í jarðræktarlögin árið 1979 og á að vara í 5 ár falli brott og að jarðræktarlögin komi í þá mynd sem þau voru í eftir að þeim var breytt árið 1972.

Meginrökstuðningur fyrir þessari breytingu er sá, að verðtryggingarféð, sem lögin áttu að gefa, er ekki lengur til staðar. Þessi upphæð var árið 1980 4.68 millj. og má segja að það sé eina árið sem þetta fjármagn hafi verið nokkurn veginn það sem lögin gerðu ráð fyrir, en samkv. ákvæðum laganna hefði það átt að nema 4.81 millj. kr. Árið 1981 hefði það átt að nema 8.32 millj. kr., en þá skilaði það aðeins 4.84 millj. Árið 1982 átti það að nema 8.70 millj. kr., en skilaði aðeins 2.44. Á næsta ári ætti þetta fjármagn að nema 13.68 millj. kr., en samkv. fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, er ekki ætluð til þessara verkefna ein einasta króna og reyndar minna en það. Þannig er það, að það fjármagn, sem kemur hugsanlega inn í gegnum jarðræktarlögin, mundi þó raunar ekki verða neitt núna vegna þess að það eru ekki heldur til staðar peningar til að fjármagna sparnaðarféð. Lögin hafa þannig gengið sér til húðar. Og með tilliti til þeirra breytinga sem gert er ráð fyrir á lögunum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins er að sjálfsögðu ekki ástæða til að viðhalda bráðabirgðaákvæði jarðræktarlaganna.

Þetta frv. felur m.o.ö. það í sér, að jarðræktarlögin komist í þá mynd sem þau voru í eftir breytinguna 1972 og með hliðsjón af því að þeim verkefnum, sem breytingin frá 1979 gerði ráð fyrir, er komið fyrir á öðrum stað.