13.12.1982
Neðri deild: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

28. mál, málefni aldraðra

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning strax, þá er ég ekki flm. þessa frv. Ég er frsm. heilbr.- og trn. Frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. sem hv. þm. styður. Það er hæstv. heilbrmrh. sem hefur flutt þetta mál tvívegis hér í þinginu og í samræmi við það hefur það verið rætt ítarlega í tvígang, við 1. umr. í bæði skiptin. Hv. 5. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson spyr mig hver það sé sem hafi valdið til að ákveða og úthluta. Nú gætir hér mikils misskilnings hjá hv. þm. Hann er það þingvanur að hann veit að fjöldinn allur af sjóðum hefur annaðhvort ákveðinn markaðan tekjustofn eða þá fjárveitingu sem stjórn viðkomandi sjóðs fer með og deilir út, oftast nær þó háð samþykki ráðh. Ég bendi á sjóð eins og Erfðafjársjóð o.fl. Og að ekki sé hægt að ákveða slíkt af Alþingi án þess að fjvn. þurfi um að fjalla, ég fæ nú ekki séð að það þurfi að vera. Ég geri þá ráð fyrir að hv. þm. verði fljótur til, ef hann virkilega teldi það, að kalla eftir því að það vald sem t.d. Framkvæmdastofnun ríkisins hefur í meðferð fjármuna yrði kallað til fjvn. en ekki haft í höndum stjórnar sem þar er kjörin til þeirra verka.

Ég vil líka taka það fram að meginfjármagnið, sem kemur inn í Framkvæmdasjóð aldraðra, fæst vegna nefskatts sem er lagður á tímabundið en er ekki ætlað að vera fastur framtíðarskattur. Þetta er skattur sem er lagður á nú til fimm ára samkv. gildandi lögum, því er við haldið í þessu frv. að hafa það til fimm ára og í 13. gr. segir skýrum stöfum að ramminn, sem gera eigi utan um það fjármagn sem ætlað er að komi inn á þessu tímabili, skuli gerður í samráði við fjvn. og stjórn sjóðsins.

Hins vegar segir í 11. gr. að stjórnin sem fer með þessi málefni, eins og segir í 3. gr. laganna og er nánar útfært í 4. gr. hvað hún eigi að gera, geri tillögur til ráðh. Að sjálfsögðu getur ráðh. samþykkt eða hafnað þeim tillögum ef honum sýnist það ekki horfa í rétta átt sem stjórnin leggur til.

En ég bendi á að það er ætlan þeirra sem samþykktu frv., samkv. 4. gr. þess, að þessi samstarfsnefnd eigi að hafa frumkvæðið að stefnumótun um málefni aldraðra. Hvernig ætti að fara að flytja það yfir til fjvn., sem skiptir kannske um menn árlega, og taka úr höndum sérfróðra manna sem koma annars vegar frá félmrn. samkv. tillögu Sambands ísl. sveitarfélaga og hins vegar frá heilbrmrn. sjálfu og í þriðja lagi frá einhverjum þeirra aðila að Öldrunarráði Íslands sem það skipar? Þar eru í raun saman komnir allir aðilar í þjóðfélaginu sem nú fást við þessi mál. Ég get ekki séð hvernig ætti að flytja þá stefnumótun frá þessum þremur sérfróðu mönnum sem ég vil kalla þó að ekki sé búið að skipa þá ennþá,til fjvn.? Ég mundi telja það illa farið ef það væri gert.

Þessi nefnd á líka samkv. 2. tölul. að annast áætlanagerð um málefni aldraðra fyrir landið í heild. Og þar er auðvitað komið að því sem hv. þm. hefur verið að finna að, ekki aðeins núna heldur áður, og vel er hægt að taka undir, að auðvitað verður að gæta þess að það þarf að vinna að þessum málum um allt landið, m.a. til þess að raska ekki þeirri búsetu sem er í landinu nú. En eins og ég sagði fyrr í sambandi við þetta mál í umr. hér á þingi, þá var það ætlan þeirra sem að því stóðu að koma á þessum nefskatti, að hann yrði nýttur í fyrstu lotu til að létta af því neyðarástandi sem ríkti hér á höfuðborgarsvæðinu og reyndar á Eyjafjarðarsvæðinu líka. Það hefur verið gert og má vera að strax síðari hluta næsta árs verði hægt að snúa sér frekar að framkvæmd þessara laga fyrir aðra aðila.

Ennfremur á þessi nefnd að vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka og hún á að vera ráðh. og ríkisstj. til ráðuneytis um málefni aldraðra. Hún á að skera úr um ágreiningsmál, sem upp kunna að koma um málefni aldraðra samkv. lögum þessum og hún á að gera tillögur til ráðh. um samræmdar reglur um mat. Til að vinna að þessu verkefni þarf auðvitað að leita til fleiri aðila, sem hafa sérþekkingu til þess, en þarna er verið að fá til starfa aðila, sem við leggjum til að verði þrír, sem hafi yfirumsjón þessara mála í sínum höndum.

En til þess að ég svari spurningu hv. þm. aftur þá er enginn vafi á því að endanlegt vald í sambandi við úthlutun fjármuna verður í höndum ráðh., eins og við höfum fjölmörg dæmi um í sambandi við ein og önnur lög sem við höfum samþykkt hér á hv. Alþingi.