13.12.1982
Neðri deild: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

116. mál, grunnskóli

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar þegar sagt er að enginn maður af mínu kynferði nenni að hafa afskipti af skólamálum. Ég er ekki öldungis sannfærður um að þetta sé rétt, en hitt er náttúrlega jafnrétt, að þeir sem næst skólamálum standa hafa gegnum sögu þingsins venjulega hafi mest afskipti af þeim málaflokki.

Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt um nauðsyn þess að færa fræðslu um neyslu áfengis og annarra ávana- og fíkniefna inn í skólakerfið með þeim hætti að sú fræðsla sé færð í fastari skorður en verið hefur og henni gefinn meiri gaumur. Hitt er líka jafnrétt, að þessi fræðsla á ekki eingöngu að eiga sér stað í grunnskólunum, heldur er nauðsynlegt að hún gangi í gegnum framhaldsskólann. Ég held að þörfin á henni sé jafnvel enn meiri þar, vegna þess að viðhorf breytast mjög mikið þegar unglingarnir fara úr einum skóla í annan og það er viðkvæmasta aldursskeið við skólaskiptin.

En ég vil taka undir það, að þessu máli sé gefinn góður gaumur og vænti þess að í menntamálanefnd gefist tækifæri til að fara ofan í málið og það megi koma það snemma úr nefnd að Alþingi geti tekið afstöðu til þess á þessu þingi.