13.12.1982
Neðri deild: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

116. mál, grunnskóli

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég kem hér mest til að þakka þeim fáu sem hafa sýnt góðan skilning og áhuga á þessu máli, sem er brýnt, það er enginn vafi. Hvað sem þessu ákvæði um fræðslu varðandi fíkniefni í grunnskólalögunum líður er hér meira stórmál á ferð en við gerum okkur yfirleitt grein fyrir.

Ég tel rétt, af því ég vitnaði nokkuð oft í skýrslu þeirra félaga frá menntmrn. og kynnisferð þeirra til Bretlands, að ég lesi, með leyfi forseta, þeirra lokaorð og fáeinar tillögur er lúta að málinu. Þeir segja:

„Ofneysla ávana- og fíkniefna er flókinn vandi. Viðbrögð við þeim vanda hljóta því að vera margvísleg og snerta ólík svið þjóðlífsins. Fræðsla, hvort sem hún fer fram innan skóla eða utan, nær skammt ein sér. Heilbrigðisþjónusta, löggæsla, tómstunda- og æskulýðsstarf, skipulag íbúðarhverfa og skólastærð eru aðeins nokkrir af fjölmörgum þáttum sem huga þarf að.

Sem dæmi um atriði sem í fljótu bragði virðist ekki koma þessu máli við sérstaklega, en gerir það þegar betur er að gáð, má nefna niðurstöðu úr könnun, sem gerð var í Bandaríkjunum og gerð er grein fyrir í riti Helen Nowlis, Drugs Demystified.“

Þessu ættum við að leggja nokkuð eyrun við, því það snertir okkur beint. Helen Nowlis segir: „Fylgni milli skólastærðar og fíkniefnaneyslu var eitt af því sem skýrast kom fram. Því stærri skóli, þeim mun meiri fíkniefnaneysla og skipti þá engu hvort skólinn var í stórri borg eða lítilli.“ Þetta er vissulega hugleiðingarefni fyrir okkur, sem byggjum stórar hallir yfir þúsundir nemenda, sem ætti ekki að tíðkast í skólakerfinu. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Það er því ljóst, að eigi árangur að nást þurfa fjölmargir aðilar að vinna saman og efla þarf vitund allra sem hlut eiga að máli um að þessi vandi verður ekki leystur með einföldum aðgerðum. Af þessum sökum leyfum við okkur að leggja áherslu á að unnið verði að heildstæðri stefnumörkun að frumkvæði opinberra aðila. Nú þegar er margt gert í þessum málum af ýmsum aðilum og til þessa starfs er að líkindum varið ærnu fé og mikilli vinnu. Æskilegt væri að samræma og samhæfa þessar aðgerðir þannig að fjármunir og mannafli nýtist sem best.

Að því er varðar skólastarf sérstaklega leggjum við til eftirfarandi:

1. Bæklingurinn Drugs Demystified (sem áður var nefndur) eftir Helen Nowlis, verði þýddur og gefinn út. Hann mundi koma að miklum notum í menntun og endurmenntun kennara, auk þess sem hann er upplýsandi fyrir alla þá sem að þessum málum vinna og á enda erindi til alls almennings.

2. Lögð verði áhersla á að þætta fræðslu um ávana- og fíkniefni inn í sem flesta þætti skólastarfs, bæði á grunnskóla- og ekki síður á framhaldsskólastigi. Lögð verði áhersla á að fræðslan verði sniðin að þeim hópum sem henni er beint að hverju sinni.

3. Gert verði átak í menntun og endurmenntun kennara á þessu sviði.

4. Unnið verði að því í samvinnu við Námsgagnastofnun að koma á fót hugmynda- og gagnasafni um fíkniefnafræðslu.

5. Ráðinn verði tímabundið að skólarannsóknadeild menntmrn. starfsmaður til að sinna þessum málum innan skólakerfisins. Hér er átt við ráðningu í fullt starf.“

Svo mörg voru þau orð. Eins og ég sagði áðan höfum við veganesti og efnivið til að moða úr. Við höfum góða menn, sem eru reiðubúnir að fylgja þessu máli eftir. Það er Alþingis nú að láta ekki sitt eftir liggja og koma þessu atriði inn í lög sem skólarnir okkar starfa eftir.