13.12.1982
Neðri deild: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

111. mál, Tónskáldasjóður Íslands

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég þakka hv. 7. landsk. þm. fyrir það frumkvæði sem hann hefur sýnt með flutningi þessa máls. Frumkvæðið er hans, og þetta er í annað skipti sem þetta frv. er lagt fram fyrir þessa virðulegu deild.

Ég vil mjög taka undir það í máli hv. þm., sem raunar einnig kom fram á liðnu þingi, hinu 104., að það er gífurlegur gróandi í tónlistarlífi hér á landi. Ein af allra merkilegustu menningarlegu staðreyndum samtímans er kannske hið þéttriðna net tónlistarskóla sem risið hefur vítt og breitt um landið. Mér er kunnugt um að erlent fólk, sem hingað kemur, horfir mjög til þessarar staðreyndar, að hún sé hluti af hversdagslegum veruleika fyrir okkur sem hér búum. Það er nú einu sinni svo með menningarsöguna, að það tekur kannske eina eða tvær kynslóðir að átta sig á því hvað þar hefur risið hátt og svo hinu sem lægra hefur farið.

Mín spá er sú, að þegar fram líða stundir þyki virknin og hin almenna þátttaka hér í tónlistarlífi, sem kannske ekki síst má rekja til tónlistarskólanna, vera með merkilegri staðreyndum.

Ég endurtek þakklæti mitt fyrir það frumkvæði sem hv. 7. landsk. þm. hefur sýnt með flutningi þessa máls. En erindi mitt hingað í ræðustól, herra forseti, er þó annað. Þó að ég sé einn af flm. þessa frv. hefur athygli mín verið vakin á einu atriði í 5. gr. frv. Þar eru taldir upp þeir sem skipa skuli stjórn þessa fyrirtækis.

Auðvitað gera sér allir ljóst að svona stjórnir fela ævinlega í sér skömmtun og það verða auðvitað vissir erfiðleikar sem því eru samfara. Það fylgir allri slíkri starfsemi og út af fyrir sig ekkert við því að segja. En það hefði kannske að ósekju mátt bæta við einum aðila. Það eru samtök sem skammstöfuð er SATT, sem útleggst Samtök alþýðutónskálda.

Einnig á þessu sviði tónlistar hefur verið gífurlegur vaxtarbroddur að undanförnu. Vitaskuld eru gæðin misjöfn, en smekkur manna er líka misjafn og við því er ekkert að segja. Það gildir þar, geri ég ráð fyrir, eins og á öllum öðrum sviðum fónlistar. En skynsamlegt væri að hið háa Alþingi liti ekki fram hjá því að á þessu sviði tónlistar er gífurlegur vaxtarbroddur. Ég mundi í hv. menntmn., sem væntanlega fær þetta mál til umsagnar eins og hv.1. flm. hefur lagt til, gera það að tillögu minni, og vona að það verði í góðri sátt allra aðila, að þessum samtökum verði bætt við í 5. gr. frv. sem vonandi verður að lögum á þessu þingi.

Að öðru leyti vil ég enn ítreka það að hér er verið að sýna að minni hyggju merkilegt frumkvæði. Við getum deilt endalaust um það hvert tekjuinnstreymið inn í slíkan sjóð eigi að vera, við þekkjum það að það er vandi þessarar stofnunar oft og iðulega, en undir allan hinn almenna málflutning hv. 1. flm. vil ég mjög taka.