14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

Um þingsköp

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fjölyrða um afgreiðslu lánsfjáráætlunar þar sem það mál var rætt utan dagskrár nú fyrir nokkrum dögum. Ég veitti þá þær upplýsingar að lánsfjáráætlun yrði ekki afgreidd fyrir jól og sennilegast ekki lögð fram fyrir jól. Ég hygg að óhætt sá að staðfesta það nú að lánsfjáráætlun verður ekki lögð fram fyrir jól.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að í lögum er sett sú verklagsregla að lánsfjáráætlun skuli fylgja fjárlagafrv. Það er líka alkunna að lánsfjáráætlun hefur mjög oft — og raunar oftast nær verið afgreidd á allt öðrum og miklu seinni tíma en fjárlagafrv. Það er höfuðnauðsyn að fjárlög liggi fyrir um áramót. Aftur á móti er ekki sama nauðsyn að lánsfjáráætlun liggi fyrir um áramót. Hefur því oft dregist nokkuð að frá henni væri gengið. Menn hafa viljað gefa sér tíma til að athuga allar aðstæður áður en ákvarðanir væru teknar um erlendar lántökur.

Nú er óvenjulegt og sérstakt ástand bæði í íslensku stjórnmálalífi og íslensku efnahagslífi. Það er í fyrsta lagi allt í óvissu um framgang mikilvægra mála, sem þurfa að fara í gegnum Nd. Alþingis, og hafa verið viðræður í gangi milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu um þau mál. Ég lít ekki svo á að þeim viðræðum sé lokið. Einnig er mjög sérstakt ástand í efnahagslífi Íslendinga og brýn þörf á að draga úr erlendum lántökum eins og nokkur kostur er.

Það kemur engum á óvart, ekki nokkrum einasta þm. á óvart að lánsfjáráætlun skuli ekki afgreidd fyrir jól. Og það breytir að sjálfsögðu engu um þá afgreiðslu fjárlaga sem nú á að fara fram. Ég tel það satt að segja nokkuð sérkennilega og óvenjulega málefnafátækt að menn skuli gera svo mikið veður út af þessu, að þeir taki til máls hér utan dagskrár aftur og aftur.

Varðandi ummæli hv. þm. um að milljarð skorti á að fjárlög verði afgreidd með eðlilegum hætti, þá gefst tækifæri til að ræða þá fullyrðingu í umræðunum hér á eftir. En ef það er tillaga Sjálfstfl. að hækka fjárlögin og útgjöld þeirra um einn milljarð, þá býst ég við að einhver landsmanna þakki sínum sæla fyrir að Sjálfstfl. skuli ekki hafa forustu um ríkisfjármál um þessar mundir.