14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

1. mál, fjárlög 1983

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hygg að umræður við 2. umr. fjárlaga hafi oft staðið lengur en nú virðast horfur á, því ekki hafa fleiri kvatt sér hljóðs. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fjvn. fyrir ágæt störf hennar að undirbúningi 2. umr. fjárlaga.

Vissulega hefði verið ástæða til að fara nokkrum orðum um ýmislegt það sem fram hefur komið í máli stjórnarandstæðinga. Sérstaklega hefur komið til greina að fjalla nokkuð um þessi nýju fjárlög sem hv. þm. Lárus Jónsson hefur borið fram á sérstöku þingskjali og fela í sér að ríkisreikningur fyrir árið 1981 er framreiknaður. Af máli hv. þm. Lárusar Jónssonar má helst skilja, að ef menn einu sinni hafa fengið eina ákveðna fjárveitingu í fjárlögum til ákveðinnar starfsemi eigi að vera svo um aldur og ævi og ekki geti komið til greina að draga þar neitt úr, jafnvel þótt aðstæður breytist. A.m.k. bera þessar framreikningsaðferðir hans vott um að hann virðist ekki vera mjög hlynntur svokallaðri núllgrunnsaðferð, sem sumir flokksmenn hans eru hvað hrifnastir af. (FrS: Þetta er allt á grundvelli stefnu ríkisstjórnarinnar.) En hér er um að ræða, eins og hv. þm. veit, að verið er að framreikna ríkisreikning fyrir árið 1981, og verður þá ekki annað séð en hann geri ráð fyrir að nákvæmlega þau útgjöld sem urðu á því ári hljóti að verða á árinu 1983. (FrS: Það segir í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar sjálfrar.) Ekki segir það nú í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar sjálfrar. (FrS: Hæstv. ráðh. hefur ekki lesið þjóðhagsáætlunina.) Ekki segir það nú í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar, að útgjöld sem urðu á árinu 1981 hljóti sjálfkrafa að koma fram á árinu 1983. Ekki hef ég orðið var við það, en fróðlegt væri ef hv. þm., sem er svo mjög mál að koma að sínum sjónarmiðum, gæti bent mér á hvar þetta stendur. (FrS: Það get ég gert.)

Með hliðsjón að því, að 3. umr. er eftir og fáir þingmenn eftir hér í þingsölum sé ég ekki ástæðu til að lengja þessar umr. Ég áskil mér hins vegar rétt til að koma ýmsum sjónarmiðum á framfæri, sem ástæða væri til að fjalla sérstaklega um við 3. umr. Þó vil ég kannske nefna sérstaklega hér eitt atriði. Það hefur verið nokkuð spurt um vaxta- og geymslugjald af landbúnaðarvörum og hvernig greiðslu þess yrði háttað á næsta ári. Ég hygg að þm. hafi tekið eftir því, að ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að mikið fjármagn verði veitt til aukningar á niðurgreiðslum og ekki er gert ráð fyrir kostaði vegna vaxta- og geymslukostnaðar. Hins vegar er þó dálítið fé til aukningar á niðurgreiðslum, en það er verulega takmarkað.

Vegna fyrirspurnar um hvernig þessu verður hagað skal það tekið fram að það er gert ráð fyrir að þessu verði hagað óbreytt fyrst um sinn, en viðræður fari fram við forustumenn stéttarsamtaka bænda og við Framleiðsluráð um hvernig þessum málum verði best fyrir komið á næsta ári. Þessu vildi ég koma hér á framfæri vegna þess að ég var beðinn um að upplýsa um hvort veruleg breyting yrði í þessum efnum um næstkomandi áramót. Það verður ekki því að fyrirkomulag þessara mála verður óbreytt fyrst um sinn.

Herra forseti. Ég hef ekki sérstaka ástæðu til að bæta neinu við þessa umræðu að sinni — ekki nema sérstakt tilefni gefist til — og læt því þessi orð nægja.