14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

1. mál, fjárlög 1983

Frsm. 1. minni hl. (Lárus lónsson):

Herra forseti. Ég átti ekki von á að hæstv. ráðh. færi að vefengja það sem stæði í þjóðhagsáætlun ríkisstj. um forsendur þessara fjárlaga, en þar er tafla á bls. 32 sem ég vil gjarnan benda hæstv. ráðh. á. Þar er gert ráð fyrir að samneysla, þ.e. ýmis útgjöld ríkissjóðs, aukist að magni til á þessu ári um 2%. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. viti hvað í þessu hugtaki felst. Það eru ýmsir útgjaldaliðir ríkissjóðs. Mér hefur skilist að það hafi stundum verið stefnumið hans flokks að gera veg þessa útgjaldaliðs sem mestan vegna þess að í þessum lið felst ýmislegt sem ríkissjóður gerir fyrir sína þegna, ýmis félagsleg þjónusta o. s. frv.

Í sömu þjóðhagsáætlun er á sömu blaðsíðu gert ráð fyrir að á árinu 1983 verði magn samneyslu hið sama og í ár. Þetta þýðir á mæltu máli að samneysla hafi aukist að raungildi frá 1981. Það sem gert er í þeim útreikningum, sem við sem skipum minni hlutann höfum gert, er einfaldlega að taka þessar forsendur hæstv. ríkisstj. og framreikna samneyslu í samræmi við þær. Raunar gerum við það ekki alveg því við aukum ekki magn samneyslunnar, eins og gert er ráð fyrir að verði í ár, heldur tökum einfaldlega tölurnar eins og þær eru í ríkisreikningi 1981, þar sem samneyslan er sýnd, og framreiknum þær til frv. sem fyrir liggur. Þá vantar tæpar 600 millj. kr. á að útgjöld til samneyslu séu í samræmi við meginforsendur hæstv. ríkisstj. Það er þetta sem við eigum við, hæstv. forseti.