14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

1. mál, fjárlög 1983

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil gera örfáar athugasemdir við málflutning hv. þm. Lárusar Jónssonar. Hann og aðrir stjórnarandstæðingar hafa við afgreiðslu fjárlaga undanfarin þrjú ár í hvert einasta sinn haldið því fram að fjárlögin væru óraunhæf, það væri svo og svo mikið af götum í fjárlögunum, það væri svo og svo mikið af fjárvöntun sem ekki væri séð fyrir að fylla þyrfti. En hver hefur reynslan orðið? Ríkisreikningur fyrir árið 1980 segir hver hafði rétt fyrir sér þegar fjárlög þess árs voru afgreidd. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 1980 var um 3.4% rekstrarafgangur af ríkissjóði það ár. Þær miklu sögusagnir sem gengu um að göt væru á þeim fjárlögum sem afgreidd voru vorið 1980 voru rangar. Sama sagan gerðist 1981. Þá var talað um það hér, þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram, feiknalega mikið í útvarpi og sjónvarpi og hér á Alþingi, að fjárlögin væru einskisvert plagg og ekkert að marka þau og ótal göt, að fjárlögin væru gatasigti o.s.frv. Hver var svo reynslan? Jú, reynslan er sú, að samkvæmt ríkisreikningi var 3% afgangur á fjárlögum ársins 1981. Og í þriðja sinn er sagan að endurtaka sig á þessu ári, því að það var ekki svo lítið talað um þetta sama þegar fjárlög ársins 1982 voru afgreidd.

Staðreyndin er sú, að þegar ellefu mánuðir ársins eru liðnir eru fjárlög enn í jafnvægi — þessu formlega jafnvægi sem hv. þingmaður Lárus Jónsson nefndi hér áðan, og var þá erfitt að útskýra hver munurinn væri á þessu formlega jafnvægi fjárlaganna og svo aftur fjármálalegu jafnvægi, sem auðvitað var þarna um að ræða. Ég get upplýst það hér og nú, að samkvæmt seinustu upplýsingum er þó heldur afgangur eftir fyrstu ellefu mánuði ársins, þó að skeiki ekki miklu. Það er því allt útlit fyrir að fjárhagsafkoma ársins geti orðið nokkurn veginn í jafnvægi þó að auðvitað verði ekkert um það fullyrt meðan einn mánuður er eftir af árinu.

Þannig hefur þetta gengið þrjú ár í röð. Alltaf hefur verið þessi söngur og suð hjá stjórnarandstæðingum um að fjárlögin væru óraunhæf og ekkert að marka þau og það vantaði svo og svo háar fjárhæðir inn í þau, en þegar til hefur átt að taka hefur það reynst rangt og fjárlögin hafa verið í jafnvægi, m.a.s. verið lítilsháttar afgangur hverju sinni. Ég held því að þessu tali hv. þm. Lárusar Jónssonar verði helst svarað með því að vísa á reynslu liðinna ára og bæta við þeirri eindregnu sannfæringu minni að þessi fjárlög þurfi ekki að vera neitt verr úr garði gerð en verið hefur á undanförnum árum.