14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

1. mál, fjárlög 1983

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður.

Ég held að það hljóti allir að vera sammála um að verðbólga á yfirstandandi ári er talin verða 62% mæld í framfærslukostnaði. Ég held að við getum öll verið sammála um það jafnframt, að sé reiknitala sett 42%, eins og er gert í þessu frv., þýðir það að ætlunin sé að verðbólgan verði á milli 20 og 25% á næsta ári. Við höfum hingað til verið að vekja athygli á að þetta er þrefalt lægri tala en nýjustu verðbólguspár segja til um. Hæstv. ráðh. hefði þess vegna getað sett hvaða tölu sem var inn í frv. aðra en 42%, t.d. 10%, sem hefði gefið bestan árangur, 20%, 30% eða 50%. Það sem hann hefur verið að segja í þessum umræðum er ekkert annað en að reiknitalan skipti engu máli, aðalatriðið sé að hún sé vel fyrir neðan verðbólgustigið. Þetta er afar skiljanlegt.

Síðan segir hann: Það hefur aldrei verið ætlunin að með þessari reiknitölu væri um að ræða verðbólguspá. Í aths. við það fjárlagafrumvarp sem átti að gilda 1980 –það var flutt af ríkisstjórn sem hæstv. ráðh. átti aðild að, — sagði svo, með leyfi forseta: „Í samræmi við þetta er frv. miðað við það að verðhækkun frá upphafi til loka árs 1980 verði 3% og meðalhækkun verðlags 1979–1980 verði 45–46%.“

Það er bókstaflega tekið fram að miðað sé við þessar verðhækkanir. (Fjmrh.: Reiknitalan.) Reiknitalan sé miðuð við alveg ákveðnar verðhækkanir, sem þá voru byggðar á verðbólguspá.

Árið 1980 kom fram fjárlagafrumvarp fyrir 1981 og þá sagði um sama efni, með leyfi forseta: „Verðlagshækkanir frá miðju árinu 1980 til miðs árs 1981 verði um 42%, sem er nokkru minni verðbólga en verið hefur um skeið“.

Enn á ný er reiknitalan miðuð við að spáð sé ferli verðbólgunnar.

Þá komum við að fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi ár. Þar segir svo, með leyfi forseta: „Reiknitala fjárlagafrumvarpsins varðandi“ — og nú kemur nýtt orð „hugsanlega hækkun verðlags og launa er miðuð við 33% milli áranna 1981 og 1982“.

Ég vek athygli á því, að nú er komið orðið „hugsanlega“, sem vissulega er afsláttarorð. Hæstv. ráðh. dregur í land við undirbúning fjárlaga fyrir yfirstandandi ár.

Svo vitna ég til athugasemda þess frv. sem hér er til umr., með leyfi forseta, en það segir. „Reiknitala fjárlagafrumvarps er miðuð við 42% hækkun verðlags milli áranna 1982 og 1983. Rétt er að minna á, að reiknitala fjárlaganna hefur aldrei verið verðbólguspá fyrir komandi ár“.

Þetta er í fyrsta skipti um margra ára skeið sem þetta er tekið sérstaklega fram, einfaldlega vegna þess að reiknitölur undanfarinna ára hafa verið rangar, verðbólgan hefur verið miklu meiri. Það er einmitt þetta sem hefur gert það að verkum að mikil tilfærsla hefur verið á milli útgjaldaliða ríkisins. Og þetta er auðvitað gert viljandi. Þetta er ákveðin aðhaldsaðgerð sem er gerð til þess að villa mönnum sýn. Þetta er meginkjarninn í okkar gagnrýni og hún stendur.

Það getur vel verið að hæstv. ráðh. telji það vera málefnafátækt að segja að sjálfur grundvöllurinn undir fjárlögunum sé rangur. Ég veit ekki hvað er málefnafátækt ef það er málefnafátækt.