15.12.1982
Sameinað þing: 30. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

1. mál, fjárlög 1983

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér er lagt til að framlagið úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs ríkisins nemi tveimur launaskattsstigum, eins og skylt er að gera samkv. lögum um launaskatt, en með lögum skal land byggja. Í orði kveðnu hafa allir stjórnmálaflokkar lýst því yfir, að þeir telji lán til íbúðabygginga og kaupa á eldri íbúðum með öllu óviðunandi og segjast vilja hækka þau. Forsendan fyrir því að hægt sé að gera það nógu myndarlega er sú, að framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðsins hækki eins og hér er lagt til. Þessi atkvgr. sker því úr um það, hvort vilji manna standi til þess að hækka lán til húsbyggjenda á næsta ári eða ekki. Eftir því mun verða tekið hvaða alþm. hafa kjark til að segja já og eru reiðubúnir til þess að takast á við fjárhagsvanda ríkissjóðs á þeim grundvelli.

Það kom fram í ummælum hæstv. félmrh. að hann er allra síst reiðubúinn til þess að gera það og kemur það engum á óvart. Ég segi já.