16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

272. mál, endurskoðun á reglugerð um ökukennslu

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli og ég hlýt að taka undir þau orð hv. 4. þm. Reykv. að undarlega seint hefur gengið að þessi starfshópur ljúki störfum og skili áliti.

Ég minnist þess, að þegar ég hér fyrir 5–6 árum flutti, að ég hygg fyrst manna, frv. til l. um lögleiðingu bílbelta á Íslandi, þá fól það frv. í sér ekki aðeins, og það var vegna náinnar samvinnu við umferðarráð og Ökukennarafélagið, lögleiðingu bílbelta, heldur einnig ákvæði sem snertu almenna umferð, þar á meðal að það er ekki nóg að ökukennslan sé í lagi, þó hún sé ákaflega mikilsverð, heldur er hitt ekki síður mikilvægt, og á það var ekkert minnst í sambandi við þennan starfshóp, að þeir sem þekkja best inn á umferðarmál telja brýna nauðsyn á að betur sé fylgst með ökumönnum eftir á, eftir að prófi lýkur. Þeir mæltu mjög eindregið með svokölluðu punktakerfi, sem fólst í því að það væri einfaldlega haldið saman óhöppum og árekstrum í umferðinni og þegar viss ökumaður hefði náð ákveðnum punktafjölda væri hann kallaður fyrir og hann skyldaður til að fara í endurhæfingu. Ég hefði talið að þetta væri mjög þarft og nauðsynlegt, enda þótt það sé vitað mál að einna flest umferðaróhöppin verða hjá ungum ökumönnum sem hafa nýlokið ökuprófi.

Ég vísa því til hæstv. ráðh. hvort ekki mætti beina til þessa starfshóps, áður en hann endanlega skilar af sér, að taka málið fyrir í nokkru víðara samhengi. En ég fagna því að þessi fsp. kom fram. Það er sannarlega ekki vanþörf á að hreyfa umferðarmálunum, svo mörg sem slysin eru með hroðalegum afleiðingum.