16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

272. mál, endurskoðun á reglugerð um ökukennslu

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Eins og geta má nærri kann hv. fyrirspyrjandi margföldunartöfluna sína ennþá. Ég sagði aldrei að störf hópsins hefðu lagst niður um 2–3 ára skeið, heldur um sinn. Það var m.a. af því að við vorum þá að athuga hvernig best yrði staðið að endurskoðun umferðarlöggjafarinnar í heild. Nú er unnið að því starfi af fullum krafti og það hafa þegar verið lögð fram nokkur frumvörp eða a.m.k. tvö frv. frá umferðarlaganefnd hér á hv. Alþingi. Annað hefur orðið að lögum. Hitt féll hv. alþm. ekki í geð. Það er ekkert við því að segja. En hitt stendur óhaggað, að umferðarlaganefnd vinnur ötullega að þeim mikilvægu störfum, sem henni var falið að gegna, og hyggst skila endanlegu áliti á næsta ári.

Fleiri orð held ég að óþarft sé að hafa um þetta annað en það, að ég virði áhuga hv. 1. þm. Vestf. á umferðarmálum, sem og annarra hv. alþm. Þetta eru hin allra mikilvægustu mál, en þau eru margþætt og margslungin.

En ég minni á það, að þegar ég svaraði hér fsp. fyrir nokkru minnti ég á norræna umferðaröryggisárið, sem er fram undan, árið 1983. En þó að þeirri fsp. væri svarað í allitarlegu máli af minni hálfu minnist ég ekki að hafa séð neitt um það í dagblöðum eða fjölmiðlum né heldur getið um að norrænt umferðaröryggisár færi í hönd á næsta leiti.