16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

272. mál, endurskoðun á reglugerð um ökukennslu

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég er hræddur um að ég hafi síst farið of skammt í því að lýsa doða þeirrar starfsemi sem nefnd hefur verið. Það er að koma árið 1983. Bráðum er liðið á fjórða ár síðan nefndur starfshópur var settur á laggirnar, en hann hefur ekki skilað af sér. Mér er kunnugt um að a.m.k. fulltrúa ökukennara í nefndinni hefur mislíkað mjög hægagangurinn á þessari starfsemi.

Annað í svari hæstv. ráðh. þykir mér mjög gagnrýni vert, en það er að rugla þessu saman við einhverja heildarendurskoðun á löggjöf. Hér er um að ræða starfshóp sem er að endurskoða reglugerð. Það er allt annað mál og algerlega einangrað viðfangsefni. Menn eiga ekkert að vera að rugla því saman við önnur og stærri mál.

Inntakið í þeim ályktunum sem ég dreg af svörum hæstv. ráðh. er að á þessu sviði hafi hæstv. ráðh. og starfsmenn hans ekki staðið sig sem skyldi. Ég vil því skora á ráðh., og veit að þar eru a.m.k. allmargir ökukennarar sem hagsmuna eiga að gæta sama sinnis, að störfum þessum verði hraðað hið fyrsta. Hér hefur verið lýst slælegri starfsemi í rn. Löggjafinn á að hafa áhuga á að þessari starfsemi verði hraðað og tíma sinnuleysisins sé lokið í þessu máli.