16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

68. mál, endurskoðun siglingalaga

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Í framhaldi af ályktun Alþingis skipaði hæstv. samgrh. nefnd árið 1981 til að endurskoða ákvæði siglingalaga nr. 66 frá 1963, um björgun. Nefndin mun hafa samið frv. í þá átt ásamt ítarlegri grg. og ennfremur hefur þessi sama nefnd gert tillögu um afnám 12. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 frá 1967, en þetta lagaákvæði varðar skiptingu björgunarlauna sem til Landhelgisgæslunnar falla, en Landhelgisgæslan og starfsmenn hennar hafa í þessu tilfelli haft nokkra sérstöðu umfram önnur skip og áhafnir.

Það sem felst í fsp. minni til hæstv. ráðh. er hvað líði framgangi þessara mála. Megum við vænta þess að frv. þessa efnis verði lögð fyrir yfirstandandi Alþingi eða hefur komið upp eitthvert vandamál sem veldur því að þessi mál hafa ekki enn verið flutt hér á Alþingi, þótt frv. hafi legið fyrir um nokkurt skeið?