16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

50. mál, aldurshámark starfsmanna ríkisins

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 51 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh., sem er svohljóðandi:

„Hinn 5. mars 1981 var samþ. á Alþingi svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að endurskoða lagareglur um aldurshámark starfsmanna ríkisins. Skal sú endurskoðun unnin í samráði við samtök ríkisstarfsmanna og markmið hennar vera það að kanna, hvort ekki sé rétt að hækka aldursmörk þau, sem nú er miðað við, gera reglurnar sveigjanlegri svo og setja fastari reglur um möguleika eldri starfsmanna til að gegna hlutastörfum, ýmist á sínum gamla starfsvettvangi eða í öðrum stofnunum.“

Hvað líður framkvæmd þessarar tillögu?

Ég vil geta þess, að á sínum tíma var breytt reglum, sem í gildi hafa verið hjá Reykjavíkurborg að því er þetta snertir, og verkalok starfsmanna gerð sveigjanlegri en voru samkv. eldri reglum. Sú þáltill., sem samþykkt var á sínum tíma og ég var flm. að, miðaði að því að þær reglur sem giltu hjá ríkinu yrðu a.m.k. ekki lakari að þessu leyti. Þess vegna leikur mér nú forvitni á að vita hvað líður framkvæmd þessarar till.