16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

50. mál, aldurshámark starfsmanna ríkisins

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og fagna því að nokkur hreyfing sé komin á þetta mál. Ég geri mér grein fyrir að það er nauðsynlegt að þessi mál séu leyst í fullu samráði við viðkomandi starfsmannafélög, en þannig var það þegar Reykjavíkurborg breytti sínum reglum.

Varðandi verklok er rétt að geta þess, hverjar þær reglur eru sem voru settar á sínum tíma hjá Reykjavíkurborg. Þær eru á þá leið, að starfsmaður skuli láta af störfum og starf hans verða laust um fyrstu mánaðamót eftir að hann nær 71 árs aldri. Það tímabil sem menn geta verið að störfum hefur því nokkuð lengst miðað við eldri reglur og miðað við þær reglur sem í gildi eru hjá ríkinu.

Lífeyrisgreiðslur hefjast þegar starfsmaður lætur af störfum í samræmi við reglugerð um Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Þegar starfsmaður sem náð hefur 70 ára aldri fer úr starfi sínu er heimilt að ráða hann á tímavinnukaupi í allt að hálft starf hjá Reykjavíkurborg án þess að það hafi áhrif á rétt hans til að taka lífeyri. Jafnframt er heimilt að ráða starfsmann á tímakaupi í fullt starf, enda fresti hann þá töku lífeyris án þess að það hafi áhrif til hækkunar lífeyris. Ef slík endurráðning er til starfa sem falla undir kjarasamninga verkalýðsfélaga greiðast laun samkv. þeim samningum, en annars greiðist tímavinnukaup samkv. aðalkjarasamningi starfsmanna borgarinnar.

Starfsmaður sem óskar að ráða sig í vinnu eftir sjötugt samkv. þessum skilmálum skal sækja um það skriflega til yfirmanns viðkomandi stofnunar með sex mánaða fyrirvara. Skal starfsmanni hafa borist svar innan þriggja mánaða frá umsókn. Sé unnt að verða við ósk starfsmanns skal ráðning gilda til tveggja ára eða til fyrstu mánaðamóta eftir að 73 ára aldri er náð, ef annar hvor aðili segir upp með venjulegum uppsagnarfresti. Við þau aldursmörk er heimilt á sama hátt og áður að framlengja starf hans um eitt ár. Starfsmaður skal láta af störfum 74 ára og eigi síðar en um næstu mánaðamót þar á eftir.

Þetta eru í meginatriðum þær reglur sem nú eru í gildi hjá Reykjavíkurborg. Eins og af þeim má sjá stuðla þær að því að milda nokkuð þann tíma, sem er erfiður í huga margra gamalla starfsmanna, þegar þeir þurfa að láta af störfum.

Það gerist æ tíðara hjá fyrirtækjum í einkarekstri að þau segja ekki upp starfsmönnum aldurs vegna, heldur leitast við að hafa starfsmenn í sínum störfum eins lengi og mögulegt er og eins lengi og þeir óska og eins lengi og heilsa og kraftar leyfa. Ég held að það sé æskilegt að ríkið taki upp svipaða reglu og að ekki verði beitt þeirri ströngu og ófrávíkjanlegu reglu sem í gildi hefur verið hjá ríkinu að þessu leyti.