16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

266. mál, réttindi sjúkranuddara

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 51 að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

Hver er staða sjúkranuddara í heilbrigðiskerfinu í dag og hverjar horfur eru á breytingum varðandi réttarstöðu þeirra?

Á seinni árum hefur verkaskipting við alla heilsugæslu og endurhæfingu vaxið mjög og æ fleiri sérmenntaðir starfshópar komið þar við sögu. Um einn þessara hópa er spurt hér þar sem nokkuð virðist svífa í lausu lofti um réttindi hópsins, þ.e. þeirra sjúkranuddara sem lokið hafa prófum frá viðurkenndum skólum. Þetta er fámennur hópur, vart yfir 10, og starfar ýmist á stofnunum eða sjálfstætt.

Þeir sem lokið hafa tilskildu námi telja sig eðlilega eiga að njóta lögverndaðra starfsréttinda, þó um langt skeið hafi þeir starfað með fullri vitund og vilja heilbrigðisyfirvalda. Vitað er og að læknar hafa mjög með þessari þjónustu mælt, hún gefist vel í ýmiss konar endurhæfingu. Það er einnig staðreynd, að réttindi sjúkranuddara skarast nokkuð við réttindi og starfssvið sjúkraþjálfara, enda mun hér um að ræða einn ákveðinn þátt í námi sjúkraþjálfara, en menntun þeirra öll viðameiri og snerti fleiri svið.

Ég veit að nokkur bréfaskipti hafa átt sér stað um þetta réttindamál og kann að vera að reynt sé að finna á því lausn, þ.e. afmarka starfssvið sjúkranuddara án þess að skerða í nokkru hlut sjúkraþjálfara, sem sýnist vandalítið hjá stofnunum sem reknar eru hjá ríki eða félagasamtökum, en kann að vera erfiðara í framkvæmd gagnvart sjálfstæðum rekstri. En nauðsyn ber til að þetta verði gert sem fyrst, bæði til að forða hugsanlegum árekstrum og eins til þess að menn sem eru án nauðsynlegs náms og réttar geti ekki gert sömu kröfur um t.d. endurgreiðslu sjúkrasamlags, svo að dæmi sé tekið, heldur sé þar eingöngu um þá að ræða sem til þess hafa tilskilin próf.

Hinn sívaxandi þáttur endurhæfingar í heilsugæslukerfi okkar krefst þess, að allar tiltækar leiðir séu reyndar að því marki að gera endurhæfinguna sem besta og virkasta. Hér er vissulega um þýðingarmikinn hluta þess starfs að ræða, vaxandi þátt í okkar endurhæfingu, og því er um réttindi þessa sérstaka starfshóps spurt.