16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

107. mál, sveitarafvæðing

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á fjárlögum fyrir árið 1982 er gert ráð fyrir að veita 2.7 millj. til sveitarafvæðingar og til viðbótar 4.5 millj. kr. á lánsfjáráætlun eða samtals 7.2 millj. kr. Síðan var ákveðið samkv. bréfi fjmrn. að skerða þessa fjárveitingu um 162 þús. kr. þannig að ráðstöfunarfé Orkusjóðs til sveitarafvæðingar á árinu 1982 er 7.038 millj. kr. Það er hlutverk orkuráðs að ráðstafa eða gera tillögur um ráðstöfun þessa fjár. Og þannig var málum háttað, að meginhluti þessa fjár þurfti að ganga til heimtaugalagna til húsa á eldri veitusvæðum og sáralítið var afgangs til nýrra veitulagna, eins og raunar hefur verið á undanförnum árum.

14. apríl s.l. gerði orkuráð samkv. lögum tillögur til iðnrh. um ráðstöfun þessa fjár. Var það með þeim hætti, að lagt var til að til heimtauga hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða væri varið 5.7 millj. kr. en eftirstöðvunum, 1.2 millj. eða 1.3 millj. kr., væri varið til nýrra veitulagna, eða til svokallaðrar Ketildalalínu í Vestur-Barðastrandarsýslu, Ketildalahreppi. Hæstv. iðnrh. samþykkti tillögu orkuráðs um ráðstöfun fjárins til heimtauga, en hann hefur ekki ennþá afgreitt tillögu orkuráðs um ráðstöfun þessa fjár til nýrra veitulagna, eða til Ketildalalínu, að upphæð 1.26 millj. kr.

Það verður nú að segjast eins og er og eru engin tíðindi, að það fé, sem var ráðstafað á fjárlögum fyrir árið 1982 til sveitarafvæðingar, var allt of lítið og í engu samræmi við tillögur orkuráðs í því efni. Samt sem áður skiptir máli að hagnýta þetta fé með eðlilegum hætti. Það hefur verið byggt á því að þessu fjármagni yrði ráðstafað í samræmi við tillögur orkuráðs. Samkv. tillögu formanns orkuráðs hóf Orkubú Vestfjarða þessar framkvæmdir í þeirri vissu, að það fengi það fjármagn til nýrra veitulagna árið 1982 sem ráðstafað hafði verið í þessum tilgangi. En það óvenjulega hefur skeð eða einstæða, að hæstv. iðnrh. hefur ekki afgreitt þessa tillögu orkuráðs, eins og ég sagði áðan eða samþykkt þessa ráðstöfun orkuráðs, svo sem jafnan hefur verið að iðnrh. hefur gert, en samkv. lögum á orkuráð að gera tillögur í þessu efni.

Með tilliti til þessa hef ég leyft mér að bera fram fsp. til iðnrh. á þskj. 109, þar sem í fyrsta lagi er spurt hvers vegna iðnrh. hafi ekki afgreitt tillögu orkuráðs samkv. bréfi dags. 17. apríl s.l. og ítrekaða með bréfi dags. 21. okt. s.l., um ráðstöfun fjármagns sem ákveðið er til sveitarafvæðingar í fjárlögum fyrir árið 1982 vegna nýrra veitulagna. Og í öðru lagi hef ég leyft mér að spyrja hæstv. iðnrh. að því, hvort hann vilji afgreiða tillögu orkuráðs þegar í stað, svo að nýta megi það fjármagn sem Alþingi hefur ákveðið að ganga skuli til sveitarafvæðingar á árinu 1982.