16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

107. mál, sveitarafvæðing

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þetta er dálítið einkennilegur málflutningur hjá hv. fyrirspyrjanda að mér þykir. Hann er að gera hér sterkar athugasemdir um það, að ráðh. líti yfir tillögur sem frá orkuráði koma og skrifi ekki nánast upp á þær orðalaust, og hann hefur staðið að samþykktum þar í orkuráði, að ráðh. eigi bara að gera þetta þegar í stað og ekkert múður. (Gripið fram í.) Ég leyfi mér að spyrja: Hvers konar málflutningur er þetta? Ætlast hv. þm. til þess að orkuráð fái það vald sem ráðh. hefur að lögum í þessu máli? Síðan liggur það fyrir, það hefur legið fyrir frá því í sumar, að verkið hefur verið unnið þrátt fyrir það að þessa staðfestingu vantaði, þannig að ljóst er að það hafa verið notaðir þeir aurar sem fyrir lágu og helmingi meira til þessa verks. Ég tók það hér fram og ég ítreka það, að það hefur aldrei staðið til að nýta ekki þessa heimild. En ég vildi að það lægi jafnframt fyrir, hvort hægt væri að fá viðbótarfjármagn til að greiða þetta verk að fullu — og bæta um betur, taka tvo bæi til viðbótar sem voru efstir á skrá frá Orkustofnun á borði orkuráðs í marsmánuði síðla. En síðan gerðist það milli 24. mars og 14. apríl 1982 að lína, sem var í fimmta sæti á skránni skömmu áður, færðist upp í fyrsta sæti, en hinni var þokað til hliðar. Ég taldi fulla ástæðu til að athuga þetta og lái mér hver sem vill.

Það er einnig misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, að það hafi verið ríkisstj. sem ekki vildi taka við fyrirgreiðslu af hálfu Byggðasjóðs í þessu máli. Þetta er einnig fjarstæða. Ríkisstj. hafði ekkert fyrirheit frá Byggðasjóði fyrr á árinu um það að hann tæki lán til sveitarafvæðingar. Ekkert slíkt lá fyrir.

Framkvæmdastofnun hafði óskað eftir því rétt eftir að menn afgreiddu lánsfjáráætlun hér s.l. vor, að tekin yrðu erlend lán til ýmissa framkvæmda til viðbótar, þ. á m. til sveitarafvæðingar, ekki á vegum Framkvæmdastofnunar eða á vegum Byggðasjóðs, heldur á vegum ríkissjóðs. Erindi mín við Byggðasjóð hafa ekki verið þess efnis, heldur að óska eftir því, að Byggðasjóður sjálfur stæði að slíkum lántökum og stæði undir fjármagnskostnaði við slíkar lántökur. Það er slíkt erindi sem legið hefur fyrir Byggðasjóði frá því snemma í september og sem stjórn sjóðsins hefur ekki tekið afstöðu til. En ég hef orð framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar, hv. þm. Sverris Hermannssonar, fyrir því, að þetta mál verði tekið til afgreiðslu á næsta fundi stjórnar Byggðasjóðs. Ég efast ekki um að við það verði staðið og ég vænti þess, að það verði jákvætt svar. Þetta vildi ég að hér kæmi fram til leiðréttingar á því, sem fram kom í athugasemdum hv. fyrirspyrjanda.