16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

271. mál, rækjuveiðar við Húnaflóa

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 88 að flytja fsp. til hæstv. sjútvrh. um rækjuveiðar við Húnaflóa. Hún hljóðar svo með leyfi forseta:

„Hyggst sjútvrh. breyta þeim reglum sem nú gilda um skiptingu rækjuafla á Húnaflóa í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á atvinnuöryggi þeirra staða er aflans hafa notið?“

Ég mun skjóta nokkrum stoðum undir þessa fsp. Hún stafar af því, að á rækjuvertíðinni 1975–1976 var rækjuafla fyrst skipt á milli vinnslustöðva við Húnaflóa. Áður hafði verið samkomulag milli vinnslustöðvanna um að skipting væri jöfn milli staðanna fjögurra, Hólmavíkur, Drangsness, Hvammstanga og Skagastrandar.

Við skiptingu rn. er Blönduósi bætt inn sem vinnslustöð, og fær hún sinn aflahlut að sjö hundraðshlutum frá Hvammstanga og þremur hundraðshlutum frá Skagaströnd, samtals 10% af heildaraflanum. Þorpin vestan flóa héldu sínum hluta að fullu. Það er ljóst að Hvammstangamenn hafa frá upphafi mótmælt þessari skiptingu harðlega. Hefur hreppsnefnd Hvammstangahrepps bent á að forsendur upphaflegrar skiptingar væru nú allar brostnar, hafi þær þá nokkurn tíma verið fyrir hendi. Þeim stoðum er rennt undir það að þessar forsendur séu brostnar, að nú hafi þær breytingar orðið á atvinnulífi annarra staða að þar hafi atvinnulíf verið tryggt mun betur en áður var. M.a. er bent á það að Hólmvíkingar hafi nú eignast nýjan togara, sem muni auka mjög verulega eftirspurn eftir vinnuafli á staðnum og treysta atvinnulífið, og að síðan upphafleg skipting komst á hafi Skagstrendingar fengið tvo togara, sem gjörbreytt hafi atvinnuástandi þar, og á Blönduósi hafi verið mikil atvinna, m.a. hafi vinna við væntanlega Blönduvirkjun skapað þar jafnvel þenslu á vinnumarkaði. Það er af þessum sökum að fsp. er lögð hér fram um það, hvort ráðh. eða hans virðulega rn. hafi í hyggju að breyta þeim reglum sem nú eru í gildi á þessu svæði.