16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

271. mál, rækjuveiðar við Húnaflóa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Vestfirðingum farnaðist vel í Húnaflóabardaga hinum forna og höfðu þeir þá helmingi minna lið. Ég hygg að það sé einnig rétt að hugleiða það, að sá bardagi sem síðar varð og hafði í för með sér að gefið var eftir gagnvart rækjuveiði frá Strandasýslu og yfir flóann, hafi átt þátt í því að endurskipuleggja varð uppbyggingu atvinnulífs á Hólmavík og m.a. var farið út í að kaupa togara, sem er ekki kominn þar til starfa, eins og fram hefur komið.

Ég vil benda á það, að hugsanlegt er að það verði þá að fjölga þorpum fyrir norðan flóann ef það eitt á að ráða úrslitum. En mér þætti sanngjarnt að þeir sem telja þetta ranglátt í dag gefi það upp hvaða prósentuhlutföll þeir telja réttlát.