16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

274. mál, kostnaður vegna athugunar á starfsemi Íslenska álfélagsins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur lagt hér fram fsp. í nokkrum liðum. Skal henni nú svarað.

Í fyrsta lagi spyr hann hvar sé að finna lagaákvæði eða samninga, þar sem Hafnarfjarðarkaupstað sé gert að taka þátt í kostnaði við athugun á starfsemi Íslenska álfélagsins, sem iðnrn. hefur staðið fyrir. Að mínu mati hefur í raun og veru aldrei verið um það að ræða að Hafnarfjarðarbæ hafi verið gert að taka þátt í kostnaði við athugun á starfsemi félagsins. Það væri rangt að orða það sem gerst hefur með þeim hætti. Allur slíkur kostnaður hefur verið greiddur úr ríkissjóði. Þegar síðan hefur komið að því að skipta tekjum Íslendinga af framleiðslugjaldi hefur kostnaður við hagsmunagæslu vegna þeirrar tekjuöflunar að sjálfsögðu verið dreginn frá brúttótekjunum, áður en til skipta kom, þannig að það er heildarupphæð hreinna tekna af álgjaldi sem til skipta hefur komið. Kostnaður við þessa Hagsmunagæslu hefur þannig áhrif til lækkunar á þá upphæð sem til skipta kemur og þar með á hlutdeild hinna einstöku aðila í þeirri upphæð á sama hátt og árangur af þessari hagsmunagæslu mun leiða til hækkunar á beinum tekjum frá álfélaginu, sem til skipta koma.

Þær reglur sem farið hefur verið eftir við skiptingu hreinna tekna af álgjaldi eru því miður ekki eins formlegar og skyldi. Hafnarfjarðarkaupstaður hefur frá upphafi fengið greidda hlutdeild af þessum tekjum. Greiðsluheimild til Hafnarfjarðarkaupstaðar byggðist upphaflega á ákvæðum 3. gr. laga nr. 69/1966, um Atvinnujöfnunarsjóð, en síðar á ákvæðum 28. gr. laga nr. 90/1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins.

Í kjölfar viðræðna, sem fram fóru milli Sviss Aluminium og ríkisstjórnar Íslands á árinu 1975 og leiddu til annars viðauka við aðalsamning, fóru fram viðræður milli fulltrúa ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar um hlutdeild bæjarins í tekjum af álgjaldi. Í framhaldi af þessum viðræðum ritaði iðnrn. bæjarstjóra Hafnarfjarðar bréf dags. 10. maí 1976, þar sem það lýsir því yfir, að það sé tilbúið að beita sér fyrir nýrri löggjöf um ráðstöfun gjaldsins, sem nánar er lýst í bréfi þessu. Staðreynd er hins vegar sú, að slík löggjöf hefur ekki verið sett. Fyrri ákvæðin um skiptingu gjaldsins voru hins vegar felld úr gildi, felld út úr lögum með 14. gr. laga nr. 63 31. maí 1976. Mergurinn málsins er því sá, að frá gildistökudegi þeirra laga, 11. júní 1976, hefur skort beina lagaheimild til að greiða Hafnarfjarðarbæ hlutdeild í tekjum ríkissjóðs af álgjaldi, og að sjálfsögðu einnig lögákveðnar reglur við hvað slík hlutdeild skyldi miðuð.

Í framkvæmd hefur aftur á móti verið höfð hliðsjón af efnisreglum þeim er ráðgert var að lögfesta í fyrrgreindu bréfi iðnrn. Er megininnihald þeirra reglna að Hafnarfjarðarbær hefur fengið jafnvirði 250 þús. Bandaríkjadollara af heildartekjum af álgjaldinu óskiptu og að öðru leyti 18% af árlegum heildartekjum af gjaldinu. Ljóst er að ekki verður til frambúðar við það unað, að ekki séu í lögum ákvæði um hvernig tekjum af álgjaldi skuli skipt, og ber brýna nauðsyn til að lögfesta reglur um það efni. Er raunar hæpið að stætt sé á því að greiða Hafnarfjarðarbæ framvegis nokkra hlutdeild í álgjaldi án skýrari lagaheimilda en nú eru fyrir hendi. Þó er ekki með þessu sagt að greiðslur þessar muni falla niður, en aðeins á það bent að þessar greiðslur hljóti að teljast hæpnar, meðan ekki liggja fyrir skýrari lagaheimildir.

Önnur spurningin var þessi: „Hver tók þá ákvörðun, að Hafnarfjarðarkaupstað er gert að taka þátt í umræddum kostnaði, sem ríkisbókhaldið tilkynnir í bréfi 5. nóv. s.l.?“ Svarið er: Ákvörðun um hvað skyldu teljast hreinar tekjur af álgjaldi, er til skipta koma, var tekin af fjmrh. og iðnrh. með hliðsjón af því sem áður hafði tíðkast.

Þriðja spurningin er: „Hefur Hafnarfjarðarkaupstað áður verið gert að taka þátt í slíkum kostnaði?“ Svarið er jákvætt. Sem dæmi má nefna að kostnaður við endurskoðun á starfsemi álfélagsins á árinu 1973 var dreginn frá álgjaldi óskiptu á árinu 1974. Hafnarfjarðarbær mótmælti þessu formlega á þeim tíma. Svar fjmrn. við þeim mótmælum var á þessa leið með leyfi forseta: „Hafnarfjarðarbær, hr. bæjarstjóri Kristinn Ó. Guðmundsson.

Ráðuneytinu hefur borist bréf yðar, dags. 28. okt. 1974, þar sem því er mótmælt, að Hafnarfjarðarbæ beri á nokkurn hátt að standa undir kostnaði af endurskoðun, sem framkvæmd var af bókhaldi ÍSALs samkv. ósk rn., og þess krafist, að hluti Hafnarfjarðarbæjar af kostnaði þessum, kr. 344 237, verði endurgreiddur bæjarsjóði.

Ekki kemur fram í bréfi yðar hvort Hafnarfjarðarbær sé eða hafi verið andvígur því, að endurskoðun samkv. gr. 27 03 í álsamningnum færi fram í bókhaldi ÍSALs.

Rn. getur ekki fallist á þá kröfu sem fram kemur í bréfi yðar um endurgreiðslu á endurskoðunarkostnaðinum. Rn. telur þvert á móti eðlilegt að kostnaður þessi sé borinn af þeim aðilum sem njóta tekna af framleiðslugjaldi af útfluttu áli, enda er ljóst að tilgangur endurskoðunar á bókhaldi ÍSALs er sá að gæta hagsmuna þessara aðila.“

Bréf Hafnarfjarðarbæjar til fjmrn. er dags. 28. okt. 1974. Svarbréfið hlýtur því að vera sent síðar, af sjálfu leiðir. Ég hygg að þá hafi verið fjmrh. Matthías Á. Mathiesen fyrirspyrjandi, en hvort hann hefur undirritað þetta bréf eða hvort það hefur verið gert á hans ábyrgð af embættismanni hef ég ekki upplýsingar um að svo stöddu.

Árið 1975 voru dregnar frá álgjaldi, áður en því var skipt, greiðslur fyrir endurskoðun og 1976 er enn færður endurskoðunarkostnaður til frádráttar álgjaldi óskiptu, en ætla má að sá kostnaður hafi tilheyrt endurskoðuninni 1975.

Síðan kemur 4. liður: „Hefur verið haft samráð við Hafnarfjarðarkaupstað um þá athugun sem fram hefur farið?“ Því er til að svara, að athugun á starfsemi Íslenska álfélagsins hefur alfarið verið í höndum ríkisins án samráðs við Hafnarfjarðarbæ.

Fimmta spurningin er: „Var umrædd ákvörðun tekin með vitneskju Hafnarfjarðarkaupstaðar?“ Hér er spurt um umrædda ákvörðun og má gera ráð fyrir að átt sé við þessa seinustu ákvörðun iðnrn. og fjmrn. um tilhögun þessara greiðslna. Þá er því til að svara, að ekki var haft samráð við Hafnarfjarðarkaupstað að þessu sinni, en um forsögu málsins og þau samráð sem áður höfðu átt sér stað í þessu máli vísast til þess sem þegar hefur verið greint hér um bréfaskipti Hafnarfjarðarbæjar og fjmrn. frá árinu 1974.

Sjötta fyrirspurn er þannig: „Hvenær hófust greiðslur á umræddum kostnaði?“ Ég hygg enn að átt sé við þann kostnað sem hér er sérstaklega verið að spyrja um í fsp., þ.e. kostnaður vegna athugunar á starfsemi Íslenska álfélagsins, sennilega þá undanskilinn sá kostnaður sem nú í seinni tíð hefur hlotist af þessum athugunum. Ég hygg að greiðslur vegna þessara síðari athugana hafi hafist á árinu 1980, en vísa enn til þess sem ég hef áður sagt, að slíkar athuganir fóru einnig fram fyrir nokkrum árum og hafa þá væntanlega átt sér stað á árinu 1974.

Herra forseti. Nú er ég búinn að svara sex liðum af níu liða fsp. og verð væntanlega að fá nokkrar mínútur enn til þess að ljúka við að svara fsp.

Sjöundi liðurinn er svohljóðandi: „Hvernig skiptist kostnaður á árinu 1981 vegna athugunar á starfsemi Íslenska álfélagsins, að fjárhæð kr. 2 831 803, á eftirtalda útgjaldaflokka?“

Svarið er að skipting kostnaðar á árinu 1980 var sem hér segir á þessa útgjaldaflokka:

a. Aðkeypt sérfræðiþjónusta kr. 2 723 694.

b. Ferðakostnaður kr. 97 646.

c. Funda- og risnukostnaður kr. 74 994.

d. Annað kr. 189 004.

Samtals kr. 2 831 803.

Meðtalið í öðrum kostnaði er m.a. beinar launagreiðslur og akstur.

Áttunda fyrirspurnin er svohljóðandi: „Hver er útlagður kostnaður vegna athugunar á starfsemi Íslenska álfélagsins til 31. okt. 1982 hvernig greinist hann á sömu útgjaldaflokka?“

Svarið er: Útlagður kostnaður vegna starfsemi Íslenska álfélagsins frá 1. jan. til 31. okt. var sem hér segir:

a. Aðkeypt sérfræðiþjónusta kr. 2 723 694.

b. Ferðakostnaður kr. 82 275.

c. Fundar- og risnukostnaður kr. 74 994.

d. Annað kr. 349 172.

Samtals kr. 3 230 135.

Meðtalið í öðrum kostnaði er m.a. beinar launagreiðslur og akstur.

Og þá er ég kominn að 9. lið fsp. sem var svohljóðandi: „Hefur verið tekin afstaða til athugasemda Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna umræddrar gjaldfærslu?“

Svarið er: Athugasemdir Hafnarfjarðarbæjar hafa ekki verið teknar til greina og kröfur bæjarins hafa ekki verið viðurkenndar. Málið verður hins vegar til áframhaldandi athugunar.