25.10.1982
Sameinað þing: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á þessu hausti, þegar Alþingi er loks kvatt saman, blasa við gífurlegir erfiðleikar í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Um þessa bjargföstu, óhagganlegu staðreynd er ekki deilt. Ráðherrar í sjálfri ríkisstj. hafa gengið fram fyrir skjöldu og dregið upp svo dökkar myndir af ástandinu að okkur óbreyttum þm. í stjórnarandstöðu þykir jafnvel nóg um að sumu leyti. Formaður Alþb., hæstv. ráðh. Svavar Gestsson, hefur t.d. sagt að við eigum nú í mestu efnahagserfiðleikum í áratugi. Minna má ekki gagn gera. Hæstv. fjmrh. orðaði þetta svo í grein í Þjóðviljanum í sumar: „Þjóðarskútan stefnir í öldudal einhverrar mestu efnahagskreppu síðustu áratuga.“ Þetta tel ég að vísu mistúlkun. Efnahagsáföllin sem dundu yfir íslensku þjóðina í lok áratugsins 1960–70 voru miklu meiri og af öðrum toga. Síldin hvarf og samtímis varð stórfellt verðfall á afurðum okkar. Þá voru þessi áföll líka óumdeilanlega öll utanaðkomandi. Svipaða sögu má segja um áföllin 1974–75. En hvað um það, hvað sem um þessi ummæli ráðh. og ríkisstj. má segja þá dylst engum að með þeim er engin fjöður dregin yfir þá staðreynd að mikil — og það sem verra er, stórhættuleg efnahagskreppa er nú skollin á. Hún kemur í kjölfar undangenginna metaflaára og tiltölulega góðs verðs á afurðum okkar.

Hvernig lýsir hún sér svo, þessi mikla efnahagskreppa? Fyrsta einkennið, sem ég vil nefna, er feiknaleg eyðsluskuldasöfnun erlendis. Hæstv. fjmrh. lýsti þessu fyrirbrigði þannig orðrétt í áðurnefndri Þjóðviljagrein: „Við erum óneitanlega að sökkva á kaf í ískyggilegri skuldasöfnun.“ Þessi ummæli ráðh. eru ekki ýkjur. Nú, þegar orku- og stóriðjuframkvæmdir dragast saman um allan helming, fer halli þjóðarbúsins gagnvart útlöndum í svimandi upphæðir, rúmar 3 þús. millj. nýkr. sem er 10.5% af þjóðarframleiðslu. Nú er svo komið að áætlað er að upphæð sem svarar andvirði fjórða hvers fisks, sem dreginn er á land, fari til að borga afborganir og vexti á næsta ári af erlendum lánum: Í upphafi síðasta áratugs var þessi greiðslubyrði svo miklu léttari að aðeins tíundi hver fiskur fór til að borga afborganir og vexti af erlendum lánum. Ef við sökkvum í ískyggilega skuldasöfnun vegna viðskiptahalla og eyðslu, svo að notuð séu enn orð hæstv. fjmrh., þá sláum við auðvitað ekki þau lán til atvinnuuppbyggingar til arðbærra framkvæmda. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir ógn við atvinnuöryggi alls almennings.

Annað einkenni efnahagskreppunnar er langvarandi taprekstur undirstöðuatvinnuveganna og skuldasöfnun. Það hlýtur að bjóða stórfelldu atvinnuleysi heim ef ekki er gerbreytt um stefnu og svo fer fram sem nú horfir. Verulegur niðurskurður opinberra framkvæmda, einkum úti um land, svo sem í hafnarframkvæmdum, skólabyggingum og á fleiri sviðum, sem ráðgerður er í fjárlagafrv. ríkisstj., dregur ekki úr atvinnuleysishættunni.

Þriðja einkenni efnahagskreppunnar er að heildarsparnaður þjóðarinnar hefur minnkað svo undanfarið að nálgast hrun. Dr. Jóhannes Nordal upplýsti á ráðstefnu fyrir nokkrum dögum að inniendur sparnaður, sem var um það bil 25 % af þjóðarframleiðslu fyrir tveimur árum, sé nú í ár kominn niður fyrir 19%. Nú er það svo að seðlar eru í rauninni prentaðir til þess að halda bankakerfinu á floti og atvinnuvegunum gangandi um stundarsakir.

Fjórða einkenni efnahagskreppunnar er að fjárfesting í atvinnuvegunum hefur dregist saman ef frá er talinn fiskiskipastóllinn. Mestur er samdrátturinn í stóriðnaði og stórvirkjunarframkvæmdum. Framleiðni í atvinnuvegunum hefur minnkað.

Fimmta einkenni efnahagskreppunnar eru stórfelldar skattahækkanir, endalaus þensla eyðsluútgjalda ríkissjóðs og þar með ríkisumsvifa, en niðurskurður á fjárveitingum til framkvæmda og atvinnuvega. Ríkissjóður væri rekinn með stórfelldum halla ef eyðsluskuldasöfnun erlendis væri hætt.

Sjötta einkenni ástandsins í efnahagsmálum er að þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa staðnað síðustu ár þrátt fyrir metafla og stóraukna sjávarvöruframleiðslu. Kaupmáttur heimilanna hefur minnkað og í ár og næsta ár verður stórfelldur samdráttur á þjóðartekjum og lífskjörum samkv. opinberum spám. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni hér áðan að það sé mikil kjarabót að auðvelda launþegum öflun eigin húsnæðis. Veit ekki hæstv. ráðh. að stórlega hefur dregið úr húsbyggingum, einkum einstaklinga, í stjórnartíð hans? Þar er enn ein kjaraskerðing heimilanna á ferðinni.

Í sjöunda lagi og síðast en ekki síst, hvað um þennan krabbameinssjúkdóm í íslensku efnahagslífi, verðbólguna? Hefur hún ekki verið talin niður eða kveðin niður? Ég undrast það satt að segja að sumir framsóknarmenn, eins og formaður Framsfl. hér áðan, skuli hafa þrek til þess að tala enn um niðurtalningarstefnu, svo hlægilegt öfugmæli sem hún er orðin. Skemmst er frá því að segja, að verðbólgan er illvígari en þegar ríkisstj. settist að völdum, þótt hún eigi samkv. ákvæðum stjórnarsáttmálans að vera a.m.k. komin niður fyrir 10%. Hún verður yfir 60% á þessu ári og sennilega svipuð á því næsta samkv. framreikningi Þjóðhagsstofnunar, ef ekki verður neitt að gert, þrátt fyrir verðbótaskerðingu brbl.

Ég hef nú nefnt sjö stórhættuleg sjúkdómseinkenni efnahagskreppunnar sem flest fara snarversnandi með hverjum deginum. Tvímælalaust má t.d. segja að svo langt sé gengið í eyðsluskuldasöfnun erlendis að teflt sé í fullkomna tvísýnu atvinnuöryggi, lánstrausti og fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Það er því sannarlega ástæða til þess að taka undir með hæstv. ráðherrum sem draga upp dökkar myndir af ástandinu. Nú deila menn um orsakir fyrir einni mestu efnahagskreppu síðustu áratuga. Stjórnarsinnar kenna um aflabresti og heimskreppunni ógurlegu. Við stjórnarandstæðingar bendum á öfugsnúna stjórnarstefnu og að við höfum ár eftir ár aukið afla og sjávarvöruframleiðslu vegna þeirrar framsýni ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og Matthíasar Bjarnasonar sem sjútvrh. að færa út fiskveiðilögsöguna í 200 mílur. Aflabresturinn er ekki meiri en svo að við búum nú við svipaða sjávarvöruframleiðslu og árið 1979. En látum deilur um orsakir þessarar miklu efnahagskreppu lönd og leið. Upp úr stendur að þrátt fyrir svonefndar efnahagsráðstafanir ríkisstj. og brbl. frá því í sumar verður enn stórfelldur halli á viðskiptum okkar við útlönd á næsta ári samkv. þjóðhagsspá forsrh. Þrátt fyrir gífurlega kjaraskerðingu verður 60% verðbólga á næsta ári. Engar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að halda atvinnuvegunum gangandi upp úr áramótum. Sem sagt, kreppunni er ekki bægt frá og allar líkur á að stórfellt atvinnuleysi skelli á ef siglt er sama kúrs.

Þegar haldleysi svonefndra ráðstafana ríkisstj. í sumar varð ljóst kröfðust allir þm. Sjálfstfl. nema ráðherrarnir að Alþingi yrði kvatt saman, það fjallaði um brýnustu mál svo sem kjördæmamálið, að ríkisstj. segði síðan af sér og efnt yrði til kosninga. Þær kosningar stæðu nú fyrir dyrum og unnt fyrir nýjan þingmeirihluta að mynda stjórn í nóv. sem hefði þingstyrk, getu og vilja til þess að ráðast með skipulegum hætti að rótum efnahagskreppunnar og umfram allt forða frá fjöldaatvinnuleysi. Fullreynt er nú að núv. hæstv. ríkisstj. er komin að þrotum, eins og einn ráðh. orðaði það, og er alls ófær um að ráða við þann djúptæka vanda sem ráðherrarnir sjálfir segja svo mikinn sem raun ber vitni. Samt virðist hún enga hugsjón hafa aðra en að lafa áfram í ráðherrastólum.

Ég varpa eftirfarandi spurningu fram: Hvort sýnir meiri ábyrgð, þráseta ríkisstj., sem komin er að þrotum og hefur ekki starfhæfan meiri hluta á Alþingi, horfandi á hættuástand efnahagskreppunnar magnast geigvænlega, eða sú lýðræðislega krafa stjórnarandstöðunnar að núverandi stjórnmálakreppa verði leyst með kosningum? Auðvitað er það algerlega ábyrgðarlaus afstaða ríkisstj. að útmála hættuástand í þjóðfélaginu, en ætla samt að sitja nokkra mánuði eða misseri enn án minnstu möguleika til þess að ráðast að rótum vandans.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Tími minn er á þrotum. Nú syrtir vissulega í álinn. Engin ástæða er þó til að láta hugfallast. Ísland er gott land, við eigum miklar auðlindir. Þar á meðal eigum við duglegt og vel menntað fólk. Við eigum mikinn mannauð. Við þurfum að breyta um stefnu í brú þjóðarskútunnar, efla og treysta atvinnulífið, virkja einstaklingana og félagasamtök þeirra til nýrra dáða. Þann veg getum við unnið okkur út úr vandanum þótt mikill sé. — Góðar stundir.