16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann. Ég vil þó ekki láta hjá líða að þakka hæstv. forsrh. fyrir bæði skýr og efnismikil svör við þessum spurningum.

Ég vil segja það, að í öllum grundvallaratriðum er ég honum sammála um tíma, nema að 4–6 vikur dugi til þess starfs sem hann nefnir. Þar nefni ég sérstaklega til almannakynningu á þeim tillögum sem nefndar eru og svo ennfremur hitt, sem veldur mér miklum áhyggjum, að í þeim tillögum sem ég hef séð með formlegum hætti frá stjórnarskrárnefnd örlar varla á nokkurri nýrri hugsun eða nýrri tillögu. Slíkt er allt eftir. Ég er ekki að segja að það geti ekki gerst og jafnvel á skömmum tíma, þar sem menn hafa hraðan á. Ég nefni t.d. mannréttindamál minnihlutahópa, sem alls staðar í okkur skyldum menningarsamfélögum skipta máli í þessum efnum.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að vitaskuld vita menn að það sem var greint frá, fyrst í minni framsögu og síðan í svörum forsrh., er rétt, samkomulagið sem átti að reyna og tókst ekki og það allt saman, en við skulum láta það liggja á milli hluta.

Sú tímaáætlun, sem hæstv. forsrh. gefur upp og gæti gengið í öllum meginatriðum, og ég vil taka undir það, fær því aðeins staðist að einhverjar skynsamlegar tillögur, sem leiða til sátta, með hverjum hætti sem það er, séu til staðar — (Forseti hringir.) Aðeins örfáar setningar. — þegar þing kemur saman að nýju. Þetta er búið að reyna á fimmta ár og hefur ekki gengið. Skyldi það ganga á 2 — 3 vikum sem ekki hefur gengið á 5 árum? Svari hver fyrir sig.

Allar hinar almennu röksemdir forsrh. vil ég taka undir. Ég þakka hjartanlega fyrir svörin, en lýsi þó þessum fyllsta fyrirvara: Þær standast ekki nema að gefnum forsendum, sem ekki eru til staðar nú og mjög ólíklegt er að verði til staðar á næstu 3–4 vikum. — En ég þakka samt fyrir.