16.12.1982
Efri deild: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

143. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur lokið mikilli framsöguræðu fyrir frv. því sem hér er á dagskrá. Hann lauk henni með því að víkja að félmn. Ed. og lét orð falla á þá leið að hann treysti henni og formanni hennar til þess að afgreiða þetta mál á sem bestan veg. Ég veit að ég get mælt þau orð fyrir hönd félmn. allrar að við, sem þar eigum sæti, erum alltaf reiðubúnir að gera okkar besta í þessum efnum. En það verð ég að segja að ástand þessara mála og þetta frv. er á þann veg, að það mun reyna meira á það núna en oftast áður að við reynum að gera okkar besta, ef við eigum að geta bætt frv. í meðförum þannig að það verði viðunandi.

Hæstv. félmrh. lét að því liggja í lok ræðu sinnar að það væri ekki svo slæmt ástand í húsnæðismálunum og það sem miður færi væri að kenna, að því er mér skildist, viðskiptabönkunum og því að tekin hefði verið upp verðtrygging lána.

Ég held að þetta sé nokkuð mikil einföldun á því vandamáli sem við eigum við að stríða í þessum efnum, og raunar ekki svaravert, heldur eðlilegra að snúa sér að því sem er aðalvandinn. Ég spyr hæstv. félmrh.: Hvernig stendur á því að hann leggur fram hér þann lagabálk sem við ræðum núna, margháttaðar breytingar á húsnæðislöggjöfinni, ef ekki er mikil ástæða til að betrumbæta núgildandi lög? Ég verð að líta svo á að hæstv. ráðh. telji að það sé mikil ástæða til að breyta mörgu í núgildandi löggjöf. Annað mál er það, hvort hæstv. ráðh. fer rétt að í þeim efnum og hvort hann er ekki í ýmsum greinum að fara úr öskunni í eldinn.

Það voru af hálfu hæstv. ráðh. og núverandi ríkisstjórnar höfð sterk orð um það hve löggjöfin um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1980 væri góð löggjöf. Þeir herrar brugðust aldrei verr við en þegar bornar voru brigður á þetta. En það er ekki endalaust hægt að slá höfðinu við steininn. Það er ekki endalaust hægt að neita staðreyndum. Og ég fagna því, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. er kominn á það stig nú að viðurkenna það sem miður hefur farið í þessum málum á undanförnum árum. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það hve stórt spor var stigið aftur á bak í húsnæðismálunum í ýmsum veigamiklum atriðum sem setningu löggjafarinnar frá 1980. Það eru afleiðingarnar af þeim mistökum sem við erum að glíma við í dag.

Hæstv. félmrh. lét þess getið að það væri löng saga að segja frá aðdraganda þess frv. sem við nú ræðum. Það er rétt. En ákaflega var hæstv. ráðh. fáorður um frv. sem hann sjálfur lagði fram á síðustu dögum síðasta þings, en hlaut þá ekki afgreiðslu, frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það frv. var unnið af Húsnæðisstofnun ríkisins. Það þótti góður undirbúningur og góðar starfsaðferðir við það frv. og heyrðist ekki annað á síðasta þingi. En þrátt fyrir það tekur hæstv. ráðh. upp þá starfsaðferð að setja sérstaka nefnd til að vinna að endurskoðun húnæðislöggjafarinnar. Þetta gerðist í ágústmánuði s.l. þegar sérstakur starfshópur var skipaður. Þetta frv. er árangurinn af starfi þessa starfshóps. 1 máli ráðh. kom fram að það væri frekar árangur af starfi þessa starfshóps en af starfi húsnæðismálastjórnar. En þetta er ekki rétt. Ég leyfi mér að efast um þetta. Það sjáum við þegar við berum saman frv. sem við nú ræðum og svo það frv. sem hæstv. ráðh. lagði fram á síðustu dögum síðasta þings. Meginhlutinn a.m.k. af efnisbreytingum frá gildandi lögum, sem eru í frv. sem við nú ræðum, var í frv. sem lagt var fram á síðasta þingi.

Mér þykir rétt að benda á þetta, því mér fannst að hlutur húsnæðismálastjórnar, sem vann fyrra frv., kæmi ekki nægilega fram í þeim orðum sem hæstv. félmrh. viðhafði í ræðu sinni þegar hann var að rekja aðdraganda þess frv. sem við nú ræðum. Hæstv. ráðh. fór út í einstakar greinar frv. og lýsti þeim og gaf sínar skýringar. Mér þykir það hafa verið gert á þann veg, að það sé ástæða fyrir mig að fara að nokkru leyti út í greinar frv. Með því móti mun ég svara ýmsu af því sem fram kom í ræðu hæstv. félmrh. hér áðan.

Hæstv. félmrh. vék sérstaklega að 1. gr. frv., svo sem eðlilegt var vegna þess að 1. gr. frv. fjallar um fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins, sem er undirstöðuatriði í öllu því sem við erum að ræða um. Setjum sem svo að við göngum út frá því sem hefur verið gengið út frá fram að þessu, eða a.m.k. þar til hæstv. núverandi félmrh. tók við yfirstjórn þessara mála, að Byggingarsjóður ríkisins ætti að vera umkominn þess að vera almennur lánasjóður húsbyggjenda í landinu, sem veitti lán sem væru nægilega há til þess að almenningur gæti komið sér upp þaki yfir höfuðið og sem væru með nægilega góðum lánskjörum til þess að staðið yrði undir þessum lánum af almennum launatekjum í landinu.

Nú segir í 1. gr. frv., og er það mikilvægasta breytingin frá núgildandi lögum varðandi fjáröflun, að fjár til Byggingarsjóðs ríkisins skuli aflað með árlegu framlagi úr ríkissjóði sem verði eigi lægra en tvöfalt hærra að verðgildi en framlag í fjárlögum ársins 1982. Fyrst hrekkur maður í kút við þetta. Ég held að það þurfi að leita víða til þess að finna annað eins ákvæði í almennri löggjöf í þýðingarmiklu máli eins og þessu. Framlag ríkisins á að vera „eigi lægra en tvöfalt hærra að verðgildi en framlag í fjárlögum ársins 1982.“ Manni er spurn: Hvernig stendur á að þetta er komið inn í frv.?

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að hæstv. ríkisstj. hefur talið að hún gæti eitthvað fegrað sinn hlut í þessu efni með því að gefa yfirlýsingar um það að á næsta ári eigi að leggja fram úr ríkissjóði helmingi meira fjármagn en í ár. Þessi yfirlýsing út af fyrir sig er góðra gjalda verð svo langt sem hún nær. En að ætla að gera þessa yfirlýsingu að einhverri viðmiðunarreglu sem sett er í lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, það finnst mér fjarstæða.

Þetta er nú kannske meira um form en efni. En þó er þýðingarmikið að víkja að því, vegna þess að slíkt form væri ekki þarna komið nema í lýðskrumsskyni og af vissum misskilningi, því að þó það geti verið gott hjá ríkisstj. að gefa almenna yfirlýsingu á einhverjum vettvangi um að það eigi að tvöfalda framlagið til Byggingarsjóðs ríkisins á næsta ári, þá vex hún ekki neitt af því að setja slíkt ákvæði inn í almenn lög.

En aðalatriðið í þessu er það, að ríkisstj. hefur svipt Byggingarsjóð ríkisins þýðingarmesta tekjustofni sínum, sem er óafturkræft framlag af launaskatti sem á var lagður í þeim tilgangi að hann gengi til Byggingarsjóðs ríkisins. Tvö launaskattsstig eiga samkvæmt núgildandi lögum að ganga til Byggingarsjóðs ríkisins. Ríkisstj. er að svíkjast frá þessu. Og Byggingarsjóð ríkisins munar um 340 millj. kr. á næsta ári.

Hvað gæti það þá þýtt mikla fjármuni ef það fjármagn sem lagt er til Byggingarsjóðsins í ár yrði tvöfaldað að verðgildi næsta ár? Hæstv. félmrh. gat ekki um það. Ég skil hann ósköp vel. Það er ekki af miklu að státa í því efni ef litið er á raunveruleikann eins og hann blasir við og ég hef nú lítillega komið inn á.

Ég vil áður en ég lýk við þessa grein víkja aðeins að smábreytingu sem hefur orðið á 1. gr. frv. nú frá því sem 1. gr. var í frv. í vor. 1. gr. er nákvæmlega eins nema að einu leyti. Í frv. í vor stóð: „Framlagið verði tvöfalt hærra að verðgildi en framlag á fjárlögum ársins 1982, eftir að sett hafa verið lög um aukna tekjuöflun vegna Byggingarsjóðs ríkisins.“ Þetta ákvæði „eftir að sett hafa verið lög um aukna tekjuöflun“— (Félmrh.: Hefur komið.) Hefur komið, segir hæstv. ráðh. (Félmrh.: Í brbl. í sumar sem m.a. tryggðu fé í þessu skyni.) Ég vil aðeins segja um það, að ég tel að þó að þetta ákvæði hafi verið í brbl. í sumar þá sé ekki nóg að gert í þessum efnum. Það er það sem ég vil leggja áherslu á með því að benda á þetta. Það er eins með brbl. frá í sumar í þessu efni og í öðrum efnum, þar er ekki fullkomleikanum til að dreifa.

Í 2. gr. er talað um byggingarsamvinnufélög sérstaklega sem framkvæmdaraðila í byggingariðnaðinum. Það var nú allt og sumt. Það var eins og byggingarsamvinnufélög væru ekki byggingaraðili. En hvers vegna er ég að minnast á þetta lítilræði? Það er vegna þess að það er einkennandi fyrir mörg sýndarákvæði í þessu frv. að þau hafa enga efnislega þýðingu, eru ekkert annað en orðagjálfur sem engu máli skipta og í besta tilfelli oft á tíðum ættu ekki heima nema sem reglugerðarákvæði en ekki sem lagaákvæði.

Í 3. gr., sem hæstv. ráðh. vék að, er gert ráð fyrir að hægt sé að veita öðrum en einstaklingum, líka fyrirtækjum, almenn íbúðarlán. Ég verð að segja að þessa breytingu tel ég vera til bóta, og vil leggja áherslu á það, því það er ein af undantekningunum sem sannar regluna í þessu efni.

Í 4. gr. frv. er talað um nýjung þar sem er hlutareign og sala skuldabréfa. Ég vil segja líka um það, að mér finnst það athyglisvert út af fyrir sig, enda er það sama breyting og gert var ráð fyrir í frv. í vor og húsnæðismálastjórn var sammála um.

Ég skal fara fljótara yfir sögu en hæstv. ráðh., sé ekki ástæðu til að fara svo glöggt út í hverja grein fyrir sig. Í 6., 7. og 8. gr. er að finna ákvæði um að bakábyrgð sveitarfélaga falli niður og um frestun afborgana af lánum. Skal ég ekki vera með nein gagnrýnisorð um þau ákvæði.

Ég vil segja sama um 9. gr. Ég vil ekki vera með gagnrýnisorð varðandi hana. En varðandi það hlutskipti sem viðskiptabönkunum er ætlað rísa upp spurningar um það hvort viðskiptabankarnir ráði við það.

Þá kem ég að einu atriði sem er eitt höfuðatriðið í þessu frv. Það er 10. gr. þess. Þar er tekið fram að ákvörðun um vexti íbúðarlána, almennra lána úr Byggingarsjóði ríkisins, skuli tekin af ríkisstj. að fengnum tillögum Seðlabankans. Hér er um ákaflega veigamikla breytingu að ræða. Í gildandi lögum og frá því að lög um húsnæðismálastjórn voru fyrst sett árið 1955 hefur verið ákveðið í löggjöfinni sjálfri hvað vextirnir ættu að vera háir. Samkv. núgildandi lögum eiga vextir af íbúðarlánum Byggingarsjóðs ríkisins að vera 2%. Þetta er fellt niður og það rísa ýmsar spurningar í því sambandi.

Það hefur alla tíð verið gert ráð fyrir þeim möguleika að almennir vextir af íbúðarlánum Byggingarsjóðs þyrftu að vera lægri en almennt gerist, það væri nauðsynleg aðstoð við húsbyggjendur í landinu. Nú hefur hæstv. ríkisstj. og hæstv. félmrh. hafnað þessari stefnu. Það verður ekki annað séð en það sé einn liður í því að brjóta niður það veðlánakerfi sem Byggingarsjóður ríkisins hefur verið grundvöllur fyrir. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. félmrh. og ég vænti þess að hann svari því þegar í 1. umr.: Hver er ástæðan fyrir því, að ríkisstj. velur þá leið að hætta að festa vextina í lögum, en leggja það á vald ríkisstj. á hverjum tíma, á tímum þeirrar hávaxtastefnu sem ríkisstj. fylgir í dag? Ég óska eftir svörum hæstv. ráðh. við því. Hverju ætlar ríkisstj. að ná fram með þessari grundvallarbreytingu?

Í 11. gr. frv. er talað um heimild til óákveðinnar hækkunar á lánum og lengingar lánstíma og heimild til þess að hækka íbúðarlán til skyldusparenda um 25%. Hæstv. félmrh. sagði um þetta að engin heimild til slíks væri í fyrri lögum. Það er engin heimild til slíks í núgildandi lögum, en það var heimild til þessa í þeim lögum sem hæstv. núverandi félmrh. og núverandi ríkisstj. fékk felld úr gildi. Þetta ákvæði var í lögum eða hliðstætt ákvæði fyrir 1980, en hæstv. ráðh. ber ábyrgð á því að það var fellt niður 1980. Nú þykist hann vera að gera stóra hluti með því að taka hliðstætt ákvæði inn í löggjöfina á ný.

Í 12. gr. er um að ræða ákvæði um nýjan lánaflokk leiguíbúða. Virðist mér að það sé sjálfsagt og sé til bóta frá núgildandi lögum. En þetta var ein af tillögunum sem voru í frv. sem lagt var fram á síðasta þingi og húsnæðismálastjórn hafði farið höndum um og verið sammála um.

Í 13. gr. er að finna ákvæði um að niður falli ákvæði sem er í núgildandi lögum og var hortittur í lögunum. Við sjálfstæðismenn bárum fram um 40 eða fleiri brtt. við frv. að húsnæðislöggjöf frá 1980, og meðal annars bárum við fram till. um þessa breytingu. Hæstv. félmrh. talaði á móti brtt. okkar þá. Það hefur tekið hann nær þrjú ár að átta sig á svo einföldum hlut sem þessum. Af þessu má að nokkru marka hvílíkt tregðulögmál gildir í stjórnarherbúðunum, þegar um það er að ræða að reyna að bæta húsnæðislöggjöfina, jafnvel þó það sé ekki um annað en að fella úr henni hortitti sem allir ættu að sjá við fyrstu sýn.

Ég sagði hér áðan að ég ætlaði ekki að fara jafn nákvæmlega út í einstakar greinar og hæstv. ráðh. gerði. Það var eðlilegt að hæstv. ráðh. gerði það, því hann vildi tíunda hvað eina sem var í hverri grein. Ég hef ekki áhuga á slíku því að margt í greinum frv. er, eins og ég sagði áðan, ákvæði sem ekki eiga heima í raun og veru í lögum og oft eru, þegar best lætur, aðeins í reglugerð og eru um framkvæmdaratriði sem engin ástæða er til að setja lagaákvæði um.

Hæstv. ráðh. vék nokkuð að 18. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir veiti lán til verkamannabústaða og þeir fái 1. veðrétt í verkamannabústöðum fyrir lánum sínum. Ég skal ekki ræða þetta efnislega, en ég bendi á það sem dæmi um þá tilhneigingu sem fram kemur í þessu frv., að gera Byggingarsjóð verkamanna að almennum lánasjóði og rýra um leið möguleika hans til að aðstoða sérstaklega þá sem við mesta örðugleika eiga að stríða við að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Þessi tilhneiging kemur ennfremur fram í 19. gr. frv. Þar er tekið fram að vextir af lánum Byggingarsjóðs verkamanna skuli ákveðnir af ríkisstj. að fengnu samþykki Seðlabanka Íslands, en horfið frá þeirri reglu sem jafnan hefur verið í lögum um verkamannabústaði frá því 1931, að það hafa verið ákveðnir fastir vextir í löggjöfinni sjálfri til þess að tryggja að hægt væri að aðstoða þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu til að koma sér upp þaki yfir höfuðið með því að tryggja þeim óvenjuleg og sérstaklega hagstæð lánakjör.

Ég spyr hæstv. félmrh.: Hvernig stendur á því að nú er vikið frá þessari reglu, sem gilt hefur um verkamannabústaði í 50 ár? Hvernig stendur á því? Er það vegna þess að ríkisstj. vill hafa svigrúm til að hækka vexti af lánum til verkamannabústaða og hafa samræmi á milli annarra vaxta í landinu skv. hávaxtastefnu þeirri sem ríkisstj. fylgir? Þetta er slíkt grundvallaratriði í þessari löggjöf að deildin á rétt á því að fá svar við slíkum grundvallarspurningum sem hér er um að ræða.

Herra forseti. Ég hefði ástæðu til að fara út í ýmis fleiri atriði, en mig langar til þess að stytta mál mitt. Ég ætla þess vegna ekki t.d. að fara neitt út í þann kafla frv. sem varðar byggingarsamvinnufélög. Meginhluti þess kafla er óbreyttur frá gildandi lögum. Ríkisstj. hefur gert þetta frv. miklu veigameira með því að slengja ákvæðum laga um byggingarsamvinnufélög inn í frv. Ég hef ekki á móti því. Það er ekkert óeðlilegt að ákvæði um byggingarsamvinnufélög séu í hinni almennu löggjöf. Ég er ekki að gagnrýna það í sjálfu sér. En þegar farið er yfir þetta frv. þá spyr maður sjálfan sig hvert sé aðalatriðið. Þarna ægir saman fjölda atriða, sem eru ákaflega mismunandi þýðingarmikil og sum þess eðlis að eiga naumast erindi í almenna löggjöf um húsnæðismál, frekar þá í reglugerðir stundum þegar best gegnir. Og sumt af því sem er í frv. ber augljósan vott lýðskrums, sem mönnum verður stundum ákaflega hætt við að falla fyrir, einmitt þegar rætt er um þennan málaflokk.

Mér virðist að aðalatriði frv. varðandi Byggingarsjóð ríkisins séu ákvæði 2. gr. um fjáröflunina, sem ég hef þegar rætt um.

Í öðru lagi nefni ég ákvæði 10. gr. frv. um ákvörðun vaxta, sem ég hef þegar rætt um og óskað eftir svörum hæstv. ráðh. við ákveðnum spurningum þar að lútandi.

Og í þriðja lagi vil ég telja eitt af aðalatriðunum breytinguna á innheimtuaðferð skyldusparnaðar, að hverfa frá sparimerkjunum og taka upp póstgíróaðferðina. Það er framkvæmdaratriði og ég get vel látið mér til hugar koma að það sé spor í rétta átt.

Þetta er um Byggingarsjóð ríkisins. En hver eru aðalatriði í frv. varðandi Byggingarsjóð verkamanna?

Það er að mínu viti í fyrsta lagi ákvörðunin um vexti af lánum til verkamannabústaða. Ég hef rætt sérstaklega um það mál og ég hef óskað svara við ákveðnum spurningum frá hæstv. ráðh. um það efni.

Þá er í öðru lagi það ákvæði að aðrir aðilar en sveitarfélög geti fallið undir kerfi leiguíbúða. Ég held að þetta sé rétt stefna og hef ekkert nema gott að segja um þetta atriði, enda mun ég sjálfur oft hafa bent á nauðsyn þessa, en því miður ekki fengið hljómgrunn fyrir því.

Í þriðja lagi að í 30. gr. frv. er um að ræða heimild til lækkunar framreiknaðs verðs söluíbúða til samræmis við markaðsverð. Þetta er um verkamannabústaðaíbúðir. Mér virðist að þetta ákvæði sé ekki ámælisvert heldur stefni í rétta átt.

Þá kem ég að fjórða atriðinu, sem ég hef verið að leitast við að flokka undir aðalatriði þessa frv., og það eru bindingarákvæði skyldusparnaðar námsmanna samkv. 31. gr. Ég verð að segja það, að ég sé ekki annað en að það geti verið til bóta.

Ég hef hér talið upp sjö atriði sem ég hef í mínum huga flokkað undir að vera höfuðatriði þess sem um er að ræða í því frv. sem við nú ræðum. Ég geri mér ljóst að það má telja önnur atriði kannske með sama rétti og kannske hæpið að nefna sumt af því sem ég nefndi til höfuðatriða. En það er þó rétt að reyna að gera sér grein fyrir því hver aðalatriðin eru. Og það er þeim mun meiri ástæða til þess þar sem hér er að finna svo mikið af aukaatriðum og málskrúði, að til þess að átta sig á kjarna málsins er í þessu tilfelli — eins og raunar jafnan — nauðsynlegt að gera sér grein fyrir aðalatriðunum.

Ég hef hér ekki rætt um það sem vantar í þetta frv., eða um húsnæðisstefnuna í heild, og ætla ekki að hefja almennar umr. um slíkt. Það væri að sjálfsögðu hægt að hugsa sér að fullkomið tilefni væri til slíks. Ég mun þó neita mér um þá ánægju í þetta sinn, en taldi nauðsynlegt að ræða nú þegar við 1. umr. allítarlega um málið og koma að þýðingarmiklum spurningum til hæstv. félmrh., því að gott væri að fá svar við þeim áður en sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar fer að starfa í málinu.